Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 21:38:21 (5537)

1996-05-02 21:38:21# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[21:38]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er afar merkilegt mál sem við erum að ræða í kvöld og ég vil byrja á að taka fram að það er mjög jákvætt að setja lög um tæknifrjóvgun, þ.e. bæði tæknisæðingu og glasafrjóvgun. Þetta er viðkvæmt mál og það eru ólík viðhorf varðandi frv. Þetta er ekki flokksmál, ekki mál sem er til þess fallið að menn skipist í sveitir miðað við stjórnmálaflokka og þetta mál er heldur ekki stjórnarmál á móti stjórnarandstöðu. Það höfum við heyrt á þeim ræðum sem hafa verið fluttar hér vegna þess að sérstök einstaklingsviðhorf endurspeglast í umræðunni.

Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið vandasamt verk að vinna þetta frv. Það er vandasamt að setja lög um tæknifrjóvgun vegna þess að tækniframfarirnar eru orðnar slíkar að það er mjög margt kleift sem hefði verið óhugsandi fyrir einum og hálfum, ég tala ekki um tveimur áratugum. En það eru mörg álitamál sem vakna við setningu slíkra laga. Það er ekki hægt að komast fram hjá því að þó að það hafi verið bent á það í umræðunni að þar sem fyrst og fremst sé litið til þess að þetta mál sé heilbrigðismál þá eru það siðferðisviðhorfin sem eru sterkust í umræðunni. Nú hefur tæknisæðing viðgengist hér á landi í 16 ár og glasafrjóvgun í fimm ár. Ný álitamál hafa vaknað með möguleikum á eggfrumugjöf. Það hefur komið fram í umræðunni að allsherjarnefnd hafi lagt sig mjög fram og að það sé mjög mikil vinna að baki í nefndinni þó að það hafi ekki náðst að endingu full samstaða um málið. Hins vegar ætla ég að lýsa því hér að mér finnst vera meiri sátt innan nefndarinnar um þetta mál en búast mátti við um svo viðkvæmt málefni.

Ég mun fylgja áliti og tillögum allshn. í nær öllum tilfellum. En í einu veigamiklu atriði skilur í milli og það er nafnleyndin. Reynar heyrði ég því fleygt í gær að það gæti komið til greina af hálfu nefndarinnar að reyna að koma til móts við sjónarmiðin um nafnleynd með því að vera með endurskoðunarákvæði fljótlega til að sjá hvernig þessar tillögur nefndarinnar virkuðu. Ég hef reyndar ekki séð neina tillögu og ætla ekki að setja fram neina skoðun á því hér hvort það muni hafa einhver áhrif á viðhorf mín. Viðhorf mín á þessari stundu eru þau að greiða atkvæði gegn nafnleynd.

Það kom einmitt fram í máli formanns allshn. þegar hún mælti fyrir málinu að miklar umræður hefðu verið um nafnleyndina. Ég er ekki hissa á því vegna þess að þegar kemur að nafnleynd þá er komið að prinsippmáli, miklu prinsippmáli og viðhorfum sem grundvallast á ákveðinni afstöðu. Þar erum við að tala um afstöðuna til réttar barns samanborið við afstöðuna til réttar foreldris eða verðandi foreldra. Það er þarna sem mér hefur fundist á þeim ræðum sem ég hef heyrt að væri mikill tilfinningahiti í málinu. Hins vegar kemur það mér á óvart hversu þeir sem eru fylgjandi því að viðhalda nafnleyndinni hafa sýnt mikinn tilfinningahita í málinu vegna þess að ég hef skilið það svo að það sé mikill meiri hluti fyrir því að viðhalda nafnleynd. Í fyrsta lagi er þetta stjórnarfrv. hins mikla meiri hluta þannig að þótt einhverjir, einn, tveir eða þrír hafi nú leyft sér að hafa aðra skoðun þá skyldi það nú ekki vera að það breytti miklu. Í stjórnarandstöðuflokkunum virðist líka vera meiri hluti við að styðja nafnleyndina. Ég yrði ekki hissa á því þótt ég væri eini þingmaðurinn í mínum þingflokki sem væri á annarri skoðun þó það eigi eftir að koma í ljós.

