Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:02:26 (5522)

1996-05-02 21:02:26# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:02]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur gjarnan lagt áherslu á mikilvægi sjálfstæðrar löggjafar á hverju þjóðþingi þannig að það er ekki nauðsynlegt að fara eftir því hvernig Norðmenn hafa hlutina. Sannleikurinn er sá að það eru mismunandi ákvæði í lögum hvað þetta varðar á öllum Norðurlöndum. Við tökum ekkert af Norðurlöndunum okkur algerlega til fyrirmyndar í þessum efnum.

Við áttum nokkur orðaskipti, ég og hv. þm., fyrir kvöldverðarhlé þar sem hann taldi mig hafa á röngu að standa og tók nokkuð mikið upp í sig að mér fannst. Sannleikurinn var sá að við vorum ekki að tala nákvæmlega um sömu hlutina. Hann var að tala um glasafrjóvgun, ég var að tala um sæðingar. Í Noregi er sæðisgjöf heimil við tæknifrjóvgun en ekki varðandi glasafrjóvgun. Eggjagjöf er ekki heimil þar til tæknifrjóvgunar og eftir því sem mér hefur verið sagt voru rökin fyrir því að Norðmenn heimiluðu ekki eggjagjöf þau að eitthvað þyrfti að vera öruggt í þessum heimi. Að kona gæti gengið með barn sem væri ekki af henni komið sættu þeir sig ekki við varðandi löggjöfina. Þetta hef ég a.m.k. heyrt og sel það ekki dýrara en ég keypti það. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið aðalrökin.

Hv. þm. spurði hversu langt mætti ganga á tæknisviðinu hvað þetta varðar. Auðvitað þarf að fara að með gát. Það frv. sem nú liggur fyrir þinginu með þeim brtt. sem hv. allshn. leggur til þýðir að það verður farið af stað með mikilli gát. Þess vegna er það eindreginn vilji minn að frv. ásamt brtt. verði samþykkt.