Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 20:31:08 (5519)

1996-05-02 20:31:08# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[20:31]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú, breyting á lögum um grunnskóla, tengist eins og fleiri mál sem hér hafa verið til umræðu yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég ætla að fara lauslega yfir þetta mál vegna þess að hér er ýmislegt sem skiptir verulegu máli. Hér eru einstök atriði sem hafa verið lengi til umræðu og er ástæða til þess að vekja athygli á.

Ég byrja á því að fjalla örlítið um 3. gr. frv., þá grein sem snýr að eignarhluta afskrifta ríkisins í skólahúsnæði. Það kom fram í umræðu um daginn og var þá undirstrikað af hálfu félmrh. að það stæði til að koma með frv. þessa efnis inn í þingið. Ég fagna því að það er nú komið. Ég held að hér sé verið að stíga skref sem skiptir nokkru máli í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það hefur verið svo undanfarin ár að það hefur verið eins konar samkomulag í gildi milli þessara aðila um það að ríkið gerði ekki athugasemdir við ráðstöfun sveitarfélaganna á skólahúsnæði svo fremi það væri ekki tekið undir aðra og gerbreytta starfsemi. Hins vegar hefur einnig farið fram verslun með þetta húsnæði eða hlut ríkisins ef sveitarstjórn hefur viljað taka það undir aðra starfsemi.

Mér finnst ekki ólíklegt að á allra næstu árum muni það koma til að einhver sveitarfélög vilji taka gamalt skólahúsnæði undir aðra starfsemi. Ég vek athygli á því að býsna mörg sveitarfélög eru á hrakhólum með starfsemi safna ýmiss konar, ekki bara bókasafna heldur minjasafna og annars sem hefur verið að þróast með mjög skemmtilegum hætti úti um allt land. Sömuleiðis get ég vel séð fyrir mér að eldra skólahúsnæði verði tekið undir leikskóla þar sem þeir eru að verða til. Ég get vel séð það fyrir mér að þar sem sveitarfélög eru með skóla muni þau koma til með að sameinast eða reka sameiginlega skóla vegna þess að við vitum að það er mikið sameiningarferli í gangi í landinu, þá verði skólahald grunnskóla sameinað á einum stað en hugsanlega annað skólahúsnæði nýtt undir aðra starfsemi sveitarfélags. Ég held að það sé bæði skynsamlegt og hagfellt að vinna þetta með þessum hætti og mér finnst ekki ólíklegt að við eigum eftir að sjá það gerast.

Mér finnst athyglisvert hvernig gengið hefur verið frá þessu máli, þ.e. það var gerð bókun þar sem Samband sveitarfélaga telur eðlilegt að það verði tekið eins á öðrum málum hvort sem þau snúa þá að ríki eða sveitarfélögum svo fremi kostnaðarhlutdeild eins aðilans sé ekki lengur fyrir hendi og er þar vísað bæði í heilsugæsluna og eins framhaldsskólann. En eins og menn þekkja eru sveitarfélögin hvað varðar báða þessa þætti aðilar að stofnkostnaði þó í mismiklum mæli sé. Með sama hætti og mér finnst það ráðslag sem hér er lagt til í 3. gr. eðlilegt þá finnst mér það líka mjög eðlilegt að þetta verði skoðað með sama hætti verði þessi breyting á kostnaðarþátttökunni og ég vildi reyndar nota þetta tækifæri og láta í ljósi þá ósk að þegar kemur að heilsugæslunni þá verði það á þann veginn að það verði sveitarfélögin sem taki við rekstri hennar. Ég vek á því athygli að eitt af þeim atriðum sem reynslusveitarfélögin eru núna að skoða er einmitt að yfirtaka heilsugæsluna. Ég trúi því að eftir að reynsla verður komin á það verði það niðurstaða manna að hún sé best komin eins og önnur nærþjónusta í höndum sveitarstjórnanna, en það er annað mál sem við komum væntanlega að síðar.

Eins og fram kemur í greinargerð með frv. hefur það verið þannig býsna lengi að sveitarfélögin hafa greitt viðhaldskostnað skólamannvirkjanna og hafa séð alfarið um byggingarkostnaðinn undanfarin fimm ár þannig að í því ljósi séð er þetta skref eðlilegt en eins og ég sagði var það ekki sjálfsagt og mér finnst ástæða til þess að fagna því sérstaklega að það skuli vera tekið á málum með þessum hætti.

