Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:38:24 (5487)

1996-05-02 15:38:24# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki kominn hingað upp til að biðja hæstv. menntmrh. afsökunar á því að vera að sóa dýrmætum tíma hans. (Menntmrh.: Þingsins, þingmanna.) Eða þingmanna. Við erum að tala hér um mjög mikilvægt mál. Við erum að tala um flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og við erum að tala um réttindi þess fólks sem í hlut á. Ég get upplýst hæstv. menntmrh. um að það starfsfólk sem hér á í hlut hefur verið að koma saman til funda að undanförnu og nú mjög nýlega vegna þess að það hefur áhyggjur af réttindum sínum og því hver framvindan verður. Þetta fólk fór þess á leit við sín samtök að þau tækju málin upp fyrir hönd fólksins. Í samræmi við það var sent erindi til menntmrn. og ég er að vekja athygli á að því erindi hefur ekki verið svarað. En það er kannski í samræmi við þá nýja stefnu ríkisstjórnarinnar að taka bara hvern og einn út af fyrir sig samkvæmt hinum nýsjálensku aðferðum og nýsjálenskum módelum um persónusamninga sem hún virðir óskir félaga og samtaka að vettugi. Þau er ekki í tísku lengur. Nú eru bara hinir nýsjálensku persónusamningar í tísku. En mér finnst mjög undarlegt þegar við erum að ræða um mikilvæg réttindi starfsfólks og ýmis álitamál sem þar eru uppi að hæstv. menntmrh. skuli leyfa sér að koma hér upp og segja að það eigi ekki að sólunda og sóa dýrmætum tíma þingsins eða dýrmætum tíma hæstv. menntmrh. Það er meiri háttar hæstv. menntmrh. sem svona talar.