Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:22:36 (5476)

1996-05-02 14:22:36# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:22]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Nú er loks komið til umfjöllunar á Alþingi frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórenda grunnskóla. Ekki þar fyrir að frv. var rætt við 1. umr. og fór síðan til nefndar en það verður að segjast eins og er að svo sannarlega hefði þetta mál þurft að vera fyrr á ferðinni. En það er þó fagnaðarefni að nú eru loks komin á borð þingmanna öll þau fylgifrv., þó maður skyldi kannski aldrei segja öll, heldur er rétt að vera með varann á hvað það varðar, en a.m.k. þau fylgifrv. sem áskilnaður er um í grunnskólalögum. Hér er komið frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga. Það er komið frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, sem við ræðum síðar í dag, það er reyndar ekki áskilnaður um það í grunnskólalögum en er liður í flutningi grunnskólans. Síðast en ekki síst er hér loksins einnig komið fram í þinginu frv. til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Herra forseti. Ég vil aðeins gera það mál að umræðuefni. Það frv. sem hér liggur fyrir er þetta litla frv. sem við einhver vorum áður búin að nefna, það frv. sem nægir til að uppfylla ákvæði grunnskólalaga. Þetta frv. hefði auðvitað átt að koma fram strax í upphafi þingsins, það voru engin efni til annars. En þá gerðist því miður það sem hefði aldrei átt að gerast að ríkisvaldið reyndi að nota þetta tækifæri til breytinga á lögunum um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna til mun víðtækari breytinga en nokkur efni stóðu til. Ef sú tilraun hefði ekki verið gerð, ef einungis það litla frv. sem nú liggur á borðum þingmanna hefði þá komið fram, hefði ríkisstjórnin getað firrt sig þeim vandræðum sem hlutust í kjölfarið um eðlilegan framgang flutnings grunnskólans. Ef það hefði gerst þá hefðu líka sveitastjórnirnar í landinu getað staðið skipulegar að þeim málum sem að þeim snúa og þeir starfsmenn sem málið snýr að að stærstum hluta hefðu getað litið með jákvæðari hætti til þeirra breytinga sem þeir eiga í vændum en gefið var tilefni til.

Virðulegi forseti. Ég tel að það hafi verið mikið óhappaverk sem var unnið þegar farið var af stað með þær víðtæku breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem síðar voru reyndar dregnar til baka eftir að málið allt var komið í uppnám. Mér finnast þessi vinnubrögð sýna mjög ljóslega þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur ákvarðað varðandi þau mál sem liggja fyrir þinginu. Inn í þingið hafa komið ýmis stór mál sem snúa að ýmsum þeim hlutum sem varða hverja fjölskyldu í landinu eins og skólamál, bæði hvað varðar grunnskóla og framhaldsskóla. En af því að forgangsröð ríkisstjórnarinnar er sú sem fram er komin, þ.e. skerðingarfrv. skulu hafa forgang, þá lenda önnur mál í uppnámi og fá ekki þá umfjöllun eða þann stuðning sem efni þeirra gæfi í rauninni tilefni til. Þetta er mjög slæmt vegna þess að þegar um er að ræða mál eins og flutning grunnskólans sem er afskaplega viðkvæmt, varðar nánast hverja fjölskyldu í landinu, og varðar starfsumhverfi og framtíð barnanna, er auðvitað æskilegt að menn vandi sig og fari fram með þeim hætti að um málið geti ríkt almenn sátt. Þess vegna nota ég tækifærið og harma þá atburðarás sem ríkisstjórnin efndi til með flumbrugangi varðandi framlagningu annarra mála sem áttu ekkert erindi á þeim tíma og ég efast um að eigi yfir höfuð nokkurt erindi. Vegna þess að ég ber hagsmuni grunnskólans fyrir brjósti vænti ég þess að skaðinn sé ekki það stór að hann megi ekki bæta.

Ég held að þetta ætti að kenna hæstv. ríkisstjórn að það þarf auðvitað að vinna málin í réttri röð. Ég vænti þess að hún dragi einhvern lærdóm af þessu en eftir þá umræðu og umfjöllun sem hér varð í dag um vinnumarkaðsmálin og viðbrögð félmrh. við gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar er ég satt að segja vondöpur um að öllum sé það gefið að skilja þó jafnvel sé reynt að kalla. Eigi að síður hlýt ég að binda vonir við að þessi mál geti fengið farsæla niðurstöðu.

Af því að vikið var að málefnum fræðsluskrifstofanna hér áðan held ég að nauðsynlegt sé að örlítið sé fjallað um þá hlið málsins vegna þess að þar sýnist mér að um sé að ræða þátt þar sem undirbúningur hafi ekki verið nægjanlegur. Nú er ljóst að starfsmenn fræðsluskrifstofanna fengu bréf ári áður en flutningurinn var fyrirhugaður þar sem þeim var tilkynnt um niðurlagningu stöðu sinnar. Eftir að þetta bréf kom fram fór m.a. það starf í gang hjá sveitarfélögunum sem laut að því að taka ákvarðanir um það með hvaða hætti þau uppfylltu þær kröfur sem til þeirra verða gerðar og eru að hluta til verkefni sem fræðsluskrifstofur hafa annast. Það er alveg ljóst að vegna þess að sveitarfélögin í landinu töldu að tryggilega væri frá þeim málum gengið leyfðu þau sér að hugsa þessi mál upp ap nýju á ýmsum sviðum. Þannig er það núna að skólaskrifstofur eða fræðsluskrifstofur eru að verða til úti um allt land og á mörgum stöðum á allt öðrum grunni en fræðsluskrifstofurnar hafa starfað.

