Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 13:32:49 (5597)

1996-05-03 13:32:49# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[13:32]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið styð ég álit 1. minnihluta menntmn. og ætla að reyna að gera grein fyrir bæði af hverju og einnig að fara ögn víðar yfir þetta mál sem hér liggur fyrir heldur en lesa má af því nefndaráliti sem liggur fyrir.

Það frv. sem við erum að fjalla um er að mínu mati fyrst og fremst rammi fyrir það skólastarf sem fram fer frá því að grunnskóla lýkur eftir tíu ár og þar til framhaldsskólanám tekur við. Grunnskólinn er tíu ár, hvorki meira né minna. Eftir tíu ára nám útskrifast nemendur þaðan hvernig svo sem kann að standa á fyrir þeim að öðru leyti en að þau eru öll jafngömul. Þessi lög verða því að mæta afskaplega breiðum hópi fólks, ekki bara þessara nemenda sem eru að koma út úr grunnskólanum mörg hver með afar ólíkan bakgrunn, ólíka þekkingu, ólíka getu og ólíka reynslu. Þau verða einnig að taka á endurmenntun, fullorðinsfræðslu og öðru því námi sem fram fer áður en menn geta skrifað sig inn í háskóla. Við erum þess vegna að tala um löggjöf sem tekur yfir býsna stórt svið í okkar þjóðlífi.

Eins og fram kemur í því nefndaráliti sem ég skrifa upp á finnst mér þetta frv. að mörgu leyti mæta nútímakröfum ágætlega. Menn hafa í umræðunni kallað eftir því að við breyttum til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum og í tveim veigamiklum atriðum finnst mér að það sé reynt með þessu frv. Í fyrsta lagi er litið til þeirra landa sem hvað mestum árangri hafa náð varðandi starfsnám. Það er gert til að mæta þeirri megingagnrýni sem verið hefur á íslenskt skólakerfi, þ.e. að hér hafi allt snúist um bóknám en starfsnám hafi verið í öskustónni. Það er svo sem alveg rétt. Við höfum ekki gert starfsnáminu hátt undir höfði og ég fellst ekki á þau rök að það sé vegna þess að okkur hafi skort löggjöf til að gera það betur en við höfum gert. Ég trúi að það sé vegna þess að við höfum ekki sett í það næga peninga. Við hefðum getað náð betri árangri með meira fjármagni. Hins vegar er frv. að benda á leiðir í samstarfi við atvinnulífið í landinu sem geta verið mun vænlegri en þær leiðir sem við höfum farið hingað til. Ég tel einboðið að sú jákvæðni sem ríkir gagnvart þessari aðferð og sú reynsla sem aðrar þjóðir hafa sé nýtt á Íslandi. Ég er alveg handviss um að út úr því kemur betri skóli fyrir fjölbreyttari hóp nemenda en nú er.

Ég hef ekki þær áhyggjur sem ýmsir hér hafa af áhrifum atvinnulífsins eða af því að þetta fyrirkomulag, svo losaralegt sem það virðist vera í frv. af því að ekki eru taldar upp greinarnar eins og gagnrýnt er ásamt meintri gífurlegri yfirbyggingu, muni ekki virka. Ég deili þeim áhyggjum ekki. Það kann að vera vegna þess að ég hef ákveðna reynslu úr mínum heimabæ af starfsnámi sem hefur verið praktíserað nákvæmlega eins og mér sýnist að hér eigi að gera. Þar hefur á undanförnum árum verið starfræktur skóli sem hefur verið með nemendur annars vegar í skipstjórnarnámi og hins vegar í fiskvinnslunámi. Vegna þess að fiskvinnslunám er dýrt eins og það fer fram í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði var leitað nýrra leiða. Þær leiðir voru að bóknám færi fram inni í skólanum en verknám færi fram á vinnustöðum. Það voru gerðir samningar við vinnustaði, bæði á svæðinu og annars staðar, eftir því hvaða greinar fiskvinnslu var verið að kenna hverju sinni. Kennari hefur fylgt nemendum eftir inn á þann meginvinnustað þar sem þeir hafa fengið sína kennslu. Námið býður upp á það að nemendur eru ávallt í nálægð við það sem er að gerast nýjast og best í greininni. Námið býður upp á alvöru kynni af atvinnulífinu. Það býður upp á það að þessir nemendur vita við hvað er að fást í veruleikanum og þetta nám veitir nemendum dýrmæt kynni og starfsreynslu sem nýtist þeim þegar þeir ljúka sínu skólanámi.

