Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:13:58 (5539)

1996-05-02 22:13:58# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þótt vera megi að ég taki aftur til máls í umræðunni undir öðru formerki tel ég rétt að bregðast við ósk hv. þm. að skýra afstöðu mína aðeins frekar en hann hefur numið af máli mínu til þessa. Það fyrsta sem er greinilega misskilningur og réttilega var vísað til af hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrr, hann virtist ekki alveg hafa náð inntaki tillögu minnar, felst í því að ég geri ekki ráð fyrir gafakynfrumu, hvort sem um er að ræða tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Á því geri ég engan mismun og þar með eru þau vandamál ekki uppi sem tengjast gjafakynfrumum sérstaklega.

Ég tengi tillöguflutninginn siðferðilegum álitaefnum, félagslegum álitaefnum og eftir atvikum lögfræðilegum álitaefnum sem upp koma frekar þegar um svo flókið samhengi er að ræða sem þetta og náttúrlega margfalt frekar þegar um hinn siðferðilega þátt er að ræða. Hitt er svo rétt til getið hjá hv. þm. að við þessi rök bætast áhyggjur af minni hálfu varðandi það að þeir sem virðast reiðubúnir að ganga þessa götu jafnlangt og þetta frv. gerir ráð fyrir kunni að vera opnir fyrir því að ganga enn lengra þegar tæknin leyfir og krafan kemur upp og vilji heimila þessi og þessi inngrip í erfðaefnið til að fyrirbyggja hugsanlega sjúkdóma. Eða jafnvel til að ná fram því sem menn telja jákvæða eiginleika. Það er einnig þarna til staðar.

Ég vil í þessu sambandi vísa til rits sem heitir Barnaréttur. Höfundur er Davíð Þór Björgvinsson og það kom út á árinu 1995. Þar er að finna margháttaðan fróðleik, rök og vangaveltur um þessi atriði, m.a. lögfræðilegs efnis. Ég hvet hv. þm. til að kynna sér það. Má vera að ég vitni frekar í það rit í umræðu á eftir.