Tæknifrjóvgun

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 11:47:26 (5583)

1996-05-03 11:47:26# 120. lþ. 130.3 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, SP (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:47]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og ég hef lýst áður vilja auðvitað öll pör, sem eiga við ófrjósemi að stríða, helst af öllu að kynfrumur þeirra séu notaðar við meðferðina enda er það gert í öllum tilvikum sem hægt er þannig að hér er um alger undantekningartilvik að ræða. Þar að auki er rétt að segja að tæknifrjóvgunarmeðferð hefur stuðlað að aukinni vitneskju um ófrjósemi og meðferð við henni og m.a. þróað aðferðir sem auka líkur á að hægt sé að nota kynfrumur parsins. Ef sú leið verður farin að banna notkun gjafakynfrumna munu þau pör, sem þurfa á þeirri meðferð að halda, þurfa að leita til útlanda vegna ófrjósemi sinnar þannig að þróun í þessum málum mun því verða hægari sem þessu nemur. Þó að bann við kynfrumugjöf mundi leysa vanda, sem sú framkvæmd veldur vegna nafnleyndar, yrði slíkt bann engu að síður verulegt spor aftur á bak fyrir þau pör sem þurfa á gjafakynfrumum að halda.

Ég vek athygli á því að tæknisæðing hefur verið framkvæmd hér á landi allt frá árinu 1980 þannig að ef þessi tillaga yrði samþykkt yrði um að ræða stórt skref aftur á bak. Ég segi því nei.