Annað sem ég vildi gjarnan ræða er 4. gr., starfstími grunnskólanna. Hér er kveðið á um að kennsludagar skuli ekki vera færri en 170. Í gildandi lögum er talað um 172 kennsludaga en það varð niðurstaða í þessu tifelli að orða þetta með þessum hætti að þeir skyldu ekki verða færri en 170 því að það er sú kennsludagatala sem miðað er við, bæði í núgildandi kjarasamningum við kennara og einnig í þeim kostnaðarsamningum sem fram hafa farið milli ríkis og sveitarfélaga. Síðan verður reynslan og tíminn að leiða í ljósi hversu snemma sveitarfélögin verða tilbúin til þess að semja við kennara og hversu auðvelt það verður fyrir sveitarfélögin að ná fram frekari lengingu á skólaárinu, hvort dagarnir verða nákvæmlega 170 eða hvort þeim kemur til með að fjölga. Miðað við það sem fyrir liggur getur það orðið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum en ef menn óttast það er rétt að benda á að þrátt fyrir það að grunnskólinn hafi að hluta til verið verkefni ríkisins hefur líka verið mismunandi hversu margir skóladagar hafa verið í hverju sveitarfélagi og reyndar er enn þá undanþága gagnvart því lágmarki sem þarna er heimil vegna sérstakra aðstæðna. Þannig er það ekki óalgengt í minni sveitaskólum að þar hafi verið mun færri skóladagar en í stærri kaupstöðum en ég hygg að slíkt sé allt á undanhaldi vegna þess að þær breytingar sem hafa orðið í samfélagi okkar hafa einnig náð til hinna fámennari sveitarfélaga og út til sveitanna. Menn horfa því með öðrum hætti orðið til skólanna sem uppeldisstofnana en áður var gert.

Kannski verður fróðlegra að fylgjast með framkvæmdinni á 5. gr. en þar er fjallað um einsetinn grunnskóla. Hér er talað um að honum verði komið á að átta árum liðnum frá gildistöku þessara laga og er það framlenging um tvö ár frá því sem ákvarðað var í gildandi lögum. Það er merkilegt að fara yfir það hvaða sveitarfélög það eru sem eiga eftir að ráðast í þær framkvæmdir sem gera þeim kleift að vera með einsetinn grunnskóla. Hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson var með fyrirspurn til hæstv. menntmrh. í vetur sem varðaði einmitt þetta mál og í svari við fyrirspurn hans kemur fram að grunnskólar í landinu eru 205. Þar af er 71 grunnskóli enn tvísetinn. Athyglisvert er að af þessum 71 tvísetna skóla er meira en helmingurinn í Reykjavík og á Reykjanesi.

Ég hef heyrt það sagt héðan úr ræðustól hv. Alþingis að það sé vegna þess að sveitarstjórnir á þeim stöðum þar sem skólar eru enn tvísetnir hafi kosið að verja peningunum í eitthvað annað. Mér finnst ástæða til að fara aðeins yfir þetta vegna þess að mér finnst þessi framsetning mjög ósanngjörn því að ef menn skoða þetta svar sem ég var að vitna til við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um einsetningu skóla kemur í ljós að þar sem menn eiga eftir að framkvæma mest fer það oftast saman við kaupstaði eða svæði sem fólksflutningar hafa verið miklir til, þ.e. þeir staðir á landsbyggðinni sem eiga eftir að byggja og bæta við sig skólahúsnæði eru gjarnan þeir staðir sem hafa verið með fjölgun yfir landsmeðaltali og hafa þess vegna af eðlilegum ástæðum haft ýmislegt við peningana að gera. Það kostar líka sitt að leggja vegi og gera lóðir byggingarhæfar og standa fyrir annarri þeirri þjónustu sem fleiri fjölskyldur í bæjarfélag hafa í för með sér.

Mér finnst þess vegna einsýnt að það sé afskaplega sanngjarnt sem fyrirhugað er að ekki einasta mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga halda áfram að styrkja grunnskólaframkvæmdir í sveitarfélögum með íbúum undir 2.000 heldur verður einnig farið í það að styrkja stærri sveitarfélögin til bygginga grunnskóla en þau voru fyrir utan jöfnunarsjóðsstyrkinn og þannig er gert ráð fyrir því að á næstu fimm árum styrki ríkissjóður byggingar grunnskóla um allt að 265 millj. á ári auk þess sem aukið framlag verður látið renna úr Jöfnunarsjóði í Lánasjóð sveitarfélaga til þess enn að taka á í þessu átaki. Þetta finnst mér mjög jákvætt vegna þess að víða vantar verulega upp á. Eins og ég sagði er meira en helmingur af þessum skólum í Reykjavík og Reykjanesi þar sem fólksfjölgunin hefur verið mest og það þarf að taka myndarlega á til þess að mæta því markmiði sem hér er sett jafnvel þó mönnum kunni að finnast það sett af litlum metnaði miðað við núgildandi lög. Ég held að hér sé um raunsæi að ræða varðandi það hvað framkvæmanlegt er vegna þess að við erum væntanlega öll sammála um að það þarf að hyggja að innra starfi skólanna. Það er ekki minna mál að það sé vel skoðað hvernig staðið er að þeim hlutum nú eftir að sveitarfélögin yfirtaka þennan rekstur.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sem nefndi að eignaskrá ríkisins þyrfti einhverrar leiðréttingar við. Ég vil taka undir það. Ég veit reyndar að þar eru ákveðnar skekkjur en ég treysti því að þegar farið verður í að skoða það hvaða eignir það eru sem ríkið fer í að afskrifa á næstu 15 árum verði gerðar þær leiðréttingar sem þar þarf. Auðvitað er það svo að við þær breytingar sem hafa verið býsna margar í gegnum tíðina, breytingar á kostnaðarhlutdeild og þar með eignarhaldi, hafa hlutirnir eðlilega skolast eitthvað til en nú er möguleiki á því að hreinsa ögn til í þessum málum.

