Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 12:49:15 (5589)

1996-05-03 12:49:15# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[12:49]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega bregðast við orðum hv. síðasta ræðumanns sem snúa að jafnrétti til náms. Ég tel að þar hafi síðasti ræðumaður farið með algerlega staðlausa stafi. Það er tryggilega gengið frá jafnrétti til náms í þessu frv. og í 15. gr. segir: ,,Allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.`` Einnig er séð betur fyrir þörfum þeirra sem minna mega sín í þessu frv. en áður hefur verið gert í löggjöf um framhaldsskóla. Þar nefni ég sérstaklega 18. gr. sem lýtur að starfrækslu fornáms í framhaldsskóla fyrir þá nemendur sem ráða illa við nám sitt. Gert er ráð fyrir því að það verði skipulagt sem eins árs heildstætt nám. Í 19. gr. er líka kveðið á um að hægt sé að stofna sérstakar deildir við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur. Þetta er nýmæli. Þarna er verið að lögfesta að sé hægt að bjóða fram sérstakt námstilboð fyrir þessa nemendur. Einnig er í 20. gr. nýmæli um móðurmálskennslu bæði fyrir útlendinga og íslenska nemendur sem hafa verið búsettir lengi erlendis og síðan þá fyrir fólk sem þarf sérstaka kennslu í íslensku. Það er því alveg ljóst að það er séð mjög vel fyrir jafnrétti til náms í þessu frv. Og hvað varðar það að nemendur eigi ekki rétt til náms í eigin skólahverfi, vil ég minna á að það hefur mjög lengi verið gagnrýnt að nemendur fái ekki skólavist í þeim skólum sem hugur þeirra stendur til vegna þess að þeir séu njörvaðir í þeim skóla sem næstur þeim er.