Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 16:25:35 (5499)

1996-05-02 16:25:35# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[16:25]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég mun ekki hafa um þetta langt mál en mér finnst þó nauðsynlegt að segja nokkur orð um það frv. sem hér liggur fyrir, þ.e. frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.

Þetta frv. er eins og hér hefur margkomið fram í umræðunum samkomulagsmál og ég var viðstödd fundi í byrjun árs þar sem niðurstöðum úr þeim umræðum sem leiddu til þess að þetta frv. var samið voru kynntar og var ákaft fagnað af kennurum hér á landi. Töldu þeir að þær áhyggjur sem þeir höfðu haft af þeim réttindum sem þeir hafa verið að berjast við að varðveita og vinna fyrir um öll þessi ár væru úr sögunni.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Það leið ekki langur tími þar til fréttist af frumvarpsdrögum úr fjmrn. sem nánast kollvörpuðu því sem hér hafði verið samið um svo lystilega og selt fyrir biðlaunaréttinn, ekki baunadisk heldur biðlaunaréttinn. Í mörg ár sat ég í samninganefnd fyrir kennara og við vorum alltaf að burðast við að finna okkur samanburðarhópa á hinum almenna vinnumarkaði. Jafnan þegar við komum með þessa samanburðarhópa, þar var yfirleitt töluverður launamunur, var okkur bent á það mjög ákveðið af samninganefnd ríkisins að við hefðum réttindi, sérstök lögfest réttindi, m.a. biðlaunarétt, meiri veikindarétt en aðrir, skipun í starf o.s.frv. og þessi réttindi sem við höfðum umfram þá sem störfuðu á almennum vinnumarkaði væru metin á um 18--20%. Þetta var margendurtekið.

Nú bregður allt í einu svo við að stjórnendum landsins finnst allt í lagi að fara fram með frv. og það á bara að keyra það fram í gegnum þrjár umræður og gera það að lögum og þar með eru þessi réttindi bara gamaldags og úr sögunni, þau passa ekki inn í nútímavinnusamninga og enginn minnist á þessi 18--20% sem fólk hélt sig vera að vinna fyrir þessum auknu réttindum með.

Það er svo sem ekkert skrýtið að kennarar höfðu miklar áhyggjur af umræðum um flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna. Það var ekki síst vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af þessum réttindum. Þetta frv. átti að tryggja að þessi réttindi flyttust yfir. En því er ekki að neita að að mörgum setur ugg um að þegar samþykkt hafa verið lög um breytingar á réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna líði ekki á löngu áður en sótt verður að því sem með samþykkt þessa frv. eru orðin sérréttindi kennara hjá sveitarfélögunum.

Það má vera að menntmrh. gangi svo rösklega fram til varnar kennurum að svo verði ekki. En ég yrði ekkert hissa þó einhvern tíma á næsta þingi eða kannski þingum læddist inn frv. til að breyta þessu. Við skulum samt vona ekki.

Sveitarfélögin hafa fyrir sitt leyti þó samþykkt að þessi réttindi og skyldur opinberra starfsmanna spila auðvitað saman við kjörin með því að þeir hafa gefið út sérstakt bréf um að ef breytingar verða á þessu almennt verði það bætt upp í kjarasamningum og það er auðvitað meira en aðrir opinberir starfsmenn hafa í höndunum um þessar mundir.