Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 16:42:26 (5501)

1996-05-02 16:42:26# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[16:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil leggja örfá orð í belg um efni þessa máls sem hæstv. menntmrh. hefur mælt fyrir. Eins og fram kom í máli hans er stærsta einstaka atriðið í því eignatilflutningur frá ríki til sveitarfélaga á eignarhlut ríkisins í grunnskólum. Það kemur fram í greinargerð með frv. að um sé að ræða verðmæti sem að brunabótamati séu milli 15--17 milljarðar kr. og því verulegir fjármunir sem skipta um eigendur með þessu frv. Ég vil láta koma fram þá skoðun mína að ég tel þetta ekki vera í raun stórt mál og ekki skipta verulega miklu máli út frá sjónarhóli hins opinbera, hvort eignir eins og grunnskóli er að einhverju leyti bókfærður hjá ríki og að öðru leyti hjá sveitarfélögunum. Í mínum augum er einfaldlega verið að færa þessi bókfærðu réttindi, eignarréttindi, á milli aðila innan hins opinbera og skiptir ekki stóru máli út frá hagsmunum almennings eða af öðrum ástæðum.

Það er þá helst að mínu viti að menn þurfa að hafa varnagla í málinu gagnvart hugsanlegum verðmætum eða ef menn breyta þessu húsnæði í peninga síðar meir með því að selja eignirnar til annarrar starfsemi en til menntunar væri ekki óeðlilegt að ríkið áskildi sér hlutdeild í andvirðinu sem þá kynni að vera greitt fyrir eignirnar. Að öðru leyti geri ég enga athugasemdir við þessi áform og tel þau í sjálfu sér vera eðlileg út frá þeirri pólitísku stefnu sem hefur verið mörkuð.

Það sem mér finnst athyglisverðast í frv. eru efni tveggja fyrstu greinanna, einkum og sér í lagi út frá þeirri röksemdafærslu sem menn hafa haft um það mál hvernig skipta eigi verkefnunum í samfélaginu á milli aðila innan hins opinbera, þ.e. milli ríkisins og sveitarfélaga. Það hefur verið grundvöllurinn fyrir þeirri ákvörðun að færa þetta verkefni, þ.e. grunnskólamenntunina, frá ríkisvaldinu til sveitarfélaga að sjónarmiðið hefur verið það að þetta væri verkefni sem sveitarfélögin réðu við, hefðu burði og bolmagn til þess að sinna af eigin rammleik og í öðru lagi væru þau að mörgu leyti færari um að sinna þessum verkefnum þar sem þau væru nær vettvangi en ríkisvaldið sem oft á tíðum er fjarlægt þeim stað þar sem hlutirnir gerast.

[16:45]

Það má segja að með þessum tveimur greinum er fótunum að nokkru leyti kippt undan þeirri hugmyndafræði sem liggur á bak við hina pólitísku ákvörðun. Það kemur í ljós að það er ekki hægt að flytja sum verkefni yfir til sveitarfélaga af eðlilegum ástæðum sem að mínu viti hefur alltaf blasað við frá upphafi að menn gætu ekki hrint í framkvæmd án þess að lenda í verulegum vanda. Með þessu frv. er reynt að bregðast við því með því að flytja þessi verkefni, þ.e. þau sem eru þess eðlis að þar er ekki nema ein stofnun sem þjónar tilteknum sérþörfum fyrir landið allt. Það eru þessar stofnanir sem ég hef talað um, sérskólarnir. Ég hef verið á þeirri skoðun að það væri ekki hægt að flytja þá yfir til 170 sveitarfélaga. Nú er það í raun og veru staðfest með því að leggja til að þeir verði ekki fluttir til sveitarfélaganna. Tillagan í þessu frv. er að flytja sérskólana ekki til sveitarfélaga heldur til nýs stjórnsýsluaðila sem verið er að búa til í þessu frv. og er má segja vísir að þriðja stjórnsýslustiginu. Að öðruvísi stjórnsýslustigi en ég og fleiri höfum talað fyrir í gegnum árin þegar við höfum verið að tala um valddreifða stjórnsýslu byggða upp á héruðum úti á landi sem tækju við verkefnum frá ríkisvaldinu og e.t.v. að nokkru leyti frá sveitarfélögunum. Nú er verið að búa til þriðja stjórnsýsluaðilann sem er miðstýrður aðili rétt eins og ríkið sjálft og heitir Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég verð að árétta þá skoðun mína að mér vinnst óeðlilegt að hafa tvo aðila sem gegna sama hlutverki og ríkið. Fyrst það eru til verkefni í þessum þætti sem öðrum sem eru þess eðlis að það verður einn aðili að sinna þeim fyrir landið í heild þá er að mínu viti eðlilegast að ríkið sjálft vinni það verkefni. Mér finnst engin þörf á því í þessu máli að flytja sérskólana frá ríkinu til Sambands íslenskra sveitarfélaga jafnvel þótt það sé, eins og fram kemur í greinargerð, áformað að svo verði bara um stundarsakir á meðan menn eru að finna aðra lausn á málinu. Það er hins vegar ekkert víst að menn finni þá lausn á næstu árum og ég spái að sérskólarnir verði líklegast áfram um ókomin ár hjá þeim aðila sem verið er að flytja þá til, ef það nær fram að ganga.