Til þess að treysta enn frekar tengslin við atvinnulífið en áður hefur við þennan skóla verið komið upp ráðgjafarnefndum eins og í samræmi við 30. gr. þessa frv. Þar hafa fagaðilar af okkar heimasvæði, sem er allt Norðurland, myndað ráðgjafarnefnd í sambandi við fiskvinnslunámið og skipstjórnarmenn af svæðinu höfðu sjálfir frumkvæði af myndun stuðningsnefndar eða ráðgjafarnefndar varðandi stýrimannanámið. Ég hef ekki orðið vör við að þeir kennarar sem starfa innan skólans og sinna hinni bóklegu hlið námsins hafi áhyggjur af því að þeirra faglega þekking sé ekki virt. Ég endurtek, herra forseti, að það er e.t.v. vegna þessarar reynslu sem ég deili ekki þeim áhyggjum sem mér finnst ítrekað koma fram af því hversu áhrifamikið atvinnulífið á að verða í þeim þáttum þessa frv. þar sem við erum e.t.v. fyrst og fremst að reyna að mæta skorti á frekara starfsnámi.

Ég sagði áðan að það væri þeim nemendum sem tækju hluta af sínu námi á vinnustað eða vinnustöðum dýrmæt reynsla og þar yrðu líka til ákveðin kynni sem gætu nýst í framhaldinu. Það er líka ljóst að atvinnulífið vill fólk með reynslu og ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna til Gerðar G. Óskarsdóttur þar sem hún er að fjalla um danska kerfið, en þar segir Gerður, sem er kennslustjóri í kennslufræði í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

,,Í danska kerfinu er bóknám í skóla en síðan gera skólarnir samninga við atvinnulífið. Ég vil sjá eitthvert slíkt kerfi m.a. fyrir þennan þriðjung sem yfirgefur skóla án þess að ljúka nokkru námi og aðra sem áhuga hefðu á. Ég komst að því í viðtölum mínum við aðila sem ráða ófaglært fólk í nokkrum fyrirtækjum að það er reynslan sem skiptir mestu máli við ráðningar. Menn vilja ekki taka við reynslulausum starfsmönnum og þurfa að eyða tíma og fyrirhöfn í að þjálfa þá upp. Ég sé fyrir mér að gerður sé samningur milli fyrirtækis og skóla um plássið og síðan milli skóla, fyrirtækis og nemanda um námið. En hver aðili á vinnustaðnum hefur síðan eftirlit með þessu plássi. Það eru í bígerð tilraunir með svona kerfi í Borgarholtsskóla.``

Mér finnst það sem Gerður segir hér styðja það sem ég var að fara yfir áðan og þá í leiðinni þá þætti í þessu frv. sem snúa að starfsnámi. Ég gat þess líka áðan, herra forseti, að það kerfi sem við erum að búa til ramma um með þeirri löggjöf sem verður ef þetta frv. verður samþykkt þarf að mæta býsna stórum fjölda ólíkra aðila. Mér var ekki alveg ljóst áðan þegar hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir talaði um ómannúðlega menntastefnu við hvað hún átti. Í þessu frv. finnst mér að gert sé ráð fyrir því að framhaldsskólinn mæti nemandanum þar sem hann er staddur. Ég veit að í núgildandi kerfi er það reynt. Eigi að síður hefur það kerfi sem við búum við núna verið látið um að sía og brottfall nemenda vegna þess að ekki hefur verið hægt að mæta þörfum eða óskum þeirra sem inn í framhaldsskólana hafa streymt hefur verið mjög mikið. Það hefur satt að segja verið óviðunandi og er í rauninni hin stóra gagnrýni á okkar framhaldsskólakerfi.

