Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 15:38:52 (5607)

1996-05-03 15:38:52# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[15:38]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála þessu. Ef við horfum á heildina, þ.e. skólakerfið frá 6 ára og upp úr, þá eru möguleikarnir eflaust mjög miklir til þess að færa til. En það sem ég var fyrst og fremst að vara við er einmitt þetta sem alltaf er verið að gera. Við tókum grunnskólann fyrir í fyrra sérstaklega afmarkað, nú er framhaldsskólinn tekinn fyrir afmarkað án samhengis við grunnskólann. Og á næsta ári kemur væntanlega frv. um háskólann. Það sem við þurfum að gera er að horfa á þetta í heild, horfa á allt kerfið frá því að við byrjum og þar til háskólanámi lýkur og spyrja okkur hvert á að vera hlutverk hvers skólastigs. Hvar á að koma starfsmenntuninni fyrir? Á hún að vera á framhaldsskólastiginu? Á hún að vera að hluta til á háskólastiginu o.s.frv.? En það sem ég var að leggja megináherslu á var það að ég held að það sé ekki rétt að taka framhaldsskólann út af fyrir sig og þjappa honum saman.

Eins og ég nefndi er sífellt verið að gera meiri kröfur til menntunar og til þess að búa fólk undir líf og starf. Þess vegna megum við ekki horfa einangrað bara á þessi þrjú eða fjögur ár. Við verðum að horfa á heildina og skipuleggja þetta allt í samhengi. Ég tek undir það, ég held að það sé hægt bæði að auka kröfur til nemenda töluvert mikið og jafnframt að nýta miklu betur þann tíma sem til ráðstöfunar er, sérstaklega í grunnskólunum. Ég þekki það af eigin raun að nám í framhaldsskóla er mjög viðamikið ef menn sinna því. Enda falla þeir auðvitað út sem ekki sinna því.