Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:03:28 (5454)

1996-05-02 13:03:28# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:03]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í gær var 1. maí og þá var gengin kröfuganga í Reykjavík í 73. sinn að þessu sinni undir kjörorðunum: ,,Skerðingarfrumvörpin burt,`` þ.e. skerðingarfrumvörp ríkisstjórnarinnar um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur.

Nú háttar svo til, hæstv. forseti, að félmn. hefur borist álitsgerð frá Lagastofnun Háskóla Íslands sem unnin er af lögmönnunum Sigurði Líndal prófessor og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni. Reyndar er hvorugur sérfræðingur í vinnurétti en þrátt fyrir það komast þeir að þeirri niðurstöðu að frv. hæstv. félmrh. um stéttarfélög og vinnudeilur brjóti í bága við samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Jafnframt benda þeir á fjölmörg atriði sem betur mega fara, atriði sem eru álitamál og bentu á óljósan tilgang frv. í mörgum greinum. Nefni ég þar sérstaklega 2. og 5. gr. frv. Þrátt fyrir þessa álitsgerð sem hæstv. félmrh. hefur borist í hendur lýsti hann því yfir í sjónvarpi í gærkvöldi að hann væri harla ánægður, harla ánægður með það að hafa lagt fram frv. sem brýtur í bága við alþjóðasamþykktir sem Íslendingar eru aðilar að og hafa samþykkt.

Hæstv. forseti. Þetta er afar sérkennileg staða sem er komin upp og undirstrikar einfaldlega að það á að verða við þeim kröfum sem gervöll verkalýðshreyfingin hefur sett fram um það að frv. verði dregið til baka. Það er illa unnið og illa hugsað og það þarf miklar endurbætur að gera á því til þess að það verði viðunandi. Því legg ég til, hæstv. forseti, og fer þess á leit að frv. verði tekið út af borðinu og menn setjist niður í góðu samkomulagi við að vinna málið upp á nýtt.