Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:12:20 (5458)

1996-05-02 13:12:20# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það var athyglisvert að fylgjast með því í gær í fjölmiðlum hvernig félmrh. gaf yfirlýsingar um það verklag sem haft yrði gagnvart lögunum um sáttastörf í vinnudeilum eða vinnumarkaðsfrv. sem félmn. fjallar nú um. Um leið og hann hafði kynnt sér álit Lagastofnunar var hann tilbúinn að kippa út því sem þar var krafsað í. Kippa því bara út, ekkert mál. Mér fannst það athyglisvert vegna þess að það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra tekur greinilega fullt mark á Lagastofnun en hann tekur ekkert mark á verkalýðshreyfingunni.

Hins vegar er spurning fyrst hann tekur svona mikið mark á Lagastofnun af hverju hann les þá ekki skýrsluna svolítið betur. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í þar sem Lagastofnun er vinsamlegast að benda ráðherranum á það hvernig sé rétt að haga sér. Hér stendur á bls. 2:

,,Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf hefur lagt áherslu á mikilvægi reglulegs samráðs stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja frið í þjóðfélaginu, þar á meðal samráð við undirbúning löggjafar sem snertir þá.`` Hér stendur síðan á bls. 10: ,,Færa má rök fyrir því að hætta geti verið á skyndilegri röskun á starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðarins í heild vegna hinnar beinu íhlutunar löggjafans að heimila almennt stofnun vinnustaðarfélaga í stað núgildandi reglna um starfsgreinafélög.``

Ráðherrann segist reyndar ætla að kippa þessu út en það er ítrekað farið í það meginsjónarmið, sem er síðan endurtekið á bls. 14, að það verði að gæta hófs, það verði að leita samráðs og það sé rétt fyrir stjórnvöld að setja reglur og lög um vinnumarkaðinn í friði við þá sem við það eiga að búa. Þess vegna spyr ég: Er ekki ráðherrann jafntilbúinn til þess að líta til þeirra viðvarana sem koma fram víðs vegar í skýrslunni, þeirra viðvarana Lagastofnunar varðandi það atriði að setja lög í blóra við verkalýðshreyfinguna rétt eins og hann er tilbúinn að kippa öðru út?