Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:27:12 (5530)

1996-05-02 21:27:12# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér var nú raunar svipað farið og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég áttaði mig ekki fyllilega á því í ræðu hv. þm. hver afstaða hennar væri yfirleitt til þessara mála að undanskildu ákvæðinu varðandi nafnleyndina sem hún gerði allglögga grein fyrir. Í aðra röndina lýsti hún því yfir að hv. þm. Þjóðvaka væru að gaumgæfa það og íhuga að styðja framkomna breytingartillögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem gengur sannarlega í allt aðra átt en meginefni þess frv. sem hér var lagt fram í upphafi og meiri hluti allshn. leggur til að samþykkt verði. Málið er búið að vera til umfjöllunar á hinu háa Alþingi um alllangt skeið og þetta viðhorf sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lýsir er ekki nýtt af nálinni. Ég hlýt að árétta það og spyrja beint hver afstaða hv. þingmanna er til málsins. Mín afstaða er ákaflega skýr í þessu. Ég styð það af heilum hug sem hv. allshn. fer hér fram með í formi breytingartillagna og styð grunnatriði þessa frv. sömuleiðs. Það geri ég ekki síst vegna þess að ég þekki til fjölmargra hjóna og sambúðarfólks sem eiga við ófrjósemi að stríða. Þetta er eigi lítill hópur og satt að segja hélt ég og trúði því að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefði gert það líka vegna fyrri starfa hennar í heilbrigðisgeiranum. Hún ætti held ég ekki síður en flestir aðrir að átta sig á því hvað hér er um stórt mál að ræða. Hér hafa opnast nýir möguleikar á umliðnum árum fyrir þetta fólk, skapað því ómælda hamingju og gleði og ég vil ekki fyrir nokkurn pening koma í veg fyrir að eðlileg framþróun eigi sér stað í þessum efnum. Margir urðu til þess að hrópa úlfur, úlfur þegar tækninni fleygði fram, tæknisæðing hófst og síðan glasafrjóvgun. Reynsla okkar, ekki Norðmanna, ekki Svía, reynsla okkar Íslendinga er einfaldlega góð.