Hv. þm. Bryndís Guðmundsdóttir var með fyrirspurn í vetur til hæstv. menntmrh. um brottfall nemenda úr skyldunámi fyrstu árin í framhaldsskóla. Í svari við þessari fyrirspurn kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Nemendur ráða ekki við námið, undirbúningur er ónógur og þeir færast of mikið í fang. Margir vinna með náminu og flosna smám saman upp. Niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á brottfallshópi 1969-árgangsins sýna að námið höfðar ekki til þess nemendahóps en 60% karla nefndu áhugaleysi og leiða.`` Áfram kemur í þessu svari, herra forseti: ,,Brottfallsnemendur hafa rúmlega einum lægri meðaleinkunn á grunnskólaprófi en meðaltal árgangsins.``

[13:45]

Þetta finnst mér segja okkur ákveðna sögu um það hvernig framhaldsskólinn hefur mætt þessum mismunandi hópi nemenda sem inn í skólana sækir á hverju hausti. Eins og ég hef áður rætt hafa bóknámsbrautirnar haft mikla yfirhönd. Það er ekki af snobbi, það er ekki af eftirsókn eftir stúdentshúfunni, það er vegna þess að skólinn hefur ekki boðið upp á alla þá kosti sem við hefðum þurft að bjóða upp á fyrir löngu síðan. Menn hafa hins vegar flæmst inn á bóknámsbrautirnar vegna þess að sums staðar er ekkert annað í boði og það er ekkert annað í boði af því að þær hafa verið ódýrastar. Ég trúi því að með þessu frv. séu skapaðir möguleikar og í því eru beinlínis ákvæði um að það beri að mæta nemendum með fjölbreyttari tilboðum en nú er. Það ætti að auka líkur á því að skólinn mæti nemendum þar sem þeir eru staddir og að það brottfall sem hefur verið í rauninni skömm okkar framhaldsskólakerfis muni á næstu árum minnka.

Eitt af því sem gjarnan kemur til umræðu þegar menn ræða framhaldsskólann íslenska er það af hverju hann er fjögur ár þegar skólarnir í nágrannalöndunum og í þeim löndum þar sem nemendur úr íslenska framhaldsskólakerfinu sækja háskólanám eru einungis þriggja ára skólar. Ég hygg að við þykjumst öll geta sagt okkur af hverju okkar kerfi er búið að standa óbreytt með þessum hætti svo lengi sem raun ber vitni. Síðast þegar reynt var að breyta þessu ákvæði, þ.e. þegar forveri þessa frv. var kynntur með því ákvæði að framhaldsskólinn ætti að vera þrjú ár, fengum við anga af þeim viðbrögðum sem í gegnum tíðina hafa ugglaust verið meginástæða þess að þessu hefur ekki verið breytt. Það er að segja að nemendur á Íslandi vinna mjög gjarnan sjálfir fyrir stórum hluta námskostnaðar síns. Þótt það sé ekki nákvæmlega málefni þess fundar hér á hæstv. Alþingi sem við erum stödd á núna í dag finnst mér það vera íhugunaratriði hvaða hlutverk skólanemar og framhaldsskólanemar sérstaklega eru farnir að leika í íslensku atvinnulífi. Í Evrópu er það þannig að menn eru með tiltölulega góða kjarasamninga og tiltölulega há meðallaun fyrir þann hóp fólks sem er skráður í verkalýðsfélögin, fyrir þann hóp fólks sem getur notið þeirra réttinda sem samið er um. Innflytjendur, sumir ólöglegir, sinna síðan þeim þjónustustörfum sem menn ekki vilja sinna vegna þess að kaupið er lágt og aðstaða öll lakari en menn kjósa. Mér sýnist að hér á Íslandi séu framhaldsskólanemar þeir sem hlaupa þarna undir bagga, þ.e. þeir taka að sér þessi störf sem eru óörugg, illa launuð, stundum svört. Og mér finnst það mætti verða okkur íhugunarefni þegar við erum að tala hér um atvinnustefnu og launastefnu hvernig við höfum komið þessum málum fyrir. Við mættum kannski minnast þess stundum þegar við erum að hneykslast á því hvernig aðrar þjóðir hafa komið sínum málum fyrir að það er eins og við komum ekki auga á þennan hóp framhaldsskólanema. Það er eins og við sjáum ekki þennan stóra hóp fólks sem er alls staðar, í sjoppunum, í bíóunum, í þjónustugreinunum. Alls staðar þar sem illa launuð, stopul og svört vinna er á ferðinni hittum við fyrir framhaldsskólanemana. Þetta er íhugunarefni ekki bara vegna þess hvernig vinnumarkaðurinn, laun og réttindi hafa þróast heldur líka vegna þess að auðvitað hefur þetta, eins og kom fram í því svari sem ég las hér áðan, áhrif á gengi nemendanna í skólunum. Það viðheldur að hluta til þörfinni fyrir fjögurra ára námið en styður það í leiðinni.

