Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:30:48 (5532)

1996-05-02 21:30:48# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:30]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt mergurinn málsins. Þess vegna átta ég mig ekki á því að hv. þm. skuli eyða öllum ræðutíma sínum í að fjalla um nafnleyndina þegar hún gefur til kynna í aðra röndina að hún muni hugsanlega samþykkja tillögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Er að undra þótt það séu ekki allir sem botna í þessum málflutningi.

Varðandi nafnleyndina vil ég staldra við þáttinn sem hún kom inn á í sinni ræðu. Það eru einmitt þær ættleiðingar sem eru talsvert algengar og hafa verið um árabil í samfélagi okkar. Það er þannig að í ekki nándar nærri öllum tilvikum er um að ræða að þau börn sem Íslendingar ættleiða erlendis frá eigi þess kost undir nokkrum kringumstæðum að geta leitað uppruna síns. En ef þarna á að ríkja jafnræði í mannréttindum barna eins og það er lagt upp hér hljótum við þá ekki að vera sjálfum okkur samkvæm og leggja til að ættleiðingar frá fjarlægum heimsálfum verði óheimilar nema fyrir liggi skýrt og greinilega á pappírum um uppruna viðkomandi barns, föður þess og móður?