Það vekur athygli að meginviðhorfið sem sett er fram snýr að vandanum við að fá sæðisgjafa ef nafnleyndinni er aflétt. Það er þar sem kemur fram að afstaðan byggist ekki á viðhorfinu um rétt barnsins. Ég hef reyndar áður tekið þátt í umræðum um þetta mál. Í fyrsta lagi á málþingi Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands um tæknifrjóvgun og þetta mál var einnig tekið fyrir í þættinum Almannarómi sem var að sjálfsögðu öðruvísi umræða en sú umræða snerist fyrst og fremst um nafnleyndina og þetta: Réttur barnsins, réttur foreldra.

Mig langar að staldra aðeins við umræðuna sem fram fór á málþingi Siðfræðistofnunar. Þar var einmitt fjallað um það hvort menn ættu að vera svona uppteknir af hagsmunum gjafara og það væri hægt að tryggja réttinn til að fá að vita um uppruna sinn þótt annað sem menn væru hræddir við fylgdi ekki með. Það hefur verið margáréttað að það að aflétta nafnleynd sneri ekki að viðkvæmum þáttum eins og erfðarétti og öðru slíku þannig að við erum ekki að tala um það. Við erum fyrst og fremst að tala um að fá leyfi til að fá upplýsingar um uppruna sinn, við komum betur að því síðar.

[21:45]

Það var líka fjallað um að ófrjósamir foreldrar eigi minni möguleika á að fá barn og þar var meginskoðunin sú að þar með væri sjálfstæðum rétti barns fyrirgert til að þjóna foreldrum. Hagsmunirnir sem væri haft svo hátt um væru að sumu leyti ímyndaðir því þeir byggðu á feluleik og ósannindum. Það kom líka fram á þessu þingi að það vantaði ákvæði um fjölskylduráðgjöf til að koma til móts við foreldra sem ættu við vandamál að stríða. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til streitu hér og minna á þann þátt og mikilvægi hans. Reyndar hef ég átt viðræður um þann þátt við formann heilbrn. sem hefur mjög góðar og heilbrigðar skoðanir á þessum málum þótt okkur greini á um nafnleyndina. Við höfum einmitt rætt það hversu foreldraráðgjöf sé mikilvæg bæði við umsókn og áætlanagerð. Það er mjög mikilvægt að í foreldraráðgjöf felist að benda á aðra kosti og ráðgjöf og ekki síst að umhyggja þarf að koma til eftir að tæknifrjóvgun hefur verið reynd og hún hefur misheppnast eða ef fósturlát hefur orðið. Það hefur orðið mörgum pörum mjög erfitt og sársaukafullt og oft á tíðum þáttur sem þau hafa verið lengi að vinna úr.

Hér hefur verið talað um það og það kom líka fram á þessu málþingi að úr því að frjóvgun væri leyfð og notkun kynfrumna þá verði menn að ganga út frá því að úr verði fullveðja fullorðinn einstaklingur með fullan rétt til aðgangs að upplýsingum. Þar greinir mig mjög á við félaga mína sem voru hér í andsvörum við síðasta ræðumann. Mér fannst þeir vera uppteknir af því að ef sæði fengist ekki í þessum tilfellum og þar með yrði ekki barn þá væri ekki hægt að hafa áhyggjur af því sem myndi gerast hjá því barni átján ára, því það væri ekkert barn. Þetta eru rök sem ég get ekki fallist á. Ég get ekki fallist á að ef ekki verður til barn þá þurfi ekki að vera með þessar áhyggjur því áhyggjurnar og rétturinn sem við tölum um er fyrir fullveðja einstakling sem hefur orðið til. Ég get ekki hugsað mér nokkurn standa í þeim sporum að standa fyrir framan fullorðna manneskju, hafa engar upplýsingar að veita um þetta viðkvæma mál og eiga þau einu svör: Hvað ert þú að kvarta, stelpa. Ef þetta hefði ekki verið gert hefðir þú ekki orðið til. Vertu bara ánægð með að vera til. Þess vegna er ég fullkomlega ósammála þessum rökum og ósátt við að þau séu sett fram. Það eru svo mörg önnur rök sem hægt er að takast á um. Fyrst og fremst lít ég svo á að þetta sé ekki einhver hefðbundin pólitík sem menn eru að takast á um, þetta er grundvallartilfinningamál. Mér finnst eðlilegt að við virðum rétt hvers annars og ræðum þetta efnislega. Í þessu máli finnst mér ekki passa að ráðast hvert á annað fyrir að vera með rangar hugmyndir. Mér finnst mín skoðun fullkomlega rétt þótt ég viðurkenni skoðanir annarra og hafna því að mín sé sögð hin ranga. Þetta er bara skoðanaágreiningur.

