Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:48:36 (5446)

1996-04-30 23:48:36# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:48]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf engra skýringa við þegar ég hlusta t.d. á Kristján Ragnarsson, talsmann LÍÚ, andmæla veiðileyfagjaldi vegna þess að hann fær borgað kaup fyrir það að halda fram málstað þeirra sem úthlutað hefur verið af ríkinu ókeypis forræði yfir veiðiheimildunum. Hv. þm. er hins vegar ekki svo ég viti talsmaður sérhagsmuna og ég skil einfaldlega ekki hvernig hv. þm. sem er hins vegar talsmaður stjórnmálaflokks, sem kennir sig við alþýðu og vill gjarnan kenna sig við jafnaðarstefnu, gengur í lið með fulltrúum forréttindanna í þessu máli. Hv. þm. veit að ótakmörkuð sókn einkaaðila í takmarkaða auðlind leiðir ævinlega til tvenns: eyðingar auðlindanna og gersamlega óhagkvæmrar og óarðbærrar nýtingar á auðlindinni.

Það vill svo til að ríkisvaldið, Alþingi Íslendinga, hefur lögbundið takmörkun að auðlindinni, úthlutað tiltölulega fáum útvöldum þessum aðgangi, útilokað aðra frá þeim aðgangi, gerir það ókeypis og færir þar af leiðandi þessum hinu fáu útvöldu verulegan arð af nýtingu auðlindarinnar sem er í algerri þversögn við það sem löggjafinn hefur sagt, að auðlindin skuli vera sameign þjóðarinnar. Þar með er mismunað atvinnugreinum í landinu og hv. þm. hlýtur að vita af þekkingu sinni á efnahagsþróun annarra þjóða að þar sem svo háttar til að þjóðir byggja afkomu sína á miklum auðlindum en ótakmörkuðum aðgangi að þeim hefur það ævinlega endað með ósköpum. Dæmin blasa við. Rússland, Sovétríkin í samanburði við þjóðir eins og Japani eða Dani sem byggja á mannviti og mannauði.

Að það sé óframkvæmanlegt sem hv. þm. hélt fram að því er varðar þau dæmi um framkvæmdina að óbeinni eignaraðild er svarið þetta: Við erum hér með, þ.e. stjórnarmeirihlutinn, að koma með frv. sem er einfaldlega að reyna að fela það að ekki var hægt að framkvæma skilyrðislausa lokun. Það var engin leið að reyna að framkvæma þessa löggjöf né hafa eftirlit með henni svo að nokkurt hald sé í. Það er ekkert hald í þessari löggjöf. Þess vegna vantar ný rök. En að þingmaður Alþb. skuli ganga í lið með þeim sem eru talsmenn sérhagsmuna í þessu máli þarfnast einhverra sérstakra skýringa.