Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 15:42:28 (5609)

1996-05-03 15:42:28# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[15:42]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitthvað hefur nú hv. þm. misskilið það sem ég sagði. Ég nefndi það einmitt í ræðu minni að kennarar væru ekki guð almáttugur í mótun skólastefnu og það ætti ekki að hlusta á hvert einasta orð sem þeir segja. Hins vegar eiga þeir að koma að mótun skólastefnu og að þeim ákvörðunum sem eru teknar innan skólakerfisins. Það sem ég er alltaf að reyna að vekja athygli á hér, eða býsna oft varðandi þau mál sem við erum að ræða, eru auðvitað þessi samskipti ríkisvaldsins við starfsmenn sína, í þessu tilviki kennara, sem því miður hafa þróast í afar óheppilegan farveg og beinast að því að það er stöðugt verið að þrengja að áhrifum og réttindum, svo maður tali nú ekki um launakjör. Allt skapar þetta óánægju sem því miður hefur