Það leiðir af sjálfu sér að þar sem farið er í að fækka í rauninni skóladögum ársins miðað við það sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum og einnig að fresta einsetningu skóla þá frestast einnig ákvæði um vikulegan kennslutíma á hvern nemanda þannig að þau koma einnig til framkvæmda síðar en gert var ráð fyrir. Þó að lögin kveði á um tiltekinn fjölda kennslustunda þá bind ég vonir við það að a.m.k. einhver sveitarfélög geti fyrr en þessi ártöl gera ráð fyrir mætt þeim kröfum og þörfum heimilanna sem liggja virkilega til grundvallar því að skóladagur íslenskra barna verði lengdur og skólaár þeirra einnig.

[20:45]

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að eftir að sú skipan er komin á að öll íslensk börn búa við einsetinn skóla og eftir að sú fjölgun kennslustunda hefur orðið sem frv. gerir ráð fyrir, eftir að tekist hefur að samræma vinnudag nemenda með þeim hætti sem við hin fullorðnu kjósum okkur til handa þá munum við e.t.v. sjá stærri breytingar á þessu samfélagi en við höfum séð lengi. Ég hygg að þetta muni hafa í för með sér stórfelldari samfélagsbreytingar en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragi vegna að hér er um mikla byltingu að ræða. Það ástand sem íslenskar fjölskyldur hafa þurft að búa við vegna sundurtætts skóladags, sem hefur leitt af tvísetnum skólum, er auðvitað fyrir neðan allar hellur og á ugglaust sinn þátt í þeim erfiðleikum sem ýmsar fjölskyldur eiga við að glíma. Menn hafa reynt að reikna út hinn þjóðfélagslega kostnað af tvísetningu skóla, hvað allur þeytingurinn þýðir, áhyggjur foreldranna og það hversu uppteknir þeir eru þá í vinnutíma sínum af högum barna sinna sem eru þá jafnvel á eigin vegum og mönnum hefur tekist að reikna það upp í háar upphæðir þannig að við erum að tala um ekkert minna en byltingu.

Ég held að ég sé búin að tæma það sem ég vildi um þetta segja. Það er allt heldur jákvætt eins og þingheimur heyrir en ég vil aðeins vísa í 1. og 2. gr. að lokum. Þar eru sérstök ákvæði sem lúta að því að sveitarfélögin koma til með að fara með öll málefni grunnskólans vegna þess að ákvæði í gildandi lögum eru ekki fullnægjandi og þau ákvæði endurspegla rétt einu sinni þá bitru staðreynd að sveitarfélög á Íslandi eru mörg og smá. Þau hafa þess vegna þurft að hafa með sér mikla samvinnu um framkvæmd grunnskólalaga og þau munu greinilega þurfa að hafa það áfram. Það kom fram í dag að menn hafa áhyggjur af stöðu þess starfsfólks sem unnið hefur á fræðsluskrifstofunum. Það er ljóst að við þessa breytingu eru menn einnig að hugsa þau mál upp að nýju og það leggst ekkert endilega eftir kjördæmalínum eins og fræðsluskrifstofurnar störfuðu áður. En í tengslum við þá breytingu eru ýmis sveitarfélög að hefja með sér enn nýja samvinnu sem að mínu mati er mjög ánægjuleg og það má reyndar þakka flutningi grunnskólans að sú þróun er farin í gang en það er samvinna sveitarfélaga um barnaverndarmál, um félagsþjónustu ýmiss konar, sem þau hafa hvert um sig ekki haft bolmagn til að sinna þannig að ein af þeim hliðarverkunum, svo að við tínum til það sem jákvætt er við flutninginn, verður víða sú að íbúarnir munu njóta betri þjónustu hvað varðar ýmis þau mál sem lúta að þjónustu við fjölskylduna eftir en áður. Það er ástæða til þess að það komi fram í umræðunni vegna þess að mér hefur fundist að stundum legðu menn megináhersluna á það að draga upp það sem miður kann að fara og mistakast í þessum flutningi en sjálf hef ég bundið miklar vonir við það að hann gæti farið fram með farsælum hætti og þess vegna harma ég þau slys sem hafa orðið á leiðinni en vænti að í stórum dráttum getum við siglt þessu máli farsællega í höfn.