Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 14:55:52 (5605)

1996-05-03 14:55:52# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[14:55]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu afar mikilvægt mál, mál sem snertir mjög stóran hóp í samfélagi okkar. Það er alveg ljóst að þegar skólamál eru á ferð eru það mál sem snerta mjög marga. Hugmyndir fólks um það hver það er sem á að sinna menntun í landinu, fyrir hvaða menntun er þörf og hvernig á að skipuleggja hana eru margvíslegar. Það hefur verið meginreglan í okkar samfélagi frá því að menn tóku fyrst að setja lög um skóla að menntun þegnanna hefur verið eitt af meginhlutverkum ríkisvaldsins. Það var einfaldlega litið þannig á það að hlutverk menntakerfisins væri það mikilvægt að enginn annar gæti sinnt þessu hlutverki. Kostnaðurinn væri það mikill að enginn annar gæti sinnt því. Jafnframt höfðu menn þær væntingar til menntakerfisins og þær skoðanir á hlutverki þess að það væri rétt að ríkisvaldið hlutaðist til um það hvert væri inntak og skipulag skólakerfisins.

Nú má segja að á þessu séu að verða nokkrar breytingar aðallega að því leytinu að við erum að upplifa þá stóru breytingu að það er verið að færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Það er auðvitað grundvallarbreyting og við eigum eftir að sjá hvernig hún reynist. Eftir því sem ég heyri fer tvennum sögum af því hvernig tekist hefur til á Norðurlöndunum þar sem þessi yfirfærsla hefur átt sér stað varðandi ýmist það sem snýr að hlutverki skólans, stöðu kennara eða það hvað nemendum er boðið upp á. Þetta er allt saman umdeilanlegt og skólakerfi er einfaldlega þannig stofnun sem þarf alltaf að vera í þróun og endurskoðun. Menn verða alltaf að átta sig á kröfum tímans, kröfum samfélagsins í heild, kröfum atvinnulífsins, þörfum einstaklinganna o.s.frv. Ég hygg að ef við horfum á íslenska skólasögu sé kannski megingallinn hér sá að menn hafa verið mjög lengi að átta sig á breytingum og nýjum þörfum. Ef ég leyfi mér aðeins að horfa aftur í tímann og einbeiti mér að framhaldsskólastiginu þá var það svo fram yfir síðustu aldamót að sú framhaldsmenntun sem veitt var í landinu miðaðist fyrst og fremst við þarfir kirkjunnar. Það var kirkjan sem í raun stjórnaði þeirri framhaldsmenntun sem hér var veitt fyrir utan það að ef ég miða við síðustu aldamót þá var þegar búið að stofna hér prestaskóla og læknaskóla einmitt vegna brýnnar þarfar.

[15:00]

