Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 12:54:25 (5592)

1996-05-03 12:54:25# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[12:54]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Mig langar til að hefja mál mitt í Skotlandi og líta til Glasgow-borgar fyrir rúmum þremur áratugum þegar skipaiðnaðurinn í Glasgow og Strathclyde-svæðinu hrundi með þeim afleiðingum að Glasgow varð fátækasta borg í Evrópu. Margir Íslendingar sem þangað komu á þeim tíma muna það skelfilega ástand sem ríkti í Glasgow. Um ástæður þess að þetta gerðist skal ekki fjölyrt hér en meginástæðan var sú, eins og ég nefndi áðan, að skipaiðnaðurinn hrundi en hann hafði verið burðarásinn í efnahags- og atvinnulífi þeirra Skota á Glasgow-svæðinu. Einhæft atvinnulíf sem brást leiddi með öðrum orðum þær hörmungar yfir Skotana. En til allrar hamingju báru þeir gæfu til þess að rífa sig upp úr öldudalnum með markvissum aðgerðum og lagasetningu. Þeir báru gæfu til að treysta atvinnulífið þannig að fjölbreytileiki varð í stað fábreytileika. Þeir lögðu áherslu á að byggja upp mörg og fjölbreytileg smáfyrirtæki í stað fárra og stórra. Þeir lögðu áherslu á tækni og þjónustu, ekki síst verslun og ferðaþjónustu sem landinn hefur notið góðs af nú um árabil.

Ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að við skilgreiningu á vandanum og við enduruppbyggingu á efnahags- og atvinnulífi í Skotlandi ákváðu skosk yfirvöld að nota menntakerfið og skólana á markvissan hátt í samstarfi skóla og atvinnulífs. Í því skyni settu þeir á stofn það sem kallað er Scotvec eða Scotish Vocational Education Center. Og til þess að gera langa sögu stutta má segja að markmiðið hafi tekist. Í Skotlandi er ágætur hagvöxtur. Atvinnuleysi hefur farið ört þverrandi og Scotvec hefur haldið styrkri hönd utan um hina markvissu starfsmenntun. Ég held að það sé ekki orðum aukið þegar ég segi að Skotar eru á að giska tíu árum á undan okkur Íslendingum hvað varðar uppbyggingu starfsmennta.

Það sem mestu skiptir er að viðhorf Skota í atvinnulífi og innan skólanna til menntunar og gildi menntunar breyttist. Þeir komumst að þeirri niðurstöðu að efnahagslífið yrði ekki byggt upp öðruvísi en að nýta mannauðinn og í því skyni gegnir menntakerfið og skólakerfið lykilatriði. Enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Herra forseti. Mér þykir fróðlegt að bera það sem gerst hefur í Skotlandi saman við það sem er að gerast hér og hefur verið að gerast hjá okkur Íslendingum. Ég hef átt þess kost nokkrum sinnum að heimsækja höfuðstövar Scotvec og skoska skóla og fyrirtæki í Skotlandi sem hafa starfað með skoskum starfsmenntaskólum.

Það má segja að að sumu leyti hafi svipaðir atburðir verið að gerast hjá okkur Íslendingum. Meginiuppistaða í efnahagslífi okkar hefur verið og er fiskveiðar og fiskvinnsla og þar vitum við hvað hefur gerst á undanförnum árum. Þar hefur orðið hrun í veiðum með skelfilegum afleiðingum fyrir mörg fyrirtæki, mörg þorp og heilu landsfjórðungana. En það má líka segja um okkur líkt og Skota að neyðin hafi kennt okkur. Það er kannski það jákvæða við þær þrengingar sem við höfum gengið í gegnum að undanförnu að við sjáum hvaða breytingar hafa orðið og eru að eiga sér stað. Þannig má tvímælalaust rekja að nokkru leyti til aðstæðna hér heima þá stórmerkilegu útrás sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa sýnt út um allan heim má segja og eru þannig að nýta íslenskan mannauð.

Það má líka benda á hvernig fullvinnsla sjávarfangs hefur stöðugt farið vaxandi sem rökrétt viðbrögð við minnkandi hráefni. Það má telja upp hugbúnaðarútflutning okkar hjá nokkrum glæsilegum fyrirtækjum á borð við OZ hf. og fleiri slík, kvikmyndaiðnaðinn, ferðaþjónustu, aukningu á útflutningi á iðnaðarvörum og þannig má áfram telja.