Fyrst menn eru komnir að þeirri niðurstöðu að sérskólunum verði aðeins sinnt af einum aðila sem starfar á landsvísu tel ég að ríkið sjálft eigi að hafa það verkefni áfram með höndum. Menn eru búnir að byggja upp kerfið eins og það er. Ríkið hefur sína starfsmenn og sérfræðinga bæði í ráðuneytunum og skólunum og það er óþarft að mínu viti að vera að hrófla mikið við því bara í þeim tilgangi sem þarna er lýst, þ.e. að skipta um aðila sem fer með yfirstjórn málsins.

Það má velta fyrir sér hlutum eins og þeim hvort þar er verið að fela þessum nýja stjórnsýsluaðila verkefni eins og mannaráðningar, gerð kjarasamninga, ákvarðanir um stofnanir, hvar þær eiga að vera og á hvaða sviði, hversu margar og breytingar á þeim o.s.frv. Mér sýnist á frv. að það sé það sem lagt er til og ég fæ ekki séð að menn bæti hlutina neitt með því frá því sem nú er. Eðlilegast er þá að hafa þetta með óbreyttum hætti og setja ákvæði í þessi lög um að sérskólarnir verði í höndum ríkisins þrátt fyrir ákvæði laganna um að grunnskólamenntun skuli vera verkefni sveitarfélaga. Að minnsta kosti þar til menn hafa fundið aðra lausn sem væntanlega er ætlunin að reyna að finna eins og fram kemur í þessu frv.

2. gr. er að sumu leyti eðlilegri en hún staðfestir líka að það er gert ráð fyrir því beinlínis með þessari lagagrein að mörg sveitarfélög geti ekki tekið við því verkefni að sjá um rekstur grunnskólans og axla þá ábyrgð sem því fylgir. Það er beinlínis opnað fyrir það í lagaákvæðinu að sveitarfélög geti komið þessari ábyrgð af sínum herðum yfir á byggðasamlag og geti falið byggðasamlaginu að sinna þessu verkefni væntanlega vegna þess að sveitarfélagið sjálft hefur ekki burði til þess. Þessar tvær lagagreinar hljóta að mínu viti að vera kveikjan að frekari umræðu um tilganginn með því að flytja grunnskólamenntunina frá ríkinu yfir á 170 sveitarfélög og hvort menn eru ekki einfaldlega komnir fram úr sjálfum sér og eru að reka sig á það núna að það er ekki á færi sveitarfélaganna allra að axla ábyrgðina á þessu verkefni. Því þurfa menn að finna einhverjar aðrar leiðir til að leysa úr þeim vandamálum sem skapast. Hér er annars vegar lagt til að opna fyrir það að byggðasamlög taki þetta yfir og hins vegar að Samband íslenskra sveitarfélaga taki við þessu verkefni þótt á ólíkum sviðum sé innan grunnskólamenntunarinnar. Ég er verulega hugsi yfir þeirri þróun sem er verið að setja í gang með þeim tillöguflutningi að breyta samtökum eins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga yfir í formlegt stjórnsýslustig. Mér finnst að það þurfi menn að hugsa miklu betur áður en því er ýtt úr vör. Það þarf þá að velta fyrir sér lýðræðislegri uppbyggingu þeirra samtaka. Það þarf að lögfesta betur eða setja löggjöf um starfsemi þeirra og ákvarðanaferli. Ég er ekki viss um að rétta leiðin til að færa verkefni frá ríkinu sé að stofna ný ríki eða ígildi þeirra, einhver samtök sem starfa á landsvísu og taka við því hlutverki ríkisins að leysa úr sameiginlegum verkefnum samfélagsins á landsvísu.

Með þessu er ég ekki endilega að segja að það þurfi að leiða til verri niðurstöðu. Það er ekki sjálfgefið og ég ætla ekki að halda því fram að þeir sem mundu stýra þessum verkum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga gerðu það endilega verr en hjá ríkinu. En ég legg áherslu á að ef menn telja rétt að stíga það skref að búa til nýtt stjórnsýslustig þá á það fremur að vera í þeim tilgangi að byggja upp stjórnsýslustig úti á landi sem er fært um að taka við hlutverki ríkisins að meira leyti en gert er ráð fyrir í núverandi hugmyndum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það væri að mínu viti mun farsælla fyrir landsbyggðina að byggja upp stjórnsýslustig sem hefði þá burði að það gæti tekið til sín meira af þeim verkefnum sem í dag eru meira eða minna ákvörðuð hér hjá miðstjórnarvaldinu.

Virðulegi forseti. Ég hef komið á framfæri því helsta sem mér finnst athyglisverðast í þessu frv. Það er reyndar ekki 3. gr. heldur efnisákvæði 1. og 2. gr. frv.