Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:26:37 (5484)

1996-05-02 15:26:37# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski fyrst og fremst það að mér hefur fundist ráðherrann gera nokkuð lítið úr þeim áhyggjum sem hafa komið fram varðandi það starfsfólk sem nú hangir í lausu lofti. Það er til þess sem ég vísa þegar ég brýni fyrir ráðherra að hlusta á raddir okkar sem höfum áhyggjur af hvernig öðrum reiðir af, öðrum en þeim sem eru nákvæmlega tilgreindir í þessu frv.

Ég nefndi við 1. umr. þessa frv. að ég hefði trú á því að ráðherrann hefði í mjög góðum vilja farið fram með þetta mál og ætlað sér að leysa það vel gagnvart starfsfólki grunnskólans. Enda er alveg ljóst að það skiptir verulegu máli fyrir ráðherra sem er búinn að sitja á ráðherrastóli um eins árs skeið að hann fari vel af stað gagnvart þeim stóra málaflokki sem grunn- og framhaldsskóli er og geri allt sem hann getur til að halda góðum tengslum við það fólk því það er grundvöllurinn að því að vel takist á sviði menntamála hjá ráðherra sem situr á þeim stóli.

Ég nefndi við þá umræðu að ég teldi að fjmrh. hefði með frv. sínu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna komið að hluta til aftan að menntmrh. með það frv. vegna þess að allt það sem við erum að bjástra við síðan í þessari öfugu röð, sem ég gat um áðan, er eiginlega vegna þess að það frv. kemur fram á svo vitlausum tímapunkti. Ég læt mér því nægja þetta svar ráðherrans. Ég skil að hann er í vanda staddur varðandi þetta frv. sem er í uppnámi vegna frv. samráðherra sem greinilega hefur ekki verið haft nægilegt samráð um. Og við vitum að á það skortir oft innan ríkisstjórnar. En ég læt mér þetta svar ráðherrans nægja, ég skil að hann getur ekki gert betur.