Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:41:49 (5550)

1996-05-02 22:41:49# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:41]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. um tæknifrjóvgun og undir nál. meiri hlutans í allshn. er mitt nafn en með fyrirvara þó. Ég er kominn hingað upp til þess að gera grein fyrir þeim fyrirvara.

Fyrst vil ég þó gera grein fyrir afstöðu minni til frv. almennt. Þá er á það að líta að með þessu frv. er stefnt að því að lögfesta reglur um tæknifrjóvgun. Þær reglur hafa ekki verið til í íslenskum lögum enda þótt tæknisæðing hafi verið framkvæmd hér á landi frá árinu 1980 og glasafrjóvgun frá árinu 1991. Hins vegar hafa verið ákveðnar verklagsreglur og er þetta frv. sem hér er flutt í samræmi við þær reglur að verulegu leyti auk þess sem frv. heimilar eggfrumugjöf sem hingað til hefur ekki verið talin heimil hér á landi. Ég tek undir það sem fram kemur í nál. að það er eðlilegt að um þessi viðkvæmu mál sé skýr löggjöf og tímabært að ákveðnar reglur séu lögfestar.

Hér hafa verið til umræðu ýmis álitamál. Í fyrsta lagi hefur verið um það rætt hvort eigi að einskorða heimildir til tæknifrjóvgunar við karl og konu sem búa saman, við par. Ég er andvígur því sjónarmiði. Ég tel ekki eðlilegt að einskorða tæknifrjóvgun við par, við karl og konu sem búa saman.

Í öðru lagi hefur verið um það rætt hvernig eigi að meðhöndla nafnleynd og þá erum við komin að fyrirvara mínum. Menn hafa nálgast spurninguna um nafnleynd úr ólíkum áttum, tveimur ólíkum áttum. Annars vegar hafa verið þeir sem telja eðlilegt að um þessi efni ríki leynd, nafnleynd. Þeir telja það heppilegt og eðlilegt. Ég er andvígur því sjónarmiði. Mér finnst það óeðlilegt. Síðan hafa á hinn bóginn verið þeir sem hafa skoðað blákaldan raunveruleikann og spurt sem svo: Getum við annað en sett reglur um nafnleynd einfaldlega vegna þess að að öðrum kosti myndu ekki fást gjafar? Og í því sambandi hefur verið bent til Svíþjóðar þar sem nafnleynd ríkir ekki og þar er framboð á kynfrumum lítið. Í þessu sambandi hefur líka verið bent til Danmerkur þar sem nafnleynd er við lýði og framboðið meira af þeim sökum.

Ég vil ganga eins langt í nafnleyndarátt og kostur er og mun þess vegna styðja tillögu sem fram er komin frá hv. þm. Hjálmari Jónssyni. Hann finnst mér fara þá millileið sem ég get sætt mig við. Hann horfir á réttindi barnsins, einstaklingsins, þegar hann hefur náð sjálfræðisaldri þá eigi hann rétt á því að fá aðgang að upplýsingum um líffræðilegan uppruna sinn. Hins vegar verð ég að játa það að að vissu leyti er ég hálfvolgur í þessu máli. Ég er t.d. ekki á því að heilbrigðiskerfið hætti að styrkja einstaklinga sem fara utan t.d. til Danmerkur í aðgerðir af þessu tagi. Með öðrum orðum, ég er ekki tilbúinn að ganga alla leiðina í afnám nafnleyndar hvað sem það kostar. Í samræmi við það þá mun ég, nái tillaga hv. þm. Hjálmars Jónssonar ekki fram að ganga, styðja þetta frv.