Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 15:37:06 (5606)

1996-05-03 15:37:06# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. 2. minni hluta GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[15:37]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að karpa við mína ágætu samflokkskonu, hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, en ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við hugmyndir hennar um hvað þurfi að gerast til þess að stytting framhaldsskólans geti komið til. Hennar orð minna mig dálítið á umræðuna sem kom upp þegar ákveðið var að láta grunnskólann hefjast við 6 ára aldur í staðinn fyrir 7 ára aldur. Þá kom upp mikil umræða um það hvort 6 ára börn væru í raun nógu þroskuð til þess að sitja á skólabekk. Það var farið í miklar umræður um forskólapróf og skólaþroskapróf í stað þess að snúa spurningunni við eins og öllum finnst mjög eðlilegt núna og segja: Við höfum bara skólann þannig að hann henti 6 ára börnum. Okkur finnst það öllum mjög eðlilegt í dag og það sama finnst mér um framhaldsskólann. Það er enginn endanlegur massi af námsefni sem nauðsynlegur er til stúdentsprófs. Það er fyrst og fremst færni á ákveðnum sviðum og svo ákveðin viðbótarþekking og ég er alveg sannfærð um að það er hægt að koma þessu fyrir með góðum vilja á styttri tíma en nú er, eða frá 6 ára aldri til 19 ára. En þá þyrfti auðvitað að auka kennslustundafjölda í grunnskólanum sem því miður á að fara að hægja á samkvæmt því frv. sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi um grunnskólann.