Önnur menntun, starfsmenntun, varð til fyrir utan þetta framhaldsskólakerfi. Það raunverulega skólakerfi sem til var, skipulagt og greitt af þáv. ríkisvaldi, miðaðist við svo þrönga hagsmuni að aðrir skólar urðu til þar fyrir utan. Jafnframt að vinnustaðir fara að sinna þeirri menntun sem veitt var, þ.e. það sem við köllum starfsmenntun í dag, varð til utan skólakerfisins. En síðan kallaði það á stofnun sérskóla. Það hefur einkennt íslenskt skólakerfi um áratuga skeið að við höfum annars vegar verið með almenna menntaskóla og hins vegar með sérskóla. En á allra síðustu árum hefur sú stefna verið rekin að fækka sérskólum og að búa til framhaldsskóla með mjög breytt svið. Þeir eru að vísu ekki margir. Þeir hafa þróast yfir í að vera fjölbrautaskólar, menntaskólar og verkmenntaskólar. Fyrsta spurningin sem vaknar þegar við erum að skoða framhaldsskólastigið er sú hvort þetta sé rétt þróun. Erum við endilega á réttri braut með því að búa til svona stórar einingar sem bjóða upp á marga valmöguleika? Er það endilega það rétta? Er fráhvarfið frá sérskólunum endilega rétt? Ég treysti mér ekki til að svara þeirri spurningu. Ég velti henni bara upp vegna þess að ég sé það alveg fyrir mér að þetta kerfi hefur bæði kosti og galla. Það getur verið afar jákvætt að blanda saman nemendum með mismunandi getu og mismunandi þarfir, bjóða upp á valmöguleika en það hefur líka mjög mikla kosti að reka litla skóla sem einbeita sér að ákveðnum verkefnum. Þar tala ég út frá minni reynslu sem framhaldsskólakennari. Tiltölulega litlir skólar eru mjög góðar einingar til að stjórna og þar verður aðhaldið að nemendum miklu meira en annars staðar. En við hljótum að horfast í augu við það að megingallinn á framhaldsskólakerfi okkar hefur verið sá að það hefur boðið nemendum upp á allt of fáa kosti. Það er langt síðan skólamönnum varð þetta ljóst. Það varð sprenging í íslensku menntakerfi eins og er rakið í nál. 2. minni hluta. Í rauninni eru menn enn þann dag í dag að fást við afleiðingar þessarar menntasprengingar og hafa kannski ekki fundið réttu leiðirnar. Einhvern veginn er það svo að það er ákveðin togstreita milli vilja og stefnu skólamanna annars vegar og svo þess sem mórallinn í samfélaginu krefst vegna þess að einhvern veginn hefur það gerst á alllöngum tíma að sú hugmynd og skoðun hefur orðið ofan á að enginn væri maður með mönnum nema hann lyki stúdentsprófi. Hver sem orsökin er fyrir þessari hugmyndafræði hefur hún því miður orðið mörgum ungum piltinum og ungri stúlkunni fjötur um fót vegna þess að við höfum horft upp á það í framhaldsskólakerfinu að þangað hefur komið inn fjöldi nemenda sem hafa því miður ekki ráðið á nokkurn hátt við það nám sem þar hefur verið boðið upp á og hafa beðið þar mikinn ósigur.

Ég get rifjað upp af þessu tilefni þá hugsun mína og hugmynd sem ég ræddi töluvert í fyrra í sambandi við grunnskólann, og ég er ekkert sannfærð um og ekki sátt við þá niðurstöðu sem varð, sem er sú að senda alla nemendur út úr grunnskólanum inn í framhaldsskólann. Að vísu skal ég taka það fram að það er búið að búa til ákveðna þröskulda í grunnskólanum sem reyndar er ekki farið að reyna á enn þá. En ég á eftir að sjá að þeir þröskuldar verði með þeim hætti að nemendur verði á einhvern hátt stöðvaðir eða látnir staldra við þannig að þeim verði gert að standast ákveðnar kröfur og að þeir verði látnir ljúka ákveðnum áföngum og að uppfylla tilskildar kröfur áður en þeir fara inn í framhaldsskólann. Ég hef verið að velta fyrir mér í því sambandi hver munurinn sé á því að þurfa að vera heldur lengur í grunnskóla og að þurfa að sætta sig við það félagslega eða að fara upp í framhaldsskóla og bíða ósigurinn þar. Ég sé ekki muninn á þessu. Mér finnst í rauninni að það væri miklu affarasælla að gera meiri kröfur til grunnskólans en að vera að ýta vandanum upp í framhaldsskólann og búa þar til alls konar möguleika til að gera nemendum kleift að hefja framhaldsskólanám. Að mínu viti á grunnskólinn að skila nemendum þannig af sér að þeir séu reiðubúnir undir framhaldsskólanám. Það er framhaldsskólans að gera nemendur reiðubúna undir háskólanám. Þetta er umdeilanlegt. Þetta er vissulega umdeilanlegt en ég spyr: Á hvorum staðnum er ósigurinn meiri? Þeir sem hafa reynslu af að kenna í framhaldsskóla hafa eins og ég nefndi áðan orðið vitni að gífurlegum ósigri margra sem koma þar inn fyrir dyr og verða fyrir algjöru sjokki. Kannski sjokki lífsins við að standa allt í einu frammi fyrir því að þurfa að standast einhverjar kröfur en koma þannig undirbúnir að þeir ráða ekki neitt við neitt. Þetta er mjög ömurlegt og hverju sem um er að kenna er þetta íslensku skólakerfi til vansa að hafa staðið þannig að málum. Ég kem betur að þessu á eftir þegar ég kem að styttingu framhaldsskólans sem ég set mjög stórt spurningarmerki við.

