Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 18:22:18 (5516)

1996-05-02 18:22:18# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[18:22]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri þáttinn sem hv. þm. vék að, þ.e. spurningunni um rannsóknir, þá gerði ég ekki breytingartillögur í frv. um að ítarlega verði tekið á því máli. Ég gerði það ekki. En ég boðaði hér að ég mundi beita mér fyrir því ef þörf væri á að af þingsins hálfu eða ríkisstjórnar yrðu mótaðar ítarlegar og nauðsynlegar tillögur um það hvernig á slíkum málum verði haldið, bæði að því er varðar kynfrumur og fósturvísa og marga fleiri þætti sem tengjast þessum málum.

Varðandi þá stefnu sem ég geri að minni tillögu hér, þá telur hv. þm. að hún leysi lítinn vanda, að það sé lítill sannfæringarkraftur á bak við það. Ég minni á að í forsendum frv. er talað um að hagsmunir barnsins, þess barns sem getið verður í kjölfar tæknifrjóvgunar, skuli vega þyngst. En það endurspeglast ekki í frv. sjálfu, því miður. Það er nú lógík sem er kennd við aðra dýrategund en manninn að það þurfi að horfa á málin út frá því að það verði ekkert barn til. Það sé engra hagsmuna að gæta. Er það svo að frumvarpshöfundar séu að tala fyrir einhverju sem ekki kemur í heiminn þegar talað er um hagsmuni barnsins, að það skuli vega þyngst? Að þeir hagsmunir skuli vega þyngst. Ætli sé ekki verið að tala um þau börn sem eru afurð tæknifrjóvgunar. En ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að fjöldinn er líka takmarkaður hvaða aðferðum sem beitt er. Þó að menn grípi til allra þeirra tæknilausna sem völ er á, þá hefur það ekki skilað, hvorki með glasafrjóvgun eða tæknisæðingu, meiri árangri en ég vitnaði til. Ég held að menn eigi að draga hér skýra markalínu og einbeita sér að því að ná árangri samkvæmt henni og hætta sér ekki út á það hála svell sem frv. mun ella bera menn út á.