Tæknifrjóvgun

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 11:53:20 (5584)

1996-05-03 11:53:20# 120. lþ. 130.3 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég styð þá tillögu sem hér er borin undir atkvæði og ákvæði 11. og 12. gr. í sambandi við rannsóknir á fósturvísum. Ég tel hins vegar að það þyrfti að setja í lög mun ítarlegri ákvæði um rannsóknir á þessu sviði og gat þess í umræðu um málið að ég mundi beita mér fyrir því að þingið tæki á því máli. Hér er verið að fara inn á afar vandasamt svið að því er rannsóknir snertir og það sem við erum að heimila samkvæmt þessum greinum er álitaefni eitt út af fyrir sig svo ekki sé talað um þær rannsóknir sem tengjast erfðaefni mannsins og erfðavísum og hugsanlegum breytingum á þeim og geta komið í vaxandi mæli til álita.

Ég taldi rétt að skýra þessa afstöðu mína til þessarar brtt. og ég hvet til varfærni í þessum málum að því er rannsóknir snertir.