Hæstv. forseti. Staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir er sú að framhaldsskólakerfi okkar bíður ekki enn þá upp á nægjanlega möguleika fyrir alla þessa nemendur. Sú spurning sem hlýtur að vakna er sú hvort þetta frv. og sú lagasetning sem hér er fram undan breyti einhverju um þetta. Ég hef miklar efasemdir um það. Þó hér sé verið að setja í lög greinar um kjarnaskóla og eflingu verkmenntunar þá er ekkert í núverandi lögum sem kemur í veg fyrir að slíkt sé þróað áfram. Það er það sem menn hafa verið að gera í skólakerfinu. Það sem ég óttast mest í sambandi við þetta frv. er að það frumkvæði og sú þróun í skólamálum sem hefur fyrst og fremst átt sér stað að frumkvæði skólastjórnenda og kennara stöðvist með þessu frv., þessari lagasetningu, vegna þess annars vegar að hér er verið að stýra öllu í átt til aukinnar miðstýringar og aukinnar einsleitni eins og það heitir á máli Evrópusambandsins og hins vegar það sem er mjög alvarlegt atriði að þetta frv. er flutt og því fleytt áfram í andstöðu við kennarasamtökin í landinu, þ.e. fyrst og fremst Hið íslenska kennarafélag sem er fólkið sem á að vinna eftir frv. Ég hlýt að leggja áherslu á þá skoðun mína að skólakerfi sem er greitt af skattborgurunum hlýtur að verða að skapast og starfa í sátt í sæmilegri sátt. Þar með er ekki sagt að skólakerfið geti ekki boðið upp á ýmiss konar möguleika og ég legg mikla áherslu á það sem mér finnst ekki vera í þessu frv. sem er að skólakerfið sé verulega sveigjanlegt. Að það sé boðið upp á margar tegundir skóla, að menn hafi virkilega svigrúm til að þróa skólastarfið að því tilskildu að sjálfsögðu að skólarnir uppfylli þær kröfur sem eru gerðar til þeirra, þ.e. að búa fólk undir líf og störf og áframhaldandi nám. Það eru auðvitað grundvallarskilyrði. Í rauninni held ég að sú þróun sem hefur átt sér stað í framhaldsskólanum á undanförnum áratugum sé mjög merkileg. Menn hafa verið að gera mjög merkilegar tilraunir og ég get ekki annað en lýst efasemdum um það að sú þróun haldi áfram ef frv. verður að veruleika.

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að víkja að einstökum efnisatriðum í frv. Þar er þá fyrst að nefna þetta atriði með áhrif kennaranna og þá spurningu hver eigi að móta skólastefnuna. Hvar á skólastefnan að verða til? Í mínum huga er það svo að mjög margir eiga að koma að mótun skólastefnu. Kennarar hafa að sjálfsögðu ekki einkaleyfi á því að móta skólastefnu og þeir eru ekki þeir einu sem hafa vit á skólamálum. Að mínum dómi hafa kennarasamtökin oft farið offari hvað það varðar að telja sig nánast umboðsmenn almættisins í þessum málum og hafa að mínum dómi oft gert lítið úr foreldrum og áhrifum foreldra og annarra sem koma að skólastarfi vegna þess að fólk getur haft mjög mismunandi skoðanir á því hver þörfin er fyrir menntun, hvað á að kenna o.s.frv., fólk á að sjálfsögðu að hafa tækifæri til að koma slíkum skoðunum á framfæri og til að hafa áhrif.

