Úthlutun sjónvarpsrása

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:06:46 (5473)

1996-05-02 14:06:46# 120. lþ. 129.91 fundur 279#B úthlutun sjónvarpsrása# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom tókst mér ekki að ljúka öllu bréfi útvarpsréttarnefndar en ég taldi rétt að sjónarmið hennar fengju að koma fram. Hún er kjörinn af Alþingi, starfar sem sjálfstætt stjórnvald og það er til hennar sem menn eiga að snúa sér vegna mála af þessu tagi ef þeir sætta sig ekki við niðurstöðuna. Þessi nefnd var sammála í ákvörðun sinni um þetta mál. Í henni eiga sæti fulltrúar flokkanna og undir bréfið sem ég var að reyna að ljúka við að lesa á þessum of skamma tíma, ritar Árni Gunnarsson, fyrrv. alþm., sem er varaformaður nefndarinnar. Eins og ég sagði stóð nefndin einhuga að þessu bréfi. Á tíu árum hefur nefndin yfirleitt og ætíð staðið einhuga að öllum niðurstöðum sínum um þessi viðkvæmu mál.

Spurt er um afstöðu til gjaldtöku. Í útvarpslögunum, sem eru í gildi, er ekki veitt heimild til gjaldtöku. Það er talað um að það sé samningsatriði á milli nefndarinnar og stöðvanna hvaða gjald er tekið. Nefndin hefur ákveðið og orðið sammála um að taka sama gjald af öllum stöðvum og miða við það gjald svipaða fjárhæð og gildir þegar menn fá leyfi til atvinnurekstrar, verslunarleyfi eða annað slíkt. Ef það á hins vegar að fara að bjóða upp þessar rásir eða skattleggja þær með öðrum hætti þarf Alþingi að taka af skarið og það er ekki nefndarinnar. Ég mun jafnvel í dag eða á morgun kynna skýrslu um endurskoðun á útvarpslögum þar sem m.a. er tekið á þessum málum. Þá geta menn séð hugmyndir um það hvernig væri hægt að nálgast þetta á nýjum forsendum án þess að þar séu tillögur um gjaldtöku eða sérstaka skattlagningu vegna þess að þau gæði sem eru takmörkuð núna verða það ekki lengi ef tækninni fleygir svo fram sem horfir. Þá verður hér ótakmarkaður fjöldi útvarps- og sjónvarpsrása sem menn geta nýtt sér ef þeir hafa til þess tæknilegan búnað. Það mál er því kannski tímabundið vandamál að ríkið geti reynt að hagnast sérstaklega á því svo málin verða áfram til umræðu. Ég ítreka það sem ég sagði að útvarpsréttarnefnd á ekki skilið að sitja undir dylgjum um að menn hafi verið þar að sinna einhverjum óeðlilegum hagsmunum með því að taka þá afstöðu sem hér hefur verið til umræðu. Ég vísa slíkum dylgjum algjörlega á bug.