Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 13:18:27 (5593)

1996-05-03 13:18:27# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[13:18]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að mótmæla því sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan, að menntunin í landinu væri til fyrir atvinnulífið. Mér finnst þetta mjög rangt. Fyrir mér er menntun í skólum ekki síst til vegna hamingju einstaklinganna sjálfra, t.d. til þess að gefa þeim færi á að geta skipst á skoðunum á erlendum tungum, til þess að gefa þeim færi á að hafa möguleika til að njóta góðra lista, til að gefa þeim víðtæka almenna þekkingu sem þeir geta notið allt sitt líf og kemur þeim vonandi til góða úti í atvinnulífinu þar sem þeir þurfa auðvitað að sjá sér farborða. En almenn menntun á því stigi sem við erum að fjalla um á ekki síst að vera til þess að gefa fólki almenna, víðtæka þekkingu.

Samkvæmt frv. því sem liggur fyrir er hlutverk framhaldsskólans að stuðla að alhliða þroska allra nemenda. Það verður ekki betur séð en að fyrirliggjandi frv. þrengi heldur að möguleikum til þess að ná þessu markmiði, sbr. 15. gr. um námsaðgreiningu eftir einkunnum á samræmdu prófi en þar stendur að inntaka á einstakar námsbrautir eigi að ákvarðast af þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Hér þarf að skýra hvernig á að sortéra. Mér sýnist að hér sé verið að losa um skyldur framhaldsskóla til að taka við nemendum, t.d. að gera þeim kleift að gera ákveðnar kröfur um lágmarkseinkunn í bóklegum greinum hjá þeim sem hyggjast setjast á bóknámsbrautir viðkomandi skóla. Það er með öðrum orðum alls ekki ljóst hvernig á að beita þessu ákvæði og er varasamt að lögfesta slíkt án þess að námsbramboð sé tryggt fyrir alla nemendur. Hætt er við að þetta leiði til þess að enn fleiri þeirra sem stóðu illa fyrir komi að lokuðum dyrum í kerfinu.

Við þekkjum öll þessa nemendur á undanförnum árum sem hafa fengið lága einkunn á samræmdum prófum en samt náð. Þeir hafa gengið milli skóla og bankað á og oft komið langt fram á haust og þeir hafa ekki neins staðar fengið inngöngu. Mér sýnist að með þessu frv. sé alls ekki girt fyrir að þetta haldi áfram.

Gert er ráð fyrir að möguleikar skóla til að skipuleggja starf sitt sjálfir verði þrengdir, sveigjanleiki í námi og námsframboði minnkaður. Margir telja að frv. tryggi ekki eflingu starfsnáms. Þeir benda sérstaklega á að þarna séu áhrif atvinnulífsins aukin á kostnað skólanna og kennaranna og þó voru áhrif þeirra ekki nógu mikil fyrir. Aðilar atvinnulífsins geta haft annarra hagsmuna að gæta en neytendamarkaðurinn og skólarnir.

Sá þáttur íslenska framhaldsskólakerfisins sem til mestra framfara hefur horft á umliðnum árum er íslenska áfangakerfið sem hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og nú kemur fram í 17. gr. þessara laga að allar námsbrautir eigi að skipuleggja í samræmi við lokamarkmið námsins. Er þetta ekki nokkuð mikil miðstýring? Þó er enn hnykkt á henni í 24. gr. þar sem segir að lokapróf úr framhaldsskóla skuli vera samræmd í tilteknum greinum en reynslan sýnir að samræmd próf vinna mjög gegn öllum sveigjanleika í skólastarfi. Þá vil ég samt taka skýrt fram að þar sem Hjálmar Árnason var áðan að tala um samræmd könnunarpróf þá er ég afskaplega hlynnt þeim, að kennarar geti lagt fyrir samræmd könnunarpróf til að kanna hvernig þeirra hópur stendur miðað við heildina en það er allt annað en að það væru samræmd stúdentspróf, lokapróf, yfir allt landið. Slíkt get ég ekki fallist á.

Í 22. gr. er fjallað um skólanámskrár. Kemur þar fram að ætlast er til að kennarar semji skólanámskrár og er ekkert nema gott um það að segja en benda má á að varasamt er að lögfesta slíkt áður en því hefur verið fundinn farvegur í kjarasamningum.