En þrátt fyrir allt munu fyrst og fremst kennarar móta innra starf skólanna. Ég er á þeirri skoðun að aðild kennara að skólanefndum hafi verið til góðs þó ég geti að mörgu leyti skilið þau sjónarmið skólameistara að þeim finnist þeir settir í óþægilega stöðu með það að hafa þá sem í daglegu starfi eru undirmenn þeirra allt í einu yfir sér í skólanefndum þá eru kennarar þó fulltrúar mikils meiri hluta starfsmanna í skólum. Þeir þekkja inn á hin daglegu vandamál, eðli kennslunnar, inntak hennar og vandamál nemenda. Ég held að það hljóti að geta skapað ýmiss konar vandræði ef dregið verður úr áhrifum kennara með þeim hætti sem gert er í þessu frv. Hér er verið að styrkja vald skólastjórnenda en jafnframt verið að draga úr valdi kennara. Mun það verða til að draga úr nýsköpun í skólastarfi að kennararnir hverfa út úr skólanefndunum? Nú er það ekki svo að þróun í skólastarfi fari fram í skólanefndum en allt hangir þetta saman.

[15:15]

Það sem kannski skiptir mestu máli þessa mánuðina og næstu árin er að við erum að horfa upp á margfalda atlögu að kennarastéttinni, ef við bara tökum kennarastéttina sem heyrir undir þetta mál. Hér er verið að draga úr valdi kennara hvað varðar áhrif á stefnumótun í skólastarfinu. Við förum hér næstu daga að ræða frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Að mínum dómi er það nú varla svo að kennarar séu búnir að jafna sig eftir þá árás sem þeir urðu fyrir 1990, fyrir sex árum, sem hafði alveg gífurleg áhrif á allt innra starf í skólunum. Ég spyr hvaða áhrif svona framkoma ríkisvaldsins hafi? Hvaða áhrif hefur þetta? Varðandi bráðabirgðalögin 1990 vil ég vitna til orða skólameistara á fundi í menntmn. á síðasta kjörtímabili. Þeir sögðu einfaldlega: ,,Þróun í skólastarfi hefur stöðvaðst.`` Hún einfaldlega stöðvaðist vegna aðgerðanna 1990. Þess vegna vil ég vara eindregið við því að menn fari fram með þessum hætti í andstöðu við vilja kennara. Ég spyr hvaða áhrif samþykkt þessa frv. og þær brtt. sem því fylgja, sem breyta engu um þetta megininntak, muni hafa á skólastarfið og sjálfsmynd kennara og opinberra starfsmanna sem verða fyrir þessum margföldu árásum. Hvað eru menn eiginlega að hugsa? Það er óskaplega óheppilegt að það skuli fara saman að menn eru hér að reyna að koma fram ýmsum breytingum á lögum um framhaldsskóla en vera jafnframt að svipta menn æviráðningum, biðlaunum og hóta skerðingu á fæðingarorlofi og guð veit hverju. Maður hlýtur að spyrja hvert þessi ósköp stefni. Hvaða afleiðingar mun það hafa í skólastarfinu? Nógu er illa búið að skólastarfi og launum kennara þó þetta bætist ekki ofan á. Við lifum á tímum mikilla breytinga þar sem öllum ber saman um að ekkert skipti meira máli en að mennta þjóðina, ekki bara unga fólkið heldur á að stuðla að símenntun og endurmenntun, bæta menntun þess fólks sem átti þess lítinn kost að mennta sig þegar það var í æsku. Það er nöturlegt að bera allar þessar kröfur og þær miklu skyldur sem lagðar eru á herðar kennarastéttinni og þær miklu kröfur sem til hennar eru gerðar saman við það sem ríkisvaldið er að gera gagnvart þessari stétt. Ég undirstrika það enn að ég tek kennarana út úr af því að við erum að fjalla hér um frv. til laga um framhaldsskóla. Hvað eru menn að hugsa? Reyndar skil ég svona pólitík, ég verð að viðurkenna það. Ég veit a.m.k. alveg hvað þeir eru að gera. En ég er ósammála því. (Gripið fram í: Ertu viss um að þeir séu allir sammála?) Nei, það er ég ekki viss um. Ég er ekki viss um að allir séu að hugsa það sama en það er auðvitað ákveðin pólitík sem í þessu felst. Og hún á eftir að valda hér miklum vandræðum.

