Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:25:08 (5483)

1996-05-02 15:25:08# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. ræðu hennar. Ég tel mig ekki hafa gert neitt í þessum umræðum til að vekja þá hugmynd hjá hv. þm. eða öðrum að það standi til að níðast á einhverjum í þessu máli. Þvert á móti hef ég staðið þannig að málinu að það hefur náðst samkomulag um öll meginatriði þess. Og varðandi þá starfsmenn sem hv. þm. nefndi þá verður að sjálfsögðu fjallað um mál þeirra en vandinn í því, eins og ég sagði, er að það er erfitt að setja einhverja eina reglu um það. Það verður að taka á máli hvers og eins í samræmi við þá stöðu sem er og leysa það á grundvelli gildandi laga og reglna. Það verður gert. Verkefnisstjórnin hefur fjallað um þetta málefni. Verkefnisstjórnin hefur lokið störfum og sent mér bréf þess efnis að hún hafi lokið störfum þannig að það liggja fyrir í megindráttum öll málefni sem þarna þarf að taka á. Varðandi einstaklinga verður að sjálfsögðu tekið á þeirra málum þannig að menn stefni að því að leysa þau eins og vel og kostur er miðað við þær skyldur sem ríkisvaldið hefur, þau réttindi sem starfsmennirnir hafa og þá möguleika sem menn hafa til að bjóða þeim störf. En eins og við vitum hefur ríkisvaldið ekki færi á því að bjóða þessu ágæta starfsfólki störf því það er verið að leggja niður þessa starfsemi á vegum ríkisins.