Þetta er e.t.v. hluti af ákveðnum vítahring sem við erum í með okkar framhaldsskólakerfi. Það er þess vegna, herra forseti, mikilvægt að það er opnað á það með þessu frv. að við förum að þróa þriggja ára framhaldsskóla. Mér er ljóst að áfangaskólarnir hafa getað boðið upp á slíkt nám. Þar hafa nemendur getað ráðið ferðinni nokkuð sjálfir og þeir sem hafa haft til þess einurð eða dugnað eða áhuga hafa getað farið í gegnum framhaldsskólann á þremur árum. Bekkjarskólarnir hafa hins vegar ekki boðið upp á þetta fyrirkomulag og reyndar getum við sett spurningarmerki við það hversu marktæk tilraun með þriggja ára skóla er á meðan grunnskólinn er ekki hreyfður að neinu marki til móts við þær breytingar. Eigi að síður met ég það svo að það sé betra en ekki að þessi tilraun sé gerð. Hins vegar þyrfti auðvitað að horfa á þetta í ákveðnu samræmi, grunnskólann andspænis framhaldsskólanum, ef við almennt styttum framhaldsskólanámið vegna þess að þá þyrfti að hluta til að breyta breyta námi í efstu bekkjum grunnskólans. Það er augljóst. Það væri þá eðlilegt að taka það upp um leið og við erum að lengja skóladaginn í grunnskólanum sem mun gerast á næstu árum og tækjum þá sjálfsagt tillit til þeirra helstu atriða sem hægt er að mæta á því skólastigi. Sömuleiðis þarf auðvitað að skoða mörkin þar sem framhaldsskólinn mætir háskólastiginu þannig að einnig þar geti menn tekið tillit til þessara breytinga. Ég veit að á því skólastigi er það engu síður nauðsynlegt en í grunnskólanum.

Herra forseti. Eigi að síður met ég það svo að það sé mikilvægt að við horfum á þessar breytingar. Ég met það ekki hvað síst vegna þess að ég held að ákveðin hugarfarsbreyting varðandi styttingu framhaldsskólans sé nauðsynleg. Þetta gæti verið liður í henni. Eftir nokkur ár sé ég hins vegar fyrir mér að við tökum upp öll þrjú skólastigin með tilliti til þess að við samræmum hér ákveðna skólastefnu sem mun þá væntanlega ganga í gegnum þau öll þar sem við höfum komist að samkomulagi um að þriggja ára framhaldsskóli sé jafneðlilegur hér og hann er í löndunum sem við berum okkur saman við.

Ég hef áhyggjur af ákveðnum atriðum í þessu frv., herra forseti, sem ég tel að hafi ekki verið skýrð nægjanlega eða þarf að skýra betur. Ég sé í hendi mér að við eigum eftir að þurfa að leysa úr ýmsum árekstrum sem munu óhjákvæmilega eiga sér stað ef ekki verður við brugðist fyrir fram.

