Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 14:15:44 (5603)

1996-05-03 14:15:44# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[14:15]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Við erum að tala um stórt og mikið mál sem er frv. til laga um framhaldsskóla og beðið hefur verið lengi eftir. Ég dreg ekki í efa að það er sjálfsagt mjög margt gott í þessu frv. En við lestur þess verð ég þó að viðurkenna að þar er margt sem ég hefði kosið að hefði verið á annan veg.

Ég leyni því ekki að ég staðnæmdist nokkuð við lestur þessa frv. og yfirferð yfir það þegar mér barst í hendur bréf frá menntmrn., efni um verkaskiptingu milli skóla á framhaldsskólastigi. Ég er ekki sáttur við allt sem stendur í því bréfi og ég held að við, sem lesum þetta bréf, hljótum að álykta sem svo að þetta sé stefna þess sem skrifar þetta bréf, það sé stefna til framtíðar litið. Ef svo er vil ég biðja menn að fara hægt því að svo sannarlega veltur á miklu um framkvæmd þess máls.

Þetta er upp á verulega margar síður en þegar maður lítur til baka og veltir því fyrir sér hvernig umræðan hefur gengið um þessi mál og hversu sorglega skammt hefur miðað í þessum efnum þá kemur margt upp í hugann. Maður hrekkur þá kannski ekki eins við eins og annars hefði orðið þegar maður áttar sig á því og les og þykist þekkja pennaförin á bréfinu.

Virðulegi forseti. Í þessu bréfi stendur án þess að ég ætli að lesa það allt því að það mundi varla endast dagurinn: ,,Það sem fyrst og fremst var haft að leiðarljósi við tillögugerðina er það markmið að tryggja öllum nemendum sem besta menntun án tillits til þess hvar þeir eru búsettir og hvernig koma megi við sem mestri hagræðingu í starfi skólans.``

Þetta er góð og fögur hugsjón og er reyndar vikið að þessu einnig í 15. gr. frv. og hér hefur komið fram það sem stendur þar:

,,Allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.``

Það er þetta með jafnrétti til náms. Hvað er þetta jafnrétti til náms sem nefndin hefur verið að fjalla um? Mér finnst vanta sorglega í þessu frv. skilgreiningu á því hvað er jafnrétti til náms. Eins og ég skil orðið ,,jafnrétti til náms``, þá er það ekki í þessu frv. Við erum ekki að tala um jafnrétti til náms. Það er ekki verið að tala um fullkomið jafnrétti til náms og sums staðar finnst mér við sveigja þar verulega af leið. Þá er ég kominn að því sem lýtur að verkmenntunarþættinum sem mér finnst því miður menn fara nokkuð frá þessari fögru hugsjón sem er og menn kalla jafnrétti til náms.

Það er einnig fróðlegt að glugga aðeins meira í þetta bréf. (ÖS: Er þetta málþóf?) Ja, það gæti orðið það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en við sjáum nú til, ekki var það meiningin. Í þessu bréfi segir einnig:

,,Af ýmsum er því haldið fram að nemendur sem koma frá litlum skólum hafi ekki hlotið jafngóðan undirbúning til áframhaldandi náms og þeir nemendur sem stunda nám við stærri og öflugri skóla.``

Hvar er rökstuðningurinn fyrir þessu? Ég reikna með því að einhver komi í andsvari á eftir og mér þætti vænt um það ef hann segði mér það og benti mér á það hver rökstuðningurinn er fyrir þessu. Ég veit ekki til þess að þetta hafi við rök að styðjast. Ég held einmitt þveröfugt að margir af hinum smærri skólum úti á landsbyggðinni hafi fyllilega alla burði til þess og hafi sýnt það í úttektum sem gerðar hafa verið að þeir standi stærri skólunum í Reykjavík alveg fullkomlega á sporði hvað þetta viðvíkur. Því er þetta sett á blað? Hvað býr að baki því að setja svona orð á blað?

Aðeins neðar í sama bréfi stendur: ,,Á undanförnum árum hefur verið tiltölulega mikið byggt af húsnæði fyrir framhaldsskóla, einkum utan höfuðborgarsvæðisins.`` Já, ég skal ekki segja um það. Mér er ljóst að það hefur verið á undanförnum mörgum árum. Sumir hafa viljað kenna það við títtnefndan framsóknaráratug, þá hafi mikið verið byggt af skólum og það er rétt. Á þeim árum voru byggðir fjölbrautaskólar og menntaskólar í öllum kjördæmum landsins. Það var gert. (ÖS: Ekki nærri nógu margir.) Hvað segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson? Ég bið hann að tala hærra bæði svo að ég og þjóðin heyri til hans. Það hlýtur að vera meiningin með frammíkallinu. (JónK: Þjóðin heyrir alveg nóg til hans.) Hún er búin að fá nóg af honum já, það er rétt hv. þm. Jón Kristjánsson. Hún er að verða búin að því.