[13:00]

Við erum með öðrum orðum á breytingaskeiði svipað og gerðist með Skota fyrir eins og tveim til þrem áratugum. Gallinn hefur bara verið sá að skólakerfi okkar er langt á eftir þeim breytingum sem hafa verið að eiga sér stað í atvinnu- og efnahagslífi okkar. Tölur eins og þær að 70% nemenda í framhaldsskóla skuli sækja inn á hinar svonefndu stúdentsbrautir en einungis um 30% inn á starfsmenntabrautir segir í raun það sem segja þarf. Þetta hlutfall er öfugt í þeim þjóðum Evrópu sem lengstar eru komnar í að byggja upp markvisst efnahags- og atvinnulíf, þ.e. um 70% í starfsmenntanámi en einungis um 30% í hinum hefðbundnu stúdentsbrautum. Ofan á það bætast svo að u.þ.b. 45% þeirra sem hefja nám í framhaldsskóla gefast þar upp. Finna sig ekki. Þessar tölur segja í rauninni að skólakerfi okkar í dag er um margt meingallað. Það er eitt meginverkefni stjórnmálamanna og fulltrúa atvinnulífsins og í rauninni allra sem að koma að breyta áherslum í menntakerfi okkar sem meginforsenda fyrir uppbyggingu og framförum í efnahagslífi. Þetta eru ekki bara íslenskar hugleiðingar, þetta eru þær ábendingar sem sérfræðingar frá OECD hafa verið að veita aðildarríkjum sínum, þetta eru þær ábendingar sem sérfræðingar ESB benda aðildarríkjum sínum á og þannig má áfram telja. Ég lít svo á að það sé meginmarkmið framhaldsskólafrv. sem er hér til umræðu, þ.e. að efla starfsmenntun, það má í rauninni segja að brúa þá fjandsamlegu gjá og það bil sem hefur ríkt á milli framhaldsskóla á Íslandi og atvinnulífsins.

Hvers vegna er staða íslenskra framhaldsskóla jafnveik og raun ber vitni? Margir vilja finna sökudólga, atvinnulífið skammar gjarnan skólafólkið, skólafólkið svarar atvinnulífinu fullum hálsi og þannig hefur þessi rígur skapast sem hefur í rauninni bitnað á atvinnulífinu sjálfu og skólastarfinu. Sökin er með öðrum orðum okkar allra. Ég óttast mest að þau ágæu markmið sem eru sett með þessu frv. muni ekki nást ef viðhorfsbreyting á sér ekki stað bæði meðal skólamanna og fulltrúa atvinnulífsins. Skotar báru gæfu til að breyta viðhorfum sínum og taka upp samstarf milli þessara aðila, skóla og atvinnulífs, með þeim glæsilega árangri sem að framan var getið. Í rauninni er það að mínu mati lykilatriði í því frv. sem hér liggur fyrir, það kemur fram í 30. gr. og einkum þó þeim breytingum frá meiri hluta menntmn. sem gerðar eru á 30. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að við hvern framhaldsskóla skuli verða heimilað, og ég trúi að það muni þá verða gert, að koma á laggirnar sérstökum faggreinum, faggreinaráðum einstakra starfsmenntabrauta og þeirra fyrirtækja sem starfa í baklandi hvers skóla og að þessum ráðum er jafnframt ætlað að eiga frumkvæði að því að skilgreina ýmsar starfsmenntabrautir og einstaka áfanga þar inn á. Það tel ég vera lykilatriðið, að frumkvæðið komi frá fyrirtækjunum sjálfum og einstökum skólum í stað þess að bíða eftir því að hlutirnir gerist í þunglamalegu miðstýrðu kerfi eins og við höfum búið við núna um áratuga skeið, m.a. í iðnfræðslu, og hefur verið gagnrýnt mjög. Ég tel meginatriðið vera að aflétta miðstýringu og færa frumkvæðið út til einstakra skóla og þeirra fyrirtækja sem einstakir skólar eiga að vera að þjóna og munu vonandi þjóna. Það tel ég vera meginatriðið sem kemur fram í 30. gr. frv. ásamt þeirri breytingu sem gerð er með tillögum meiri hluta menntmn. Jafnframt minni ég á það sem kemur fram í 35. gr. frv. þar sem talað er um fullorðinsfræðslumiðstöðvar og endurspeglast best þar sú hugsun að einstakir skólar og þau fyrirtæki sem hverjum skóla er ætlað að þjóna gangi saman í eina sæng ef svo má að orði kveða með sameiginlegri fullorðinsfræðslumiðstöð, skóla aðila vinnumarkaðarins, þ.e. fyrirtækja og verkalýðsfélaga á hverjum stað. Þannig mun skóli og atvinnulíf í sameiningu fylgjast með þeim breytingum sem eiga sér stað í atvinnulífinu og þannig mun skólinn endurspegla atvinnulífið í stað þess að dragast aftur úr og rykfalla eins og hér hefur gerst á síðustu áratugum.

