Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:11:45 (5474)

1996-05-02 14:11:45# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:11]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. menntmn. um frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn fulltrúa frá menntamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands og Hinu íslenska kennarafélagi.

Frumvarpið er flutt vegna ákvæðis 57. gr. grunnskólalaga sem samþykkt voru á 118. löggjafarþingi, en þar er kveðið á um að Alþingi skuli fyrir 1. ágúst 1996 samþykkja lög um ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla sem tryggi þeim efnislega óbreytt ráðningarkjör hjá nýjum vinnuveitanda. Tryggir frumvarpið kennurum og skólastjórnendum grunnskóla sama rétt og samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, auk þess sem áfram eru tryggð réttindi sem kennarar og skólastjórnendur njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989 og 411/1989. Fór undirbúningur að gerð frumvarpsins fram í samvinnu við sveitarfélög og kennara.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um þetta mál sem hér er til umræðu. Um það er pólitísk samstaða á hinu háa Alþingi. Málið tengist flutningi grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga sem unnið er að í fullri sátt allra málsaðila, kennara, sveitarfélaga og ríkis.

Hér er stigið enn eitt skref til að það mikilvæga mál nái fram að ganga snurðulaust 1. ágúst nk. eins og grunnskólalög mæla fyrir um.