Mig langar að koma örlítið inn á atriði sem komu fram á þinginu sem ég var að vísa til og minna á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann var samþykktur á allsherjarþinginu árið 1989 og tók gildi 1990. Hann felur í sér ótvíræða viðurkenningu á því að börn hafi sjálfstæð réttindi, alveg óháð vilja foreldra eða annarra forráðamanna. Það er ekki aðeins reynt að tryggja borgaraleg réttindi þeirra heldur líka leitast við að skilgreina bæði félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi. Bara það að gera sérstakan samning um rétt barna hefur mjög sjálfstæða þýðingu og hann tekur í raun og veru mið af því að börn eru ekki þrýstihópur og geta ekki sett sér heildstæð markmið sem þjóni hagsmunum þeirra og þörfum. Þessi samningur var fullgiltur hjá okkur 1990 og ekki var gerður neinn fyrirvari við hann.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort það hefur komið fram hér hvað olli breytingunni á þessum lögum í Svíþjóð. Ég ætla að nefna það ef það hefur ekki verið sett hér fram. Það var svokallað Haparanda-mál. Það er talið að niðurstaða þess dómsmáls fyrir hæstarétti Svíþjóðar hafi haft mjög afgerandi áhrif á að það var breytt reglum og breytt lögum þar í landi. Það vekur til umhugsunar um það hvaða skilyrði eigi að setja fyrir meðferð eins og þeirri sem við erum að ræða hér. Það sýnir líka ýmsan vanda eins og það að lengd sambúðar fyrir frjóvgun tryggir svo sem á engan hátt að samband foreldra rofni ekki, eins og þarna var bent á. Þannig var að kona sem fæddi son eftir tæknisæðingu með gjafasæði lenti í því þegar sonurinn var tveggja ára að maðurinn fór fram á skilnað og í kjölfar þess vefengdi hann faðerni barnsins. Hæstiréttur Svíþjóðar hafnaði því að það hefði þýðingu hvort maðurinn hefði samþykkt þessa tilteknu tæknisæðingu eða ekki. Þess í stað byggði rétturinn einfaldlega á þeirri staðreynd sem þegar lá fyrir að maðurinn var ekki faðir barnsins. Það má velta endalaust fyrir sér hvaða þýðingu slík atriði hafa í umræðunni. Á þessum tíma gilti nafnleyndarregla í Svíþjóð og þetta barn sem um ræðir varð allt í einu föðurlaust. Auðvitað hafði þetta mikil áhrif á alla þá sem vildu afnema nafnleynd og það fór svo að þremur árum síðar var sett löggjöf sem felldi niður nafnleyndina. Þótt menn greini á um nafnleynd eða ekki nafnleynd þá er það nú einu sinni svo að í þessu tilfelli var hagur og velferð barnsins gert að lykilatriði. Það er auðvitað það sem við erum að velta fyrir okkur í okkar umræðu hvers hag við setjum í öndvegi.

Það kom fram í máli hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur á hvern hátt íslensk lög virða sjálfstæðan rétt barnsins. Ég ætla ekki að endurtaka það en þetta eru vissulega þýðingarmikil atriði þegar við erum að fjalla um mál sem þessi.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir og er lagt mjög mikið upp úr er sá að fólk sem á í þeim vanda að geta ekki eignast barn hafi miklar áhyggjur af því að það muni ekki fá kynfrumur ef nafnleynd verður aflétt. Ég geri ekki lítið úr þeim áhyggjum. Ég geri alls ekki lítið úr þeim áhyggjum og skil vel þá stöðu foreldranna. Ég minni samt á að fyrir 16 árum var þetta ný tækni og þótti þá mjög ótrúleg og stórkostleg. Okkur hefði þá ekki órað fyrir því hvað margt annað kæmi til. Nýja tæknin sem hefur orðið til síðan hefur bæði gert auðveldara að veita lækningar og nú glasafrjóvgun, eins og við höfum verið að fjalla um. Kannski hefur þar með fjölgað þeim einstaklingum sem geta eignast barn þrátt fyrir erfiðleika. Ég veit að það breytir ekki stöðunni hjá þeim sem verða að fá sæði en ég er ekki viss um að það muni gjörbreyta svo miklu vegna þess að breytingin fyrir gefandann er sú að hann heimilar að það verði gefnar fullkomnar upplýsingar um hann til barnsins þegar það er orðið fullorðið. Ég veit ekki hvort það breytir svo miklu fyrir gefandann, sé verið að hugsa um það að hann fari í sambúð eða hjónaband síðar, hvort hann segir maka sínum á einhverjum tímapunkti: Ég gaf úr mér sæði, e.t.v. í þetta mörg börn. Það gæti þess vegna verið að þú mættir einhvers staðar á götu í einhverju tilteknu landi eða hvar sem við erum á ferð barni sem lítur út eins og ég þegar við kynntumst. Eða hvort hann segir hreinlega: Ég veitti leyfi fyrir því að barn sem yrði til úr þessu sæði fengi að vita um mig án þess að ég hafi opnað á nokkur kynni. Ég veit ekki hvort þetta breytir svo miklu ef leitað verður sterkt eftir því. Mér finnst að það sé það sem eigi að leita eftir. Að sá sem er tilbúinn að gefa, eins og ég hef stundum sagt, efni í mann axli á því ábyrgð.

