Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:24:23 (5463)

1996-05-02 13:24:23# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef ekki verið í neinni varnarstöðu með þetta mál. Minn metnaður stendur til þess að Alþingi afgreiði breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, breytingar sem eru í framfaraátt, sem standast stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Ég hef tekið mark á verkalýðshreyfingunni og þess vegna setti ég fram hugmyndir að breytingum á þeim atriðum sem verkalýðshreyfingin hafði sérstaklega gagnrýnt, þ.e. vinnustaðarfélög, þröskulda og afgreiðslu miðlunartillagna. (ÖJ: Þetta er rangt, ráðherra. Hún vill að frumvörpin verði dregin til baka.) Verkalýðshreyfingin samanstendur af mörg þúsund mönnum. Þó að tveir menn eða þrír taki mikið upp í sig á Lækjartorgi í gær, þá tala þeir ekki fyrir munn verkalýðshreyfingarinnar. Ég vil fá fram ... (Gripið fram í: Nú!) (ÖJ: Hver gerir það þá?) Ég tek mark ... (Gripið fram í: Gerir ráðherrann það?) (Gripið fram í.) Ég tek mark á Lagastofnun háskólans.

(Forseti (ÓE): Hljóð í salnum.)

Og þess vegna vil (Gripið fram í.) ég fá fram breytingar á frv. enn fremur. Félmn. bað um álit Lagastofnunar. Það var ekki ég. Það var félmn. Félagsdómur er óbreyttur frá gildandi lögum. Ákvæðin um félagssvæðin eru líka óbreytt frá gildandi lögum.

Herra forseti. Varðandi stjórnarskrárbrotið segir í áliti Lagastofnunar, með leyfi forseta: ,,Niðurstaða okkar er sú að með framlagningu frv. hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár eða alþjóðasáttmála.`` Í niðurstöðunum segir:

,,Framlagning frv. felur ekki í sér ólögmæta íhlutun ríkisvaldsins um málefni sem stéttarfélögum er rétt að kveða á um sjálf.`` Og í öðru lagi: ,,Ákvæði frv. um samningsumboð og samþykkt kjarasamninga verða ekki talin andstæð ákvæðum alþjóðasáttmála um félagafrelsi og starfshætti stéttarfélaga, enda virðast þau til þess fallin að styðja að auknu lýðræði innan stéttarfélaga.`` Enn fremur segir: ,,Ekki verður séð að ákvæði frv. um lagaskilyrði fyrir verkföllum, þar á meðal um atkvæðamagn til löglegrar verkfallsboðunar fari í bága við það sem alþjóðasáttmálar áskilja.`` Og að lokum, herra forseti: ,,Ekki verður séð að neitt sé við ákvæði frv. um viðræðuáætlun að athuga.``

Herra forseti. Er að undra þó að ég sé ánægður með svona álit?