Í þessu frv. er kynnt hugmynd kjarnaskólans, þ.e. að tilteknir skólar í landinu verði kjarnaskólar. Þeir verða handhafar tiltekinnar skólaþróunar og eins konar brimbrjótar í tilteknum efnum. Mér finnst út af fyrir sig rétt að fámenn þjóð reyni að skipa sínum málum með þeim hætti að við reynum að gera hlutina vel og þá þannig að það sé síðan hægt að miðla þeirri reynslu til annarra. Þótt kjarnaskóli verði helsta brjóstvörn tiltekinna námsgreina er ekki þar með sagt að þær verði ekki einnig kenndar annars staðar. En ég hef áhyggjur af því að þessar kjarnaskólahugmyndir geti stangast á við rétt til náms í heimaskóla sem ég veit að sveitarstjórnirnar í landinu telja sig vera að kaupa með þátttöku sinni í uppbyggingu framhaldsskólans. Sveitarfélögin í landinu borga 40% af kostnaði við byggingu framhaldsskóla. Það er gengið út frá því í þessu frv. að það séu fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem taka þátt í kostnaði sem skipa fulltrúa í skólanefndir. En það er ekkert í þessu frv. sem segir að nemendur frá þessum sveitarfélögum eigi einhvern forgang nákvæmlega í þá skóla. Ég er nokkuð viss um að ef nemanda frá sveitarfélagi sem hefur greitt sitt tillegg til tiltekins framhaldsskóla er vísað frá vegna þess að skólinn vill frekar taka inn nemanda af einhverju öðru landsvæði þá mun það þýða átök. Átök sem skapast af því að menn telja að þeir séu að greiða fyrir rétt þeirra nemenda sem eiga heima í viðkomandi sveitarfélagi til náms í viðkomandi skóla. Ég sé ekki alveg hvernig þetta verður leyst. Ég geri mér grein fyrir því að skólanefndir á hverju svæði geta tekist á við þetta með ákveðnum hætti með því að gera skýr þau skilyrði sem þau setja til inntöku í viðkomandi skóla. En ég held að menntamálayfirvöld verði líka að gera sér grein fyrir því að þær breytingar sem hér er verið að fara fram með kalla auðvitað á stóraukið námsaðstoðarkerfi.

Ýmsar greinar sem kenndar eru á framhaldsskólastigi eru lánshæfar í Lánasjóði íslenskra námsmanna og síðan hefur verið greiddur svokallaður dreifbýlisstyrkur vegna þeirra nemenda sem hafa þurft að sækja skóla fjarri sinni heimabyggð. Sá styrkur hefur ekki verið til mikilla stórræða en að mínu mati er nauðsynlegt ef frv. gengur fram eins og fyrirhugað er að sá stuðningur sem felst í dreifbýlisstyrk, og mætti þá allt eins kalla hann námsaðstoðarkerfi, yrði allmiklu víðtækari og meiri en hann er í dag. Ég held að það sé í rauninni eina leiðin til að mæta þeim breytingum sem hér er verið að boða. Ef við ætlum að þróa framhaldsskólanámið samkvæmt kjarnaskólareglunni og samkvæmt því að menn geti sótt um skóla óháð búsetu verðum við auðvitað að gera nemendum það kleift ekki bara með framhaldsskólalögum heldur líka fjárhagslega.

Mér er ekki kunnugt um hvort menn eru farnir að skoða þessa hlið málsins en ég held að það sé afar brýnt að við umfjöllun hér á Alþingi verði þessi hlið tekin til umfjöllunar og við fáum þá að heyra hvort menn eru farnir að skoða það með hvaða hætti því verður mætt að við erum að breyta framhaldsskólakerfinu með þessum hætti.

