Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 17:17:42 (5507)

1996-05-02 17:17:42# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[17:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hvað Laugarvatn varðar hefur verið gengið frá samkomulagi um það mál. Það er því búið að leysa öll þau mál. Skipting hefur farið fram. Eignarréttindin eru alveg skýr á milli ríkis og sveitarfélaga. Fyrir liggur undirritað samkomulag á milli aðila um það mál. En eins og ég segi, þetta er í mörgum tilvikum eins og hv. þm. vekur máls á. Hann hefur skoðað eignarskrána og séð að þar getur verið takmarkað tilvik. Það er viðurkennt að svo sé. Hér er reynt að draga almennar reglur í lagatextanum sjálfum en mér finnst sjálfsagt, ef þingmenn vilja skoða þetta nánar, að þá verði það gert í hv. menntmn. og menn fái þá nánari upplýsingar um þetta. Eins og hv. þm. veit er hér um mörg tilvik og margar eignir að ræða. Eignarhlutur ríkisins í skólahúsnæði er skilgreindur í frv. og sú heimild sem lagatextinn veitir. Síðan eru undantekningarnar nefndar til svo menn viti nákvæmlega um hvað þær snúast. En auðvitað eru þarna takmörkuð tilvik og hvort á að fara að brjóta þau upp í samhengi við þetta eða skilja það eftir geta menn kannski betur áttað sig á eftir að nefndin hefur farið yfir málið og birt okkur hugmyndir sínar.