Hæstv. forseti. Ég vil þá koma aðeins að því atriði sem kemur hér allnokkuð við sögu og gerð er brtt. um, þ.e. að opna möguleika á því að stytta framhaldsskólann. Við ræddum þetta í þingflokki Kvennalistans og í sjálfu sér get ég tekið undir að það væri kannski ágætt, ágætismarkmið að útskrifa stúdenta 18 eða 19 ára. En það kallar bara á algjöra uppstokkun á íslensku skólakerfi. Algjöra. Svo mikið veit ég að ef menn hugsuðu sér að stytta framhaldsskólann þá kallar það auðvitað á niðurskurð á námi. Þá þarf að skera niður námið. Það þýðir ekkert að segja: Bjóðum upp á sumarönn. Viss hópur nemenda gæti nýtt sér það en aðrir eru einfaldlega háðir tekjuöflun yfir sumarið. Það er fjöldi nemenda sem er háður því að afla sér tekna yfir sumarið og þurfa að kosta sig sjálfir í skóla. Því miður vill oft gleymast að það eru ekki allir sem eiga foreldra sem geta kostað þá til náms. Það er ekki bara vegna ýmiss konar neyslu sem framhaldsskólanemar eru að vinna. Þótt það gildi um marga er líka hópur nemenda sem einfaldlega er að vinna fyrir sér. Ég get alveg upplýst það hér að ég minnist þess enn hvað ég varð hissa þegar ég áttaði mig á þessu. Ég er bara svo mikil forréttindamanneskja að á mínu heimili var þess beinlínis krafist að við systkinin færum í framhaldsnám og foreldrar mínir lögðu sitt af mörkum. En það gildir bara ekki um alla. Ég minnist þess alveg sérstaklega að það var ung stúlka sem ég kenndi og var í mikilli vinnu með námi sem kom auðvitað niður á því og ég fór að inna hana eftir þessu. Þá sagði hún mér að foreldrar hennar væru á móti því að hún væri í framhaldsskóla. Og fyrst hún vildi fara í framhaldsskóla varð hún bara að sjá fyrir sér sjálf, sögðu þeir. Svona dæmi eru til þótt þau séu undantekning. En það eru margir sem þurfa að sjá fyrir sér. Ég vil sérstaklega minna á það sem var ítrekað í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum kvöldum þar sem verið var að segja frá bændafundi, það var reyndar aðalfundur kaupfélagsins á Sauðárkróki. Þar voru bændur að ítreka það sem hefur áður komið fram að eitt þeirra stærsta vandamál vegna lágra tekna er að þeir sjá ekki fram á að geta menntað börnin sín vegna þess að í mörgum tilvikum þarf að senda þau í heimavistarskóla. (Gripið fram í: Þetta er afleiðing af framsóknarstefnunni.) Já, það er nokkuð til í því, hv. þm. Þetta er afleiðing af langvarandi ofverndun á landbúnaðinum en þetta er líka afleiðing af þeirri láglaunastefnu sem hér hefur verið rekin um árabil. Þetta er líka afleiðing af þeim breytingum sem hér hafa orðið á fjölskyldum þar sem foreldrum sem eru einir að sjá fyrir börnum sínum hefur mjög fjölgað. Það er margt sem veldur þessu. Auðvitað á að kanna þann kost að bjóða þeim nemendum sem vilja hraðferð í gegnum nám. Og reyndar er það gert í vissum skólum. En ef við erum að tala um að samræma skólakerfi okkar því sem tíðkast t.d. í Bandaríkjunum eða þá Danmörku þá eru Danir einmitt að vinna að því að lengja sinn framhaldsskóla en ekki að stytta hann. Þetta er auðvitað með ýmsu móti sem skólamálum er háttað. En eftir því sem ég best veit þá tengist það því m. a. að í flestum Evrópulöndum byrja börn fimm ára í skóla og jafnvel yngri. Erum við að tala um að færa skólaaldurinn niður um eitt ár eða erum við að tala um að gera meiri kröfur til grunnskólans? Ef við erum í alvöru að tala um að útskrifa nemendur hér yngri en við gerum núna þá kostar það uppstokkun á skólakerfinu. Það kostar að við þurfum að endurskoða grunnskólann og átta okkur á því hvort við ætlum að færa námsefnið niður í grunnskólann eða hvernig við ætlum að gera þetta.

