Úthlutun sjónvarpsrása

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:01:32 (5471)

1996-05-02 14:01:32# 120. lþ. 129.91 fundur 279#B úthlutun sjónvarpsrása# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:01]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Svar hæstv. menntmrh. er með ólíkindum. Það er spurt um afstöðu ráðherra gagnvart tilteknum þáttum við þessa úthlutun, m.a. hver sé afstaða hans og hvort setja ætti skýrari reglur um þá úthlutun Það er spurt um gjaldtöku af þessum heimildum. Í stað þess les ráðherra upp bréf útvarpsréttarnefndar. Ég skoða svar ráðherra sem fyrirlitningu gagnvart þingheimi. Að koma hér upp í ræðustól það eru skýrt orðaðar spurningar, hann svarar þeim í engu, notar allan ræðutíma sinn því hann vissi áður en hann fór í ræðustól hve mikinn ræðutíma hann hafði og svara málinu með þessum hætti. Þetta gengur ekki, herra forseti. Það liggur hér fyrir og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hefur bent á að það er mikið álitamál hvernig útvarpsréttarnefnd er skipuð og menn verða að huga að hagsmunatengslum í sambandi við þau mál. Báðir þeir einstaklingar sem þarna eru eru mætustu menn, ég get vitnað um það, en það er mikil spurning hvort það hafi verið óeðlilegt þegar skipað var í nefndina á sínum tíma. Það má líka benda á að það er stofnað sérstakt fyrirtæki af hálfu eigenda Stöðvar 3 til að sækja um leyfi því að raunveruleg eignatengsl milli fyrirtækjanna voru ekki viðurkennd. Það er greinilega mjög margt óljóst í þessu.

Ég bendi á að því hefur verið varpað fram í blaðagrein af prófessor við Háskóla Íslands, um fjárhagsleg tengsl stjórnmálaflokka og sjónvarpsstöðva og þá í tengslum við þessa umræðu. Þetta eru hlutir sem stjórnmálaflokkar verða vitaskuld að gera mjög vel grein fyrir. Það er enginn að segja að það sé nokkuð bogið við þessa úthlutun eða það hafi verið nokkuð annað gert en að fara að almennum reglum en þjóðfélagið krefst þess að um þetta ríki mikil upplýsingaskylda og að þessir hlutir séu gegnsæir þegar kemur að svona málum. Ég hvet, herra forseti, hæstv. ráðherra til að koma með sómasamlegt svar við spurningunum.