En hvað er verið að segja í sambandi við byggingu skólahúsnæðis? Er ekki verið að segja það hér ef við notum venjulegt mannamál, eru menn að tala um að búið sé að offjárfesta í skólum úti á landi? Er það það sem verið er að segja? Þá spyr ég aftur: Nú er verið að byggja og á að fara að byggja skóla í þessum landshluta sem er allt í lagi ef þörf er fyrir það. En hvað á þá að gera við þá skóla sem menn eru að segja að það sé búið að byggja of mikið af? Á að leggja þá af? Er ekki fullkomin skynsemi í því að reyna að nota þá fjárfestingu sem þegar liggur fyrir í þessum mannvirkjum úti á landi? Eða er meiningin að fara að byggja upp í stórum stíl í Reykjavík fyrir nemendur utan af landi sem þegar er búið að byggja yfir skóla og sums staðar er verið að byggja enn? Þetta kallar líka á skýringar vegna þess að hér er ég ekki að tala um frv. sjálft. Hér er ég fyrst og fremst að tala um bréf sem er skrifað á bréfsefni menntmrn. og það hlýtur að vera viss vísbending um stefnu til framtíðar litið. Við þurfum að fá að vita það áður en við greiðum atkvæði um framhaldsskólafrv. hvort svo er.

Ég ætla að láta það vera að vitna meira í títtnefnt bréf en það er strikað yfir það á gulu hjá mér með áherslupenna á tveimur eða þremur stöðum á hverri síðu. (Gripið fram í.) Hver skrifaði bréfið? Ég sagði það ekki og veit það ekki, hv. þm., hins vegar sagði ég það áður en hv. þm. gekk í salinn að ég hef lengi velt fyrir mér verkmenntunarmálum og kynnt mér þau nokkuð. Því þykist ég þekkja pennaförin á þessu bréfi. Meira hef ég ekki sagt um höfundinn. En ég vona að hv. þm. geti nokkurn veginn áttað sig á því hvað ég er að fara.

Að sjálfsögu er langstærsti hluti frv. mjög gott mál. Ég fagna því að það skuli vera tekið á verknámsþættinum þó að ég hafi haft aðrar áherslur þar um og talið að það mætti gera það á annan hátt. En það er ekki þar með sagt að ég hafi rétt fyrir mér í því. Ég veit að hinir ágætustu menn hafa fjallað um málið og ég ber fullt traust til þeirra. Ég hefði viljað leggja mjög ríka áherslu á að sá mikilsverði þáttur kæmi sterkar fram sem er námsráðgjöf. Ég hef tilfinningu fyrir að gríðarlega mikið skorti á í hinum ýmsu skólum að námsráðgjöf sé ekki nægjanlega öflug og mér finnst hinn stóri biðlisti og falllisti sem er við Háskóla Íslands gefa mér vísbendingu um það. Hann sýnir mér að nemendur eru ekki fyllilega búnir að átta sig á því þegar þeir ákveða að fara í háskólanám hvert skuli halda. Ég held að þessi þáttur liggi gríðarlega mikið eftir.

Ég nefni það enn og aftur að ég legg mikla áherslu á verknámsþáttinn og ég fagna því sem kemur fram í 44. gr. frv. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra getur heimilað framhaldsskóla að gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerðum er settar kunna að verða samkvæmt þeim.``

Mér finnst þetta gott mál og vil draga það fram. En þegar við fjöllum um þennan þátt námsins, sem er verknámsþátturinn, er einmitt hárrétt athugað hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, sem situr í menntmn., að það hlýtur að vekja athygli okkar að í tæknivæddum samfélögum á Vesturlöndum kemur það fram að 70% nemenda fara í starfsnám í þessum ríkjum en 30% í bóknám. Hér hjá okkur Íslendingum er þessu því miður algerlega öfugt farið. Hér fara 30% nemenda í starfsnám en 70% nemenda fara í bóknám. Þetta er uhugsunarefni og mér finnst það segja mér æðimikla sögu um það hversu hægt okkur hefur raunverulega miðað.