Ég get ekki látið hjá líða að minna á að allar svona breytingar tengjast mjög sterkt launakjörum kennarastéttarinnar og þeim samningum og skilgreiningum sem þar gilda um vinnutíma. Ég vil minna á að eftir því sem ég best veit hafði yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaganna í Svíþjóð og ýmsar breytingar sem þar voru gerðar á skólakerfinu í för með sér mun meira vinnuálag á kennara. Eftir á að hyggja voru kennarar ekki mjög hressir með þær breytingar sem þar voru gerðar. Ég veit reyndar ekki hvort þeir hafa náð til baka með samningum en það urðu þær breytingar að vinnutíminn lengdist. Og það er það sem ég hef lengi óttast í sambandi við þessar breytingar sem eru alltaf svo tengdar því að menn undirbúa ekki og hugsa ekki í gegn hvað þeir eru að gera. Þegar menn eru að tala um að lengja skólaárið þýðir það auðvitað aukið vinnuálag og ég óttast mjög að þessar breytingar leiði fyrst og fremst til aukins vinnuálags á kennara og þar er svo sannarlega ekki á bætandi. Nóg er nú samt. Vinnutími og kennsluskylda íslenskra kennara, hvort sem við lítum á framhaldsskóla eða grunnskóla, er miklu meiri en tíðkast hjá öðrum þjóðum. Þannig að það að auka vinnuálag á kennarastéttinni er að mínum dómi stórvarasamt mál sem þarf að skoða mjög vel. Ég get ekki ímyndað mér að kennsla yrði betri með þeim hætti. Ég vil því ítreka að ég er alls ekki að leggjast gegn því að við skoðum þessi mál en í mínum huga er ljóst að slíkar breytingar kalla einfaldlega á algjöra uppstokkun. Við verðum að passa okkur á að fara ekki að skipuleggja framhaldsskólann fyrst og fremst með tilliti til starfsmenntunar. Við verðum að hafa þetta hvort tveggja í huga. Við erum annars vegar að undirbúa fólk undir starfsmenntun og hins vegar að búa fólk undir háskólanám. Það getur ekki verið tilgangurinn með slíkum breytingum að fara að leggja það á háskólann að hann þurfi að undirbúa fólk undir að geta hafið háskólanám eins og framhaldsskólinn þarf að undirbúa marga nemendur undir það að geta hafið framhaldsskólanám. Við þurfum að passa okkur vel á öllu þessu.

Hæstv. forseti. Það er eitt atriði í viðbót sem mig langar til að koma inn á. Það snertir þær brtt. sem við höfum verið að gera hér á þessu frv. Hef ég þó ekki vikið mikið að miðstýringu og ýmsu slíku sem hér er að finna. Það er þetta með blessuð skólagjöldin. Hér er kveðið á um það að innritunargjald skuli aldrei vera hærra en 6 þús. kr. á skólaári. Samkvæmt því sem fram kemur í nál. meiri hluta menntmn. varðandi þessi skólagjöld þá erum við að tala hér um 6 þús. kr. plús það sem er innheimt til félagsstarfa nemenda. Fyrir nokkrum árum var samþykkt á hinu háa Alþingi gegn mjög harðri andstöðu okkar stjórnarandstæðinga að það væru yfir höfuð tekin upp gjöld í framhaldsskólanum. Þá var kveðið á um 3 þús. kr. gjald. Hér er það komið upp í 6 þús. kr. Ég spyr hvað þetta muni standa lengi. Ég benti einmitt á í umræðunni um innritunargjöld í háskólann, að með þeim er verið að opna á það að farið verði að innheimta gjöld fyrir alls konar þjónustu sem hingað til hefur verið hluti af skólastarfi. Það er gert í háskólanum og ég spurði hvort liði á löngu þar til sams konar gjald yrði tekið upp í framhaldsskólunum. Ef það eru einhver rök fyrir því að innheimta slík gjöld í háskólanum eru alveg eins rök fyrir því að innheimta þau í framhaldsskólunum. Þetta eru hvort tveggja skólar sem fólk velur af fúsum og frjálsum vilja. Hér er þetta komið. 6 þús. kr. hámarksgjald við innritun auk nemendagjaldanna. Þetta verða u.þ.b. 11 þús. kr. sem nemendur munu greiða við innritun í framhaldsskóla. Nú má svo sem segja að þetta eru engar gífurlegar upphæðir. Þetta er prinsippmál sem þarna er á ferð --- hvað eiga nemendur að greiða? Og rifjast þá enn upp fyrir mér að það leituðu nemendur eftir námi í þeim skóla þar sem ég kenndi sem ekki áttu fyrir þessum gjöldum. Þeim voru að sjálfsögðu gefin þau eftir og það var farið í sjóði skólanna til að borga þau, þá sjóði sem meiri hlutanum á síðasta kjörtímabili þóttu svo óskaplegir að þeir urðu að koma lögum yfir þá.

