Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:04:50 (5523)

1996-05-02 21:04:50# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:04]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi óska að það væri innstæða fyrir þeim orðum að það sé farið að með gát í sambandi við þessa löggjöf. Það finnst mér því miður ekki vera gert. Þá hefðum við ekki gengið lengra í þessum efnum en grannþjóðir okkar sem vafalaust hafa einmitt haft varúðarsjónarmiðið í huga þegar um er að ræða glasafrjóvgun.

Það er athyglisvert að nú liggur fyrir að gefnar hafi verið rangar upplýsingar um málið að því er varðar glasafrjóvgun í Noregi og löggjöf þar að lútandi. Það skyldi þó ekki vera að það sé víðar einhver ónákvæmni í þeim upplýsingum sem fram hafa verið reiddar í þessu máli?

Varðandi spurninguna um fyrirmynd frá öðrum þjóðum situr síst af öllu á mér að gerast talsmaður þess að við öpum eftir öðrum þjóðum í öllum greinum varðandi löggjöf. En ég held að það sé nokkuð til í því sem hv. þm. vitnaði til að hefði legið að baki löggjafar í Noregi varðandi tæknifrjóvgun að ganga ekki svo langt að einnig eggfrumur yrðu gjafavara eða tilfærð frá konu til konu. Ég held að það hljóti að vera sjónarmið og það býsna gilt sjónarmið að menn gangi ekki svo langt gegn náttúrunni að sjálft sjónarmiðið varðandi líffræðilega móður sé brotið. En ég vil hins vegar ekki gera upp á milli kynfrumna að því er varðar heimild til gjafar og þess vegna hef ég lagt til að hvorki sæði né egg sé gjafavara sem gangi á milli einstaklinga.

Ég held líka að það hafi verið styrkur fyrir konur heims fram að þessu að þær hafa haft í sínum höndum móðurhlutverkið. Ég held að þarna þurfi almenna varúð og það skiptir auðvitað karla jafnt sem konur máli að ekki sé gegn þessu sjónarmiði gengið. Það skyldi þó ekki vera að konur töpuðu einhverju af stöðu sinni ef tæknin, væntanlega í höndum karla að meiri hluta til, er mótuð með þeim hætti sem möguleikar standa nú til og verið er að gera?