Einnig er í greininni lagt til að skólanámskrá verði lögð fyrir skólanefnd til samþykktar eða synjunar að fenginni umsögn kennarafundar. Nú er það svo að ekki er tryggt að einn einasti skólamaður sitji í skólanefnd með atkvæðisrétt skv. 6. gr. frv. og þykir ýmsum svo sem það mundi verða faglegra að kennarafundur samþykki skólanámskrá að fenginni umsögn skólanefndar.

Í 26. gr. er fjallað um 18 manna samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi. Vekur athygli að hlutur þeirra sem bera hitann og þungann af skipulagningu þessa starfs, þ.e. kennara og skólastjórnenda, er heldur rýr eða áætlaðir tveir fulltrúar af 18. En þessi nefnd á m.a. að vera menntmrh. til ráðuneytis um stefnumótun í starfsnámi og setningu almennra reglna um skipun og framkvæmd starfsnáms. Í fimm manna starfsgreinaráði er skv. 28. gr. ekki gert ráð fyrir að sitji fulltrúar kennara eða skólastjórnenda nema gert sé ráð fyrir að hæstv. menntmrh. útnefni af sérstökum velvilja sínum fulltrúa sinn úr röðum þeirra.

Víðar í þessu frv. er dregið úr hlut kennara í stefnumótun og stingur það nokkuð í stúf við hugmyndir sem eru núna uppi um alhliða gæðastjórnun þar sem lykilatriði er að starfsmaður eigi aðild að stefnumótun og beri faglega ábyrgð. Menn skulu hafa það hugfast að skólinn er að fást við einstaklinga sem hafa afar mismunandi þarfir. Hlutverk hans er að þroska þá og þjálfa, ekki aðeins í viðkomandi starfsgrein heldur ekki síst í mannlegum samskiptum. Þessum þætti er háskólunum treyst fyrir í þeim greinum sem þeir skipuleggja starfsnám í. Hvers vegna ekki framhaldsskólakennurum í sama mæli? Auðvitað þarf þáttur atvinnulífsins að vera stór. Þáttur þeirra í starfsnámi sem á að skipuleggja úti á vinnustöðunum er að sjálfsögðu mikilvægur en ég tel þó að vægi kennaranna við skipulagningu starfsnáms eigi að vega mun þyngra en gert er ráð fyrir í þessu frv. Þeirra er hin faglega ábyrgð.

Í frv. er gert ráð fyrir í 3. gr. að kennsludagar á skólaárinu verði 145. Þó að þetta sé fækkun um 5 daga frá því sem gert var ráð fyrir í frv. eins og það lá fyrir við 1. umr. er þetta fjölgun um 10 daga frá því sem nú er og kjarasamningar byggja á. Það hlýtur því að kalla á kjarasamningagerð tafarlaust ef frv. verður samþykkt. Hef ég það eftir forsvarsmönnum kennarasamtaka að engin kennsla hefjist í haust í framhaldsskólum fyrr en samið hefur verið um hvernig kennurum verði bætt þessi breyting á umsömdum vinnutíma og aðrar breytingar á kjarasamningum sem samþykkt frv. hefði í för með sér enda hafa þeir bókun þess efnis í kjarasamningum sem voru gerðir á sl. vori.

Samkvæmt 11. gr. frv., sem fjallar um ráðningu starfsfólks, er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi skólameistara til fimm ára í senn að fenginni umsögn skólanefndar en ekki er lengur gert ráð fyrir að leitað verði eftir umsögn kennarafundar eins og áður hefur verið. Ég tel þetta afturför og einnig skal þess getið að óvarlegt er að setja inn í lög ákvæði eins og er að finna í sömu grein um að skólameistari sé skipaður til fimm ára í senn án þess að samið hafi verið um starfslok. Ég tel að nýtt frv. til laga um framhaldsskóla hefði þurft að semja í góðri sátt og samvinnu við viðkomandi kennarasamtök. Það var ekki gert og ekki mikið tillit tekið til umsagnar þeirra eða breytingartillagna.

Það á einnig við um annað frv. sem liggur fyrir í þinginu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég er mjög andvíg því að atriði sem yfirvöld treysta sér ekki til að ná í samningum við stéttarfélögin séu keyrð fram á Alþingi með svokölluðum lögþvingunum. Mér virðist að með þessu frv., verði það að lögum, sé miðstýring aukin og dregið úr vægi kennarastarfsins og kennurum gert erfiðara fyrir að sinna starfi sínu. Ég sé í þessu frv. fátt sem ég tel að muni geta komið nemendum til góða og bætt stöðu þeirra. Ég mun því ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt en hyggst styðja þær breytingartillögur sem ég tel til bóta.