[14:30]

Þannig hafa sveitarfélögin eðlilega notað það tækifæri sem gafst til að endurskoða aðra félagslega þætti og menntaþætti sem þau þurfa að sinna, t.d. stuðning gagnvart leikskólum sínum og hluta af félagsmálaþjónustunni, sem getur vel farið saman með þeim störfum sem unnin eru á skólaskrifstofum. Menn hafa verið að samþætta þessa hluti. Ekki einungis vegna þess að það sé hagkvæmara heldur líka vegna þess að sums staðar er þetta grundvöllur fyrir því að gott faglegt starf geti farið fram og að möguleikar séu til að veita fjölskyldunni þá þjónustu sem ber að veita samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Barnaverndarmál, stuðningur við leikskólana og fjölskylduna almennt hafa þess vegna mjög víða verið samþættuð þeim verkefnum sem sveitarfélögin eru að taka að sér í tengslum við yfirfærslu grunnskólans. Það er þess vegna dálítið seint ef það kemur í ljós núna að menntmrn. hefur ekki staðið rétt og eðlilega að niðurlagningu þeirra starfa sem eru og hafa verið á gömlu fræðsluskrifstofunum. Það er kannski ein aðvörunin enn, enn eitt sem menn þurfa að draga lærdóm af og gæti vonandi orðið eitt af því sem menn gætu tekið til einhverrar endurskoðunar. Að minnsta kosti held ég að sá stífi dans sem ríkið býr sig nú undir gagnvart þessum starfsmönnum sem eru óöruggir með stöðu sína, sé fullkomlega óþarfur og í rauninni til þess eins að gera illt verra.

Því miður, herra forseti, sýnist manni að ekki hafi verið staðið að ýmsum þáttum þessa máls eins og best hefði verið. Sífellt virðast koma upp dæmi þar sem betur hefði þurft að standa að málum.

Við munum seinna í dag ræða það frv. sem liggur fyrir um breytingu á lögunum um grunnskóla. Þar eru heilmörg stórmál sem skipta verulegu máli. Þar er verið að sveigja af þeirri braut sem áður hafði verið lögð að hluta og að hluta til eru það líka atriði sem á að geta náðst mjög góð sátt um og ætti að vera þá enn einn steinninn í þá hleðslu að það skapaðist traustur grunnur undir þennan flutning. Ég vil endurtaka, herra forseti, að það ber að fagna því að þessi frv., sem ég rakti í upphafi máls míns, eru komin fram þannig að menn geta nokkurn veginn séð fyrir endann á þeim málum sem áskilnaður var um og er um í grunnskólalögum. En ég vil enn ítreka þau varnaðarorð sem ég hafði uppi varðandi þann forgang sem ríkisstjórnin hefur haft og sett hér í þinginu og hefur orðið til þess að setja önnur og að mínu mati mun merkari mál í uppnám. Ég vil líka benda á hvað þessi vinnubrögð hafa haft í för með sér varðandi þá tortryggni sem starfsmenn nú sýna ríkisvaldinu. Þótt þau frv. sem við erum að fjalla um núna, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, séu góð og gild svo langt sem þau ná, hefur eðlilega gripið um sig ótti hjá kennurum um það að síðan yrði vegið aftan að þeim með svipuðum hætti og reynt var að gera varðandi lífeyrismálin. Sá ótti hefur orðið til þess að Samband íslenskra sveitarfélaga ritaði þeim bréf til að róa þennan stærsta hóp þeirra sem þessi flutningur kemur við með beinum hætti. Sambandið sá ástæðu til þess að gefa yfirlýsingu í tengslum við þennan flutning til þess að menn þyrftu ekki að óttast að ríkisvaldið kæmi aftan að kennurum. Ég vil lesa hér upp úr bréfi sambandsins, með leyfi forseta, eftirfarandi texta:

,,Sambandið fellst á að þegar samningsumboð við grunnskólakennara er komið til sveitarfélaganna verði kennurum heimilt að segja upp kjarasamningum verði gerðar breytingar með lögum á réttindum þeirra og skyldum í andstöðu við samtök kennara.``

Sveitarfélögin sáu sem sagt tilefni til þess, við getum kannski sagt neyddust til þess, vegna aðgerða ríkisins að gefa út þá yfirlýsingu að ef þeim lögum sem væntanlega verða samþykkt með þessu frv. verður breytt eða hnikað til án samráðs við samtök kennara, verður kennurum heimilt að segja upp kjarasamningum, þá jafngildi það í rauninni uppsögn kjarasamninga. Það að Samband íslenskra sveitarfélaga skyldi skrifa kennurum til þess að róa þá með þessum texta segir okkur best í hvaða stöðu þetta mál var komið. Ég vil þess vegna, herra forseti, ítreka þær óskir mínar að þó svo að allt of mikið hafi gengið á við flutning grunnskólans nú í vetur og allt of mörg feilspor hafi verið stigin komi það ekki til með að bitna til lengri tíma litið á grunnskólanum á Íslandi. Til þess er hann allt of mikikvægur.