Það eru líka ákvæði hér inni sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gagnrýnt. Þau eru tvö. Annars vegar er gagnrýnt að þeim sveitarfélögum þar sem framhaldsskóli er byggður sé gert að leggja til lóðir án kvaða eða gjalda og hins vegar að sveitarfélögin taki þátt í byggingu heimavistar. Ég hef margsagt og ég vil endurtaka það hér að mér finnst þetta ákvæði með lóðirnar beinlínis hlægilegt. Þetta er gamaldags ákvæði og það er úrelt. Þetta gengur ekki lengur. Menn gera ekki hlutina svona lengur. Auk þess er það nú svo að þar sem sveitarfélög taka sig saman um byggingu framhaldsskóla þá koma þau sér venjulega saman um reglurnar, jafnvel um misjafna kostnaðarhlutdeild eftir því hvar skólinn er staðsettur. Mér finnst þá eðlilegt að það sé í höndum þeirra hvernig þeim kostnaði er skipt en það sé ekki með lögum ákveðið að eitt tiltekið sveitarfélag eftirláti lóðina án kvaða og gjalda. Ég held að ef þetta ákvæði kemur hér inn hljóti það að vera nánast einstætt í þeirri löggjöf sem verið er að setja á árinu 1996 og er þó margt skrautlegt í henni. Það er í rauninni fráleitt að einn aðili setji ákvæði um að annar aðili gefi eftir tiltekin gjöld. Ég mælist því til þess enn og aftur að þetta atriði verði endurskoðað á milli 2. og 3. umr.

Ég hef hins vegar ákveðna samúð með þessu ákvæði um heimavistirnar. Svo mjög sem mér finnst koma til álita að sveitarfélögin taki engan þátt í kostnaði við uppbyggingu skólanna, finnst mér jafnframt eðlilegt að þau taki þátt í uppbyggingu heimavistanna. Mér finnst eðlilegt að grunnskólinn sé mál sveitarfélaganna en helst vildi ég sjá framhaldsskólann sem mál ríkisins. Þá væru líka þeir árekstrar sem mér sýnast fyrirsjáanlegir á milli ríkis og sveitarfélaga vegna nemenda, eins og ég gat um áðan, síður uppi á borði.

Ég vildi gjarnan sjá þetta þróast þannig að sveitarfélögin færu út úr þessum uppbyggingarhluta sínum í skólunum. Heimavistirnar finnast mér hins vegar vera allt annað mál. Mér finnst jafnvel að við gætum flokkað heimavistirnar og þátttöku sveitarfélaganna í þeim sem hluta af eðlilegri þjónustu sveitarfélaganna við þá íbúa sína sem þurfa vegna aðstæðna að leita annað. Sveitarfélagið tekur þá með þeim hætti þátt í að styðja við bakið á þeim varðandi íbúðir og kjör. Ég er mun opnari fyrir því ákvæði en ég endurtek að á móti finnst mér eðlilegt að það sé jafnframt endurskoðað hvernig sveitarfélögin koma inn í uppbyggingu skólans sjálfs.

[14:00]

Eins og ég sagði áðan lít ég á þessi lög eins og það sem þau eru, sem ákveðinn ramma um skólastarf og auðvitað er það svo þegar við erum að fjalla um þessa löggjöf eins og svo margt annað sem fyrst og fremst er á mannlegu valdi hvernig muni fara að sá veldur sem á heldur. Mér finnst ekki hafa verið nægilega skýrt hvernig fagleg áhrif kennara eiga að njóta sín innan skólanna. Sú gagnrýni, sem framhaldsskólakennarar hafa haft uppi varðandi samþykki skólanámskrár og hvernig að henni er staðið, finnst mér að mörgu leyti réttmæt. Mér finnst ástæða til þess að hlusta betur eftir þeirri gagnrýni en gert hefur verið.

Ég er einnig sammála þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á samræmd próf innan framhaldsskólans og ég vænti þess að þar sé einungis verið að tala um könnunarpróf til þess að skólarnir sjálfir geti áttað sig á stöðu sinni í samanburði við aðra. Mér finnst reynslan af samræmdum prófum grunnskólanna ekki vera þannig að ástæða sé til þess að spegla hana yfir í framhaldsskólann. Það væri hins vegar mjög æskilegt að í grunnskólanum væru samræmd könnunarpróf. Þeim er að fjölga en þau hefðu þurft að koma á undan öðrum samræmdum prófum og hefði þá hinna síðari aldrei verið þörf vegna þess að það er dálítið hlálegt fyrir grunnskólakennara sem eru að útskrifa nemendur sína úr 10. bekk að fá þá loksins samanburð á því sem hann og nemendur hans hafa verið að gera þegar nemendur eru útskrifaðir úr skólanum. Ólíkt hefði verið betra að fá slíkan samanburð þegar nemendur voru í 8. bekk eða jafnvel 9. bekk og geta þá gripið inn í þar sem augljóslega eitthvað væri ekki eins gott eins og það ætti að vera. Ég bind vonir við að framhaldsskólinn verði ekki látinn gjalda þeirrar dellu sem mér finnst hafa viðgengist í grunnskólanum að menn séu með samræmd lokapróf sem enga lærdóma er síðan hægt að draga af.

