Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 14:10:54 (5600)

1996-05-03 14:10:54# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[14:10]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru tvö atriði sem ég vildi gera að umtalsefni sem komu fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Það var annars vegar það sem hún nefndi um lóðir án kvaða eða gjalda sem sveitarfélög skulu samkvæmt frv. leggja til þegar um framhaldsskóla er að ræða. Það eru ekki mörg verkefni eftir þar sem ríki og sveitarfélög leggja fram stofnframlög saman. En heilsugæslustöðvarnar eru þó verkefni sem ríki og sveitarfélög fjármagna saman og þar er nákvæmlega sams konar ákvæði inni í lögum sem lýtur að byggingu heilsugæslustöðva.

Annað sem ég vildi nefna var varðandi kjarnaskólana og hagsmuni nemenda þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið þátt í stofnun framhaldsskóla. Auðvitað er ekki gert ráð fyrir því að allir skólar verði kjarnaskólar heldur er heimild fyrir því að gera framhaldsskóla eða deild að kjarnaskóla um lengri eða skemmri tíma. Í kjarnaskólanum fer fram þróunarstarf og kjarnaskólinn er þá hugsaður sem þróunar- og þjónustustofnun fyrir allt landið. Ég er ekki viss um að það reyni svo mikið á samspilið milli þessa t.d. gagnvart nemendum úti á landi þar sem sveitarfélag hefur átt aðild að stofnkostnaði.

Mér dettur í hug einn skóli í kjördæmi hv. þm., Laugaskóli, skóli sem væri kannski hægt að skilgreina sem heimaskóla, en nemedur þess skóla eru fyrst og fremst nemendur annars staðar að en kannski hafa heimanemendurnir ekkert sérstaklega sótt þangað frekar en annað en þeir hafa að sjálfsögðu átt þess kost.