Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:00:00 (5479)

1996-05-02 15:00:00# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:00]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar hæstv. menntmrh. sagði mér satt að segja ekki neitt vegna þess að í svari hans sagði m.a. varðandi efni málsins: Komi tilmæli frá sveitarfélögunum eða kennurunum þá verður tekið á þessu máli. Ef ágreiningur er milli þessara aðila þó að málið sé komið inn í kjarasamningafarveg og að niðurstaðan verði sú að samkomulag náist ekki, hvar liggur þá vilji núv. hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta Alþingis í dag? Hvar er þá vilji Framsfl. og Sjálfstfl.? Hann er á móti kennurunum af því að hann hlýtur að styðja það frv. og stefnu þess sem hann er að knýja fram á öðru spori í þinginu. Þess vegna verður auðvitað hæstv. menntmrh. að taka af skarið um það með hverjum hann stendur í þessu stríði. Stendur hann með kennurum eða stendur hann með sveitarfélögum ef til ágreinings kemur á milli þessara aðila? Það hefur hann ekki gert í svari sínu.

Varðandi 37. gr. þakka ég fyrir það svar. Það skipti miklu máli. Hann sagði að reglugerðirnar nr. 410 og 411/1989 halda gildi sínu og eru lögfestar ef þetta verður að lögum. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir.

Varðandi biðlaunaréttinn hef ég því miður ekki tíma til að svara því eins og hann kom inn á í andsvarstíma en það er auðvitað ljóst að á biðlaunarétti þeirra starfsmanna, sem er ekki beinlínis á dagskrá í þessu frv., verður þá að taka í öðru þingmáli áður en þessu þingi lýkur því að það er útilokað að láta þau mál hanga í lausu lofti.