Það voru margar umsagnir varðandi þetta frv. Ég ætla ekki að fara í gegnum þær allar en ég ætla að nefna þrjár. Í fyrsta lagi frá umboðsmanni barna. Það er nýtt embætti hjá okkur og var sett á laggir til að gæta hagsmuna barna. Það er afdráttarlaus skoðun umboðsmanns barna að það eigi ekki að vera nafnleynd. Ég gríp, með leyfi virðulegs forseta, niður á nokkrum stöðum í þá umsögn: Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Barn á rétt á því eftir því sem unnt er að þekkja foreldra sína. Það á að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling. Það er vísað í samning Sameinuðu þjóðanna um að tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þeim án mismununar.

Aftur og aftur í umsögninni er kveðið á um réttinn til að vita uppruna, réttinn til að þekkja foreldra eftir því sem framast er unnt og að tryggja barni sem getið er með gjafakynfrumu ótvíræðan rétt til að fá að vita hver raunverulegur uppruni er eftir því sem framast er unnt.

Sömuleiðis er að finna í umsögn Kvenréttindafélags Íslands afdráttarlausa yfirlýsingu varðandi þetta ákvæði. Barn sem getið er með gjafakynfrumum á að eiga rétt á upplýsingum um kynforeldra þegar það hefur þroska til og óskar þess, þó þannig að nafnleynd sé virt. Allir eiga skilyrðislausan rétt til að geta vitað um uppruna sinn.

Síðan er umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ég veit að það er búið að vísa mjög mikið til þeirrar umsagnar en þar segir m.a. að einstaklingur sem getinn er með þessum hætti eigi að eiga þess kost að fá allar upplýsingar um uppruna sinn sem til eru. Meginrökin eru þau að rangt sé með lagasetningu eða leynd að girða fyrir þá möguleika að einstaklingur geti leitað upplýsinga um sjálfan sig sem aðrir búa yfir.

Virðulegi forseti. Það er gífurlega rík þörf einstaklinga að fá að vita um rætur sínar. Þetta er miklu sterkari hvöt en mann órar fyrir þegar maður hefur ekki kynnst því. Það er ekki mjög langt síðan ég átti viðræður við manneskju á mínum aldri, vel gerða yfirvegaða manneskju, sem taldi sig vita um uppruna sinn. Hún var ættleidd og taldi að hún vissi um uppruna sinn en fékk svo þær upplýsingar að á upprunanum léki vafi. Þessi manneskja sagði við mig: Ég hefði aldrei trúað þessu. Ég á yndislega foreldra og það snýst ekki um það. Það snýst ekki um þá sem ganga í foreldrastað. Ég á þessa yndislegu foreldra en þessi tilfinning er að tæta mig í sundur. Ég er komin yfir fimmtugt, ég vaki á nóttinni og ég verð að fá niðurstöðu í þetta mál. Ég mun einskis láta ófreistað. Þetta skiptir mig svo miklu máli.

Við getum rætt þessi má fram og til baka en þetta er staðreynd sem verður ekki komist fram hjá að það að vita rætur sínar er sterk kennd í hverjum einstaklingi. Einhvers staðar hefur því verið haldið fram og kannski eru fyrir því einhver vísindaleg sannindi að hungur og kynhvöt séu sterkustu hvatir mannsins. Og virðulegi forseti, það munu vera mín lokaorð að ég legg það næstum að jöfnu við þetta tvennt, þessa ríku þörf mannsins fyrir að þekkja uppruna sinn.