Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:48:51 (5551)

1996-05-02 22:48:51# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:48]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Lífið er nú ekkert létt og einfalt. Það er reyndar oft mjög erfitt og flókið og misjöfn er mannanna lukka svo sem í sambandi við þetta málefni sem við ræðum nú. Sumum gengur treglega eða alls ekki að margfaldast og uppfylla jörðina eins og boðið er en öðrum þykir nóg um þá frjósemi sem þeim er gefin. Læknavísindin reyna svo eftir föngum að bæta úr á þessu sviði sem öðrum og fara reyndar stundum nánast fram úr sjálfum sér. Tækni og vísindi geta svo sannarlega verið af hinu góða og breytt mannlífinu til hins betra en það er ekki einhlítt og við megum ekki láta tæknina taka af okkur ráðin. Öll tækni og vísindi fela í sér möguleikann á misnotkun en það hlýtur að vera samfélagsins að hafa eftirlit með vísindunum og setja þeim reglur. Í því efni sem hér um ræðir má segja að tæknin stilli okkur upp við vegg og krefjist þess að við setjum siðferðismörkin og undan því megum við ekki víkjast. Það er ljóst að það er mjög mikill áhugi hér innan þings og utan á þessu þingmáli og það er mikill áhugi og vilji til þess að leiða það til lykta á þessu þingi. En því miður hefur ekki náðst sátt um afgreiðslu þess eins og ljóst má vera af þeim umræðum sem við höfum hlýtt á.

Eins og fram kemur í nál. 1. minni hluta allshn. var fyrst og fremst tekist á um tvö atriði í nefndinni, þ.e. hvort kynfrumugjafi eða kynfrumuþiggjandi geti krafist nafnleyndar og um leið útilokað að barnið sem til varð með þeim hætti geti nokkru sinni fengið vitneskju um líffræðilegan uppruna sinn. Hitt atriðið varðar það hverjir eigi rétt á tæknifrjóvgun, hvort með þessu frv. sé fyrst og fremst verið að bregðast við ófrjósemi og því réttlætanlegt að hvorki sé tekið sérstaklega á stöðu samkynhneigðra né einhleypra kvenna. Ég vissi auðvitað um þennan ágreining. Fulltrúi Kvennalistans í allshn., hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, fór mjög vel yfir málið oftar en einu sinni í þingflokknum og reyndar í miklu stærri hópi og leitaði eftir viðhorfum eins margra innan samtaka okkar eins og kostur var á. Því er ekkert að leyna að það eru skiptar skoðanir um einstök atriði innan samtaka okkar eins og annars staðar. Þetta virðist ekki skiptast eftir flokkum. Niðurstaða hennar er rökstudd í nál. og hún leggur fram nokkuð viðamiklar brtt. á þskj. 826 sem hún mun hafa gert grein fyrir í upphafi umræðunnar sem ég gat því miður ekki verið viðstödd vegna veikinda.

Í nál. 1. minni hlutans er rakinn allrækilega þessi ágreiningur um nafnleyndina og þær miklu umræður sem hafa orðið um þetta atriði í nefndinni. Slíkar umræður voru auðvitað ekki bundnar við hv. allshn. eða þingheim heldur hafa orðið miklar umræður víða í þjóðfélaginu og blaðaskrif og það eru augljóslega mjög heitar tilfinningar í þessu máli eins og við höfum heyrt, heitar tilfinningar og mjög ákveðnar skoðanir á báða bóga. Ég vil láta mína skoðun koma fram um þetta atriði. Ég hef verið þeirrar skoðunar alveg frá upphafi að nafnleynd í þessu efni sé mannréttindabrot sem ég get ekki sætt mig við. Ég skil vel að það sé erfitt að búa við barnleysi og styð auðvitað einlæglega að flest sé gert sem í valdi læknavísindanna er til þess að bæta úr þeim vanda. Nú er því ekkert að leyna að sumir hafa viljað setja þetta upp sem mjög kvennapólitískt mál, jafnvel spurningu um kvenfrelsi. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Mér finnst þetta ekki vera spurning um kvenfrelsi og jafnvel þótt svo væri að þetta væri spurning um kvenfrelsi þá er í mínum huga annar réttur æðri sem er rétturinn til þess að þekkja sjálfan sig, geta leitað uppruna síns, eiga þess kost að finna rætur sínar og þekkja þær. Þann rétt má ekki taka frá óbornum einstaklingi. Þetta er niðurstaða mín og því vil ég lýsa stuðningi við tillögu hv. þm. Hjálmars Jónssonar.