Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:59:32 (5451)

1996-04-30 23:59:32# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:59]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns beina orðum mínum til forseta um framhald fundarins. Nú er það svo að klukkan er að verða 12 og það er að renna upp 1. maí. Umræðan hefur dregist aðeins þó að málefnaleg umræða sé í fullum gangi eins og forseti veit vel um. Ég bendi á að ég er frsm. minni hluta efh.- og viðskn. og minni jafnframt á að gert var samkomulag um það áður hvernig þessum málum skyldi háttað. Það var gert samkomulag um það að framsögumenn meiri hluta og minni hluta flyttu nefndarálit sín fyrir nokkuð mörgum dögum og síðan var umræðunni frestað og það er sú umræða sem er í gangi núna.

Ég fer þess á leit við forseta að umræðu verði frestað með tilliti til þess að nú er runninn upp almennur frídagur í landinu. Ég held að það þurfi ekki að útskýra það fyrir forseta. Ég tel mjög óheppilegt að þing sé að störfum fram yfir miðnætti. Mér finnst sanngjarnt að ég fái tækifæri til að ræða þetta mál og gera grein fyrir ákveðnum þáttum sem hafa komið fram í umræðunni miðað við það fyrra samkomulag sem varð um málsmeðferð.

[24:00]

Það hafa komið fram fjölmargar ábendingar sem ég tel rétt að ég fái sem frsm. að fara yfir. Ég bendi líka á að það var gert samkomulag um það mér skilst að nokkrum málum væri vísað umræðulaust til nefndar og ég vil að öllu leyti hlíta forsjá forseta í þessum efnum. Ég vil ekki standa í vegi fyrir því. Ég tel hins vegar óeðlilegt að ég flytji ræðu mína núna þegar það er komið fram á þennan tímapunkt. Ósk mín er því sú, herra forseti, hvort það væri hægt við þessar aðstæður sem ég hef verið að lýsa og ætla ekkert að gera meira veður út af því að fresta umræðu um þetta mál.

(Forseti (ÓE): Forseta er ljóst að 1. maí er runninn upp, frídagur verkamanna, en óskar samstarfs við hv. þingmenn um það að umræðunni megi ljúka þótt hún dragist eitthvað fram yfir miðnættið. Forseti bendir jafnframt á að þetta er 2. umr. þannig að það gefst enn tækifæri til að ræða málið við 3. umr. ef hv. þingmenn kjósa svo en forseti ítrekar óskir um samstarf um að þessari umræðu geti orðið lokið og gengið verði á dagskrána eftir númeraröð. Það eru fimm mál eftir sem ætlunin var að koma til nefndar í trausti þess að um þau yrðu ekki umræður. Með vísun til þessa óskar forseti eftir að hv. þm. haldi áfram ræðu sinni.)

Ég þakka herra forseta. Ég harma að ákvörðun hans skuli vera á þennan veg. Ég get fært að því rök að ég tel mjög óheppilegt að umræða haldi áfram á þessum degi, sérstaklega með tilliti til þeirrar umræðu sem hefur verið á hinu háa Alþingi og úti í þjóðfélaginu sem tengist þessum degi. Ég mun ekki flytja það mál sem ég ætlaði að gera og fara efnislega yfir frv. Það verður að bíða betri tíma ef sá tími gefst á annað borð. Ég vil sýna þessum degi þá virðingu að gera það ekki af minni hálfu að halda umræðu gangandi. Ég harma niðurstöðu forseta varðandi þetta mál að kveða upp þennan úrskurð sem ég hlýði vitaskuld og ætla ekki að gera neitt meira mál út úr því. Ég hefði talið heppilegt að fara aðra leið að þessu máli en ég fell frá orðinu í efnisumfjöllun um málið.

(Forseti (ÓE): Forseti þakkar samstarfsvilja hv. þm. og mun sjá til þess að 3. umr. fari fram á tíma sem heppilegur verður til þess að ræða málið frekar.)