Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 18:12:38 (5512)

1996-05-02 18:12:38# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[18:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst raunar ekki hógværð eða lítillæti einkenna málflutning formanns þingflokks Framsfl. í þessu máli. Virðulegur þingmaður komst svo að orði, eins og menn heyrðu, að hennar málflutningur og þau sjónarmið sem hún túlkaði væri skoðun allra þeirra sem til þekkja. Það var nú ekkert minna. Hvað um nágranna okkar sem ég veit að hv. þm. þekkir til í Noregi og Svíþjóð? Hvernig stendur á því að þeir hafa valið í sinni löggjöf aðrar leiðir? Síðast í Noregi 1994. Þar er hvorki heimilað að nota gjafakynfrumur við glasafrjóvgun, hvorki sæði né egg. Og er nú skaði að formaður allshn. er ekki viðstaddur til að hlýða á þessa athugasemd. Það hefur verið dregin fjöður yfir þá staðreynd að í norsku lögunum, gr. 2.10, er skýrt tekið fram að við frjóvgun utan líkama verði hvorki heimiluð gjafasæði né gjafaegg. Hið sama er uppi í Svíþjóð í löggjöfinni sænsku. Að vísu hef ég ekki lagatextann fyrir framan mig, virðulegur forseti, en ég treysti þeim upplýsingum sem þar hafa komið fram um það efni. Nákvæmlega sama er þar uppi. Í glasafrjóvgun er eingöngu miðað við kynfrumur hins líffræðilega foreldris. Hvers konar upplýsingar eru það sem formaður þingflokks Framsfl. fer síðan að draga hér fram og segir að sé allra sem til málsins þekkja? Og gefur þar með til kynna að sá sem hér talar hafi ekki kynnt sér málið. Ég held að hv. þm. ætti aðeins skoða efnið betur og minnast þess líka í sambandi við nafnleyndina, sem ég hef út af fyrir sig ekki tekið afstöðu til, að í sænskri löggjöf er a.m.k. ekki gert ráð fyrir nafnleynd í sambandi við gjöf kynfrumna.