Ég minni enn á að í dag er þjónusta af ýmsum toga mannfrekasta atvinnugrein í landinu. Þessi sama þjónusta sést nánast ekki í skólakerfinu eins og það lítur út í dag. Ég nefni sem dæmi afgreiðslubraut, eða mikilvæg störf við alls konar afgreiðslu. Meginreglan í dag er sú að fólk er ráðið til afgreiðslustarfa án þess að farið sé fram á nokkra starfsþjálfun eða menntun líkt og afgreiðsla, þessi mikilvæga þjónustugrein, sé meðfæddur erfðaeiginleiki. Aðrar þjóðir svo sem Danir, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn hafa þróað sérstakar námsbrautir fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Það er m.a. á því sviði sem ég lít á að frv. ætli einstökum skólum og því umhverfi sem þeir starfa í að sækja fram á, ekki síst í þjónustunni.

Herra forseti. Í ræðu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur kom fram að heldur væri gengið á jafnréttishugmyndir með frv. Ég hef áður nefnt að mesta framför í jafnréttisátt fyrir kynin er að auka námsframboð þannig að námsframboðið í framhaldsskólum endurspegli það sem er að gerast í atvinnulífinu. Ég minni á að í dag virðast ungar stúlkur ekki finna sér margar námsbrautir við hæfi á starfsmenntasviðinu innan framhaldsskólanna. Meginreglan er braut á háriðnaðarsviði og sjúkraliðasviði. Þar með er nánast upp talið. Með því að auka framboð á starfsmenntabrautum á öllum sviðum atvinnulífsins er verið að auka jafnrétti. Þannig mun ungt fólk, hvort heldur eru drengir eða stúlkur, geta fundið sér nám við hæfi sem höfðar til áhuga þeirra getu og kunnáttu. Það tel ég vera eitt mesta spor í jafnréttisátt í skólakerfinu sem stigið hefur verið takist að hrinda því í framkvæmd. En það gerist vitaskuld ekki nema einstakir skólar og umhverfi þeirra, atvinnulífið, standi fyllilega saman að þeirri þróun. Það er sá rammi sem þessari löggjöf er ætlað að skapa en framkvæmdin sjálf mun ávallt verða í höndum atvinnulífsins.

Ég hafna þeirri hugmynd sem hefur komið fram í ræðum hér frv. gangi ekki nógu langt í að segja til um hvaða námsbrautir atvinnulífs skuli starfræktar. Ég hafna þeirri hugmynd. Það er ekki löggjafans að telja upp hvaða námsbrautir skuli vera í atvinnulífinu, það er hlutverk atvinnulífsins sjálfs því skólakerfið er fyrst og fremst til vegna atvinnulífsins og efnahagslífsins og tilveru okkar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að rekja öll þau atriði sem frv. og breytingarnar fela í sér en ég vil sérstaklega nefna það sem áður var sagt um 30. gr. og 35. gr. þar sem frumkvæðið er sett til einstakra skóla og umhverfis þeirra. Það er lykilatriðið. Ég vil líka nefna 23. og 24. gr. þar sem lögð er áhersla á sjálfsmatskerfi einstakra skóla þar sem eftirlit er aukið, fyrst og fremst með hugmyndum gæðastjórnunar. Ég túlka þær hugmyndir sem koma fram í 24. gr. um samræmd próf að þar sé átt við samræmd könnunarpróf. Ég hef ekki mikla trú á samræmdum prófum tengdum brautskráningu eins og nú tíðkast í 10. bekk grunnskólans, bæði eru þau afskaplega dýr í framkvæmd, þau vilja mislukkast eins og nokkurra daga gömul dæmi sýna okkur. Þau eru afskaplega dýr í framkvæmd eins og ég nefndi áðan en þó fyrst og fremst að samræmdum prófum tengdum lokaútskrift nemenda verður ekki komið á í öllum greinum, t.d. í ýmsum verklegum greinum. Með því að tengja brautskráningu samræmdum prófum er því verið að leggja ákveðið gildismat, þar með er verið að segja að sumar greinar séu merkilegri en aðrar og það teldi ég ganga sumpart á svig við megintilgang þessa frv. en samræmd könnunarpróf sem liður í sjálfsmatskerfi einstakra skóla teldi ég vera afskaplega mikilvæg í samstarfi við hlutlausan aðila svo sem eins og rannsóknar- og uppeldisstofnun.

