Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 14:13:25 (5601)

1996-05-03 14:13:25# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[14:13]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér er kunnugt um að það eru ýmsar rósir til í eldri lögum varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga og ekki allar til fyrirmyndar og þessi fyrirmynd kannski ekki það sérstök að ástæða sé til að taka hana upp í þessu sambandi. Þess vegna mun ég halda áfram að gagnrýna þetta ákvæði. Það hefur ekki tilgang lengur.

Hins vegar varðandi kjarnaskólann geri ég mér það alveg ljóst að það verða ekki allir skólar kjarnaskólar og einungis hluti af starfsemi tiltekins skóla mun verða það sem við köllum kjarnaskóla. Ég hef hins vegar áhyggjur af þessu atriði og ég óttast ef það verður ekki tekið á því með einhverjum hætti kunni það að valda árekstrum vegna þess að það er auðvitað fyrst og fremst þetta ákvæði um skólavist óháð búsetu sem þarna gæti komið til. Ég þekki það beinlínis af eigin reynslu sem sveitarstjórnarmaður og einnig eftir að hafa setið í skólanefnd framhaldsskóla að þarna geta myndast árekstrar. Þeir gerðu það í kerfinu eins og það er núna og gera það eins og það er núna og þeir munu gera það enn þá frekar eftir að þetta frv. verður að lögum. Þess vegna segi ég þetta ekki hvað síst í varnaðarskyni vegna þess að ég tel að menn verði að búa sig undir það að á þessum málum þarf að taka.