Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:51:45 (5447)

1996-04-30 23:51:45# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. meiri hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Við þurfum miklu meiri tíma til þess að ræða til botns auðlindaskattinn og við þurfum líka að gera það af miklu meiri yfirvegun en þetta andsvar gaf tilefni til. Að stilla málum þannig upp að ég sé að gerast talsmaður sérhagsmunanna og það sé mikið hneyksli, sérstaklega af því að ég sé úr Alþb. er ekki mjög málefnalegt. Fyrir það fyrsta hefur hv. þm. ekki tekið eftir því að Alþb. hefur aldrei tekið upp neinn stuðning við auðlindaskatt. Það er ekki flokksleg stefna okkar þannig að ég er að tala út frá þeirri afstöðu sem við höfum haft.

Í öðru lagi erum við bara ósammála um það hvort auðlindaskatturinn sem slíkur, sem tæki, sé brúklegur í þessu skyni. Ég held að ég og hv. þm. séum ekki ósammála um grundvallaratriðin, þ.e. að varðveita sameign auðlindarinnar og að arðurinn eigi að skila sér til þjóðarinnar. En það eru til fleiri leiðir til þess. Talandi um mismunun tel ég að það eitt væri virkileg mismunun í þessum efnum að innleiða sértækan skatt á eina atvinnugrein en ekki þá á aðrar sambærilegar. Ég tel að það geti varla staðist nútímaleg viðhorf til jafnræðisreglna að skattleggja sjávarútveginn einan sér en ekki aðrar greinar sem með sambærilegum hætti megi segja að nýti auðlindir.

Að segja að það hafi alls staðar farið illa í heiminum þar sem menn hafi búið við miklar auðlindir og sambúð þeirra við aðrar atvinnugreinar er eiginlega eins og að segja að auðlindin sé af hinu illa. Er það þá ekki að verða niðurstaðan að það sé til bölvunar að hafa þessi fiskimið eða hvað? Ég held að svona málflutningur gangi ekki upp.