Skólapólitísk atriði ýmiss konar finnst mér ekki ástæða til þess að semja fyrst um í kjarasamningum. Mér finnst eðlilegt að stjórnvöld axli ákveðna ábyrgð af skólastefnunni, að stjórnvöld hafi kjark til að koma fram með tiltekna skólastefnu en semji síðan við kennara í kjarasamningum ef svo ber undir. Þannig finnst mér í rauninni einu gilda hvort talað er um 145 eða 150 skóladaga í framhaldsskólanum. Í báðum atriðum er verið að setja fram tiltekna skólastefnu og síðan þarf augljóslega að gera kjarasamning við kennara. Svo er um fleiri atriði.

Mér hefur oft fundist að dálítið skorti á frumkvæði stjórnvalda þegar verið er að móta skólastefnu á Íslandi og þá í leiðinni að þau hafi ekki axlað þá ábyrgð sem á þeim hefur þó hvílt lögum samkvæmt. Þannig má segja að þegar grunnskólinn er annars vegar hafa þær framfarir sem þar hafa orðið meira og minna gerst í gegnum kjarasamninga enda hefur stjórnvöldum oft og einatt ekki fundist þau bera mikla ábyrgð á þeim breytingum eða fylgt þeim eftir af þeim áhuga sem ég hefði viljað sjá. Sömuleiðis eru mörg atriði innan framhaldsskólans sem hafa orðið til vegna áhuga kennara og vegna þrýstings kennara og hafa þannig orðið til í kjarasamningum.

Ég er ekki að andmæla því að skólastefna komi fram í kjarasamningum. Ég er fyrst og fremst að gagnrýna það að mér finnst oft og einatt að stjórnvöld hafi ekki staðið við bakið á þeirri skólastefnu sem hefur verið mótuð og að hluta til er það vegna þess að þau hafa veigrað sér við að móta hana og síðan ekki tekið á henni ábyrgð eftir að hún hefur verið staðfest.

Herra forseti. Þetta mál sem hér er til umfjöllunar er stórt og leiðir anga sína í það margar áttir í þjóðlífi okkar að ugglaust væri hægt að fjalla um það lengi dags án þess að umræðuefni þverri en ég tel mig vera búna að fara nokkurn veginn yfir það sem kemur fram í því nefndaráliti sem ég styð, búna að rökstyðja það og fylla út í þá mynd sem ég taldi nauðsynlegt að gera. Ég vil ljúka máli mínu með því að vísa í það sem kemur í lok þessa nefndarálits þar sem fram kemur að það versta sem er í þessu frv. og það sem ég harma að í rauninni skuli þurfa að vera á ferðinni vegna þess að ég tel að það skaði þá umræðu sem hefði ella getað farið fram um skólamál með uppbyggilegri hætti en e.t.v. er og verður, er það frv. sem hér liggur fyrir þinginu nú eftir að það er komið út úr nefnd um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Undanfarna daga hef ég oft nefnt það úr þessum ræðustól hversu furðuleg forgangsröðun það er hjá stjórnvöldum að kjósa að taka þessi tvö frumvörp, frv. um réttindi og skyldur og breytingu á vinnulöggjöfinni, svona langt fram yfir öll önnur mál sem hér eru til umfjöllunar, það langt fram yfir að þau hafa í rauninni notið þess forgangs að allt annað hefur orðið að víkja til hliðar. Mér finnst það miður að svo skuli vera og mér finnst það gagnrýni vert. Það er mjög slæmt þegar sú löggjöf sem við erum að fjalla hér um og annað sem skiptir verulegu máli fyrir svo marga er gert að eins konar hornreku vegna mála sem verið er að þjösna í gegn í fullkominni andstöðu við þá sem við eiga að búa.