Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 13:28:37 (5594)

1996-05-03 13:28:37# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[13:28]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykn. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að leiðrétta mig því að hluti af því sem ég sagði áðan olli greinilega misskilningi þar sem ég var að tala um hlutverk framhaldsskólanna. Ég var sérstaklega að ræða um hlutverk skólanna í starfsmenntun. Starfsmenntun er fyrst og fremst til þess að þjóna atvinnulífinu.

Eins og hv. þm. veit af ágætu samstarfi okkar í gegnum árin veit hann um skoðanir mínir og fleiri skólamanna á hinu almenna hlutverki skóla varðandi menntun um að skapa einstaklingnum hamingjuríkt líf, auka almenna þekkingu o.s.frv. enda er það í 2. gr. eitt af meginmarkmiðum frv. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Ég þakka hv. þm. fyrir að minna mig á að ég talaði ekki nógu skýrt nú sem fyrr.

Varðandi þau orð að ekki hæfist kennsla næsta haust nema frá því verði gengið að kennarar fái borgað fyrir þessa aukadaga hygg ég að það liggi í hlutarins eðli að ef koma á meiri kennsluskylda eða fleiri dagar á kennara en gildandi kjarasamningar segja til um liggur í hlutarins eðli að um það hlýtur að verða samið.