[14:30]

Ég vildi líka víkja að öðrum þætti frv. sem er kostnaðarskiptingin í sambandi við byggingu heimavistar sem er í 37. gr. frv. en þar er sú breyting gerð á að nú skuli viðkomandi sveitarfélög greiða 40% af kostnaði við byggingu heimavistar en ríkissjóður hins vegar 60%. Raunverulega mun enn stærri hlutur falla á viðkomandi sveitarfélag vegna þess að þessi kostnaðarskipti eru, ef ég hef lesið rétt, bundin við norm og það sem er umfram norm mun falla til viðbótar á sveitarfélögin. Og það þekkjum við sem höfum staðið fyrir slíkum byggingum að oft er það nokkuð stór hluti sem það gerir. Ég er óánægður með þetta atriði. Ég verð að segja að ég er meira en óánægður, ég er ósáttur við þetta ákvæði, algjörlega ósáttur við þetta ákvæði og sætti mig engan veginn við þessa kostnaðarskiptingu. Ég trúi því og vil mælast til þess við hv. menntmn. að hún endurskoði þetta ákvæði á milli 2. og 3. umr. Þetta er óréttlátt og ég vil víkja aðeins að því sem segir í bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og spyrja um það hver viðbrögð nefndarinnar hafi orðið við bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga um þennan þátt málsins. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

,,Hér er um að ræða breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga getur ekki fallist á. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga mótmælir þeirri breytingu á ákvæði gildandi laga um framhaldsskóla er kveður á um að ríkið greiði byggingu heimavistarhúsnæðis við framhaldsskóla að fullu.`` Og síðan segir í bréfinu og það er nauðsynlegt fyrir fulltrúa og þingmann Alþfl. í Reykjavík, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að heyra hvað þar stendur: ,,Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga leggur til að ríkið greiði að fullu allan byggingarkostnað og stofnbúnað framhaldsskóla.``

Veltu hv. nefndarmenn þessu áliti ekki alvarlega fyrir sér? Ég vil líta á það sem segir hér í frv. og biðja um skýringu. Í 37. gr. á bls. 40 segir: ,,Gert er ráð fyrir að samið verði um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig sveitarfélögum verði bætt aukin þátttaka í kostnaði við byggingu heimavista.``

Hvað er verið að segja hér? Ég hef áhuga á að fá að vita það áður en ég greiði atkvæði hvað stendur á bak við þessi orð. Það hlýtur að hafa verið spurt um slíkt í nefndinni. Hér er mikið sagt og getur skipt sköpum um afstöðu manna með eða á móti þessu máli þar sem við erum að tala um kostnaðarskiptingu um byggingu heimavista. Þess vegna kalla ég eftir því. Ég er hins vegar algjörlega á annarri skoðun en hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sem talaði á undan mér. Hv. þm. var fremur sátt við það, ef ég skildi orð hennar rétt, að þessi kostnaðarskipti yrðu tekin upp, 40% og 60%, í byggingu heimavistarhúsnæðis en vildi síður að viðkomandi sveitarfélag legði fram lóðir undir slíkar fasteignir. (SvanJ: Nei.) Nú. (SvanJ: Selja lóðir undir viðkomandi fasteignir!) Þá hef ég bara alls ekki heyrt rétt (SvanJ: Já.) Hv. þm. sagði að það þyrfti að greiða lóðargjöld af þeim fasteignum sem væri að byggja. Hv. þm. sagði einmitt að það væri skárri kostur í hennar huga. Ég er henni nefnilega í þessu máli algjörlega ósammála. (Gripið fram í: Hvað er að þessu?) Sá staður sem verður fyrir því að fá skóla í sína heimabyggð, sem er byggður upp ekki bara til að þjóna því byggðarlagi einu saman heldur fyrir miklu stærra svæði, nýtur á margan hátt mjög góðs af því. Það er engin spurning. Þar eru kennararnir og af staðsetningu skólans hljótast margvísleg þægindi. Við þurfum ekki að ræða hvað það er t.d. miklu betra að geta haft börnin hjá sér. Mér finnst þess vegna að þegar sveitarfélag er svo heppið, ef ég má orða það svo, að fá til sín slíkar framkvæmdir, sé ekki ósanngjarnt að þar sé lóðin lögð til. Ég legg miklu meiri áherslu á kostnaðarskiptinguna hvað varðar heimavistarhúsnæðið. Menn verða að átta sig á því þegar um svona mál er fjallað að það er ekki hægt að bera þetta saman við skóla í Reykjavík. Leigumarkaðurinn á þessum stöðum vítt og breitt um landið er allur annar. Við höfum mörg dæmi um það að aðsókn að þessum skólum sem vikið er hér að er langt umfram það sem skólarnir geta sinnt vegna skorts á heimavistarhúsnæði. Mér finnst bréfið vera að segja að menn hafi verið að offjárfesta. Það er ekki hægt að alhæfa í þessu. Það er skynsamlegt að nýta þessar fasteignir og það er skynsamlegt að byggja upp heimavistir á þessum stöðum. Við vitum að það er mikil aðsókn að þessum skólum og það sárvantar þessa aðstöðu til heimavistar.

Þess vegna segi ég það og það skulu vera mín lokaorð, virðulegi forseti, að ég vænti þess að nefndin taki þetta atriði frv. upp í nefndinni á milli 2. og 3. umr. og athugi af fullri ábyrgð hvort ekki sé skynsamlegt að draga þetta ákvæði til baka og hafa þetta óbreytt.