Herra forseti. Þá vil ég nefna sérstaklega 44. og 45. gr. Ég tel afskaplega mikilvægt ákvæði vera í 44. gr. þar sem kveðið er á um að menntmrh. geti heimilað einstökum framhaldsskólum að gera tilraunir. Það er afskaplega mikilvægt að skólar séu í stöðugri framför vegna þess að samfélagið er stöðugt að breytast. Þess vegna er mikilvægt að ekki sé einungis heimild heldur beinlínis hvatning til einstakra skóla um að halda uppi stöðugu tilraunastarfi og miðla reynslu sinni til annarra skóla. Af sama toga er ákvæði 45. gr. um þróunarsjóð framhaldsskóla. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu miklu jákvæðu svonefndur Vonarsjóður, sem er sambærilegur sjóður að mörgu leyti úr grunnskólanum, hefur skilað inn í starf grunnskólans. Þess vegna er það mikið fagnaðarefni að fá slíkt ákvæði inn í lög um framhaldsskóla.

Ég tek jafnframt fram að þar sem fjallað er um kjarnaskóla í 31. gr. er það túlkun mín að kjarnaskólar séu fyrst og fremst hugsaðir til þess að dreifa ekki um of fjárfestingu en jafnframt til að gefa einhverjum skóla tækifæri á að sökkva sér sérlega vel niður í tiltekið svið en jafnframt að þjóna öðrum skólum sem vilja halda uppi kennslu á sama sviði. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að það sjónarmið komi fram um það hvernig kjarnaskóli er túlkaður.

Þá vil ég líka taka undir álit hv. formanns í framsögu hans áðan um hlutverk skólanefndar þar sem segir að skólanefnd skuli fylgjast með framkvæmd skólanámskrár. Þar er ekki hugsunin sú og fjarri því að skólanefnd sé ætlað að vera inni á gafli hjá kennurunum, rekandi nefið ofan í það sem gerist frá degi til dags, heldur er þetta ábyrgð sem sett er til skólanefndar en það er svo starfsmanna skólans að kalla til þeirra þær upplýsingar sem skólanefnd óskar eftir.

[13:15]

Það hafa jafnframt komið fram hugmyndir í ræðum um að stytta framhaldsskólann í þrjú ár og opna fyrir þann möguleika. Sá möguleiki er þegar fyrir hendi. Það er einmitt einn af mörgum kostum áfangakerfisins að nemendur geta hagað námi í áfangakerfi eftir sínum hraða nokkuð sjálfir og þess eru mörg dæmi í dag að nemendur í áfangakerfi ljúka námi á þremur árum. Hins vegar er það ekki fyrir hendi í bekkjarkerfisskólum og þess vegna er ugglaust nauðsynlegt að gefa þeim bekkjarkerfisskólum sem það vilja reyna færi á að gera tilraunir með þriggja ára nám til stúdentsprófs og er ekkert við því hægt að amast en ég vek athygli á því að möguleikinn er fyrir hendi innan áfangakerfisins.

Ég dreg ekki dul á það að ég hef ákveðnar efaemdir um það ákvæði sem kveður á um að ríkissjóður greiði einungis 60% af heimavistarhúsnæði. Þar er breyting frá því sem verið hefur og ef ég þegar látið þetta sjónarmið mitt koma fram varðandi hlutdeild í heimavistum.

Herra forseti. Lengi má halda áfram og ég geri ekki ráð fyrir því að nokkru sinni verði hægt að leggja fram frv. um heilt skólakerfi og heilt skólastig öðruvísi en um það verði skiptar skoðanir. Reynslan mun hins vegar sýna hvernig þetta frv., verði það að lögum, muni reynast. Mér er kunnugt um að fjölmargir skólar og skólafólk bíða eftir því að umræðum um frv. til laga um framhaldsskóla ljúki og að frv. verði að lögum að mestu leyti í þeirri mynd sem það er núna. Ég minni líka á umsögn fulltrúa Samtaka iðnaðarins sem hvetja til hins sama af þeirri ástæðu að námskrárgerð hefur öll legið niðri um margra ára skeið. Bæði skólafólk og atvinnulífið ætlast til þess að sú vinna geti hafist en hún getur vitaskuld ekki hafist fyrr en ljóst er hvernig lögin verða, fyrr en lagasetningin hefur átt sér stað. Þess vegna er mikilvægt að þeir skólar sem eru núna í startholunum með að hefja rekstur fjölmargra nýrra starfsmenntabrauta sem þróaðar hafa verið með atvinnulífinu bíða eftir því að þessi lagasetning eigi sér stað og þess vegna finnst mér það eðlileg skylda okkar að bregðast vel við ákalli atvinnulífs og skóla að ljúka þessu og samþykkja þessi lög.