Úthlutun sjónvarpsrása

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:03:48 (5472)

1996-05-02 14:03:48# 120. lþ. 129.91 fundur 279#B úthlutun sjónvarpsrása# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Því miður var lítið á svari ráðherrans að græða við þeim spurningum sem ég hafði sent honum fyrir tveim dögum. Ég vísa því á bug að hér hafi verið um dylgjur að ræða í garð þeirra sem eiga sæti í útvarpsréttarnefnd. Ég var einungis að benda á að a.m.k. seta tveggja aðila þar væri í andstöðu við anda stjórnsýslulaganna.

Varðandi úthlutun tveggja sjónvarpsleyfa Stöðvar 3 til Sýnar og skýringa útvarpsréttarnefndar á því að þar væri um sjálfstæðan lögaðila að ræða er það náttúrlega öllum ljóst að Stöð 2 og Sýn, þó það séu tvö aðskilin fyrirtæki, eru í eigu sömu aðila. Það er markaðsráðandi fjölmiðill í einkarekstri hér á landi, hann notar sömu tæki og sameiginlega innheimtu, þannig að það er algjörlega út í hött að halda því fram að þarna séu engin tengsl á milli. Og það að ríkið sé að skerða aðstöðu eina einkarekna samkeppnisaðilans til að bæta markaðsstöðu þessa er náttúrlega út í hött. Það hefði verið full ástæða til þess að útvarpsréttarnefnd leitaði til Samkeppnisstofnunar áður en farið var út í úthlutun. Það er eins og ég benti á áðan líklegt að hún sé brot á samkeppnislögum eða vissulega öndverð anda laganna. Núgildandi reglur eru vissulega ekki viðunandi. Eins og kemur fram hér í bréfi undirrituðu af Kjartani Gunnarssyni, formanni útvarpsréttarnefndar og framkvæmdastjóra Sjálfstfl., kemur það greinilega fram í bréfi til Íslenska Sjónvarpsins sf. sem ég ætla að vitna í, með leyfi forseta, að bráðabirgðaleyfi, sem eru sjónvarpsrásirnar sem ég er að gera hér að umtalsefni, er veitt með því skilyrði að nefndin hefur rétt til að endurskoða leyfisveitinguna og getur ákveðið að leyfishafi skili fyrirvaralaust og bótalaust þeim bráðabirgðaleyfum sem veitt eru áður en leyfistími er fullnaður ef það er nauðsynlegt að mati nefndarinnar af samkeppnisástæðum. Ekki hefur komið nein skýr ástæða fyrir því hvers vegna leyfin voru tekin þar af Stöð 3 eins og ég spurði ráðherrann að. Því tel ég nauðsynlegt að það verði settar úthlutunarreglur, skýr ákvæði um hversu langan tíma sjónvarpsrásum er úthlutað því að eins og háttar í dag er hægt að kippa rekstrargrundvelli undan stöðvunum án nokkurs fyrirvara.

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu.

(Forseti (ÓE): Tíminn er úti.)

Ég skora á hæstv. ráðherra að setja á laggirnar nefnd óháðra aðila til að vinna þessa vinnu.