Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:36:16 (5486)

1996-05-02 15:36:16# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við þessu ágæta bréfi sem dagsett var 7. febr. var lesið upp í þinginu af mér við 1. umr. um þetta mál. Ég fór yfir bréfið lið fyrir lið og svaraði fyrir mína hönd. Ég sagði það sama og ég hef sagt í dag að þetta mál er þannig vaxið, þarna er um 70 starfsmenn að ræða, að það þarf að skoða mál hvers og eins og semja við hvern og einn. Ríkið hefur ekki störf í boði fyrir þetta fólk þannig að það þarf að leita á önnur mið ef það ætlar að starfa við sambærileg störf eða sinna svipuðum verkefnum og það hefur gert. Ríkið hefur ekki neitt í boði fyrir fólkið sem er sambærilegt við þau störf sem það gegnir núna. Hins vegar ber ríkið skyldur ef fólkið fær ekki störf og þá munum við að sjálfsögðu taka því. Nú starfa átta fræðsluskrifstofur, ég man ekki hvað þær verða margar skólaskrifstofur sem koma til sögunnar, þær verða á annan tug og þarna er um hæfa starfsmenn að ræða sem vafalaust hafa fleiri starfstækifæri en áður miðað við þann fjölda af skólaskrifstofum sem verða starfandi eftir að grunnskólinn flyst til sveitarfélaga. Þetta sagði ég allt hér í ræðu. Hv. þm. var ekki í salnum og bréfið var ekki stílað til mín. Síðan kom fram í Morgunblaðinu að ég hefði ekki fengið þetta bréf, það hefði verið til verkefnisstjórnarinnar. Daginn eftir barst mér bréfið frá hv. þm. og mér finnst þetta of dýrmætur staður og tími til þess að fara að ræða um svona einfalda hluti. En ég var búinn að lýsa minni skoðun. Verkefnisstjórnin tók á málinu. Einn bréfritari, Eiríkur Jónsson, situr í verkefnisstjórninni þannig að hann hefur líka komið að málinu. Mér finnst því málflutningurinn heldur farinn að þynnast ef við eigum að fara að eyða tíma í það hér að ræða um það hvar og hvenær bréfum er svarað. Þá finnst mér sem verið sé að draga umræðurnar á allt annað stig en ég vil að þær fari fram á.