[15:30]

Í nál. meiri hlutans er vikið í nokkrum atriðum að því frv. sem væntanlega verður til umræðu í næstu viku um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar er vikið að mjög umdeildum ákvæðum eins og afnámi æviráðningar sem mun auðvitað ná til skólameistara o.s.frv. Eitt leiðir af öðru, það gefur auga leið. Allt er þetta gert án þess að leitað hafi verið samráðs við viðkomandi stéttir og það er eitt af því sem við getum spurt okkur. Hvað er eðlilegt að menn sitji lengi sem skólameistarar í einum framhaldsskóla? Það má færa rök fyrir því að það geti verið hollt að skipta þar um eins og annars staðar en það má líka setja mikið og stórt spurningarmerki við það að fólk skuli vera svipt atvinnuöryggi með þeim hætti sem kveðið er á um í þessu frv. um réttindi og skyldur. Ég er ekki viss um að þetta eigi að gilda alls staðar. Ég get séð mjög sterk rök fyrir því þar sem um er að ræða ríkisstofnanir eins og ráðuneyti og ýmsar slíkar stofnanir að það geti verið mjög gott að skipta um stjórnendur, menn sitja þá ekki of lengi. En ég er ekki eins sannfærð um það andspænis skólunum að það beri að vera jafnmiklar takmarkanir og lögin um réttindi og skyldur gera ráð fyrir þó auðvitað þurfi nýtt blóð inn í skólastarf.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það er ekki eining um þetta frv. Kennarar eru afar ósáttir við þetta mál enda er það allt saman unnið án þess að þeir hafi verið kallaðir til. Þeirra þekking og reynsla er að engu höfð. Það er hægt að setja mjög stór spurningarmerki við það hvort yfir höfuð hafi verið nokkur þörf á því að breyta lögunum og hvort sú efling á starfsnámi sem er einn megintilgangur þessa frv., sem auðvitað er með engu tryggð, krefjist nokkurrar lagabreytingar. Loks má einnig setja stórt spurningarmerki við þá áherslu sem lögð er á það að fulltrúar atvinnulífsins komi að mótun náms með jafnríkum hætti og hér er gert ráð fyrir. Þeir eiga auðvitað að hafa sín áhrif en það er spurning hvort þau séu ekki of mikil. Eftir því sem ég hef heyrt eru ýmsar efasemdir á lofti varðandi það atriði vegna þess að það er ekki nóg að þekkja til í atvinnulífinu, menn þurfa auðvitað líka að þekkja til í skólastarfi og menn þurfa að hafa framtíðarhugsjónir og gera sér grein fyrir þróun en einblína ekki bara á stundarhagsmuni sinnar atvinnugreinar. Það er því mjög margt í þessu máli sem að mínum dómi hefði kallað á miklu nánari skoðun. En aðalatriðið er auðvitað það að þegar verið er að fjalla um og taka ákvarðanir um jafnstórt og mikilvægt mál og skólastefnu þá þarf að ríkja um það sæmileg sátt. Skólakerfið þarf að bjóða upp á sveigjanleika og mér sýnist að sú meginstefna sem er að finna í þessu frv., sem felst í aukinni miðstýringu og minnkandi áhrifum kennara, sé ekki til þess fallin að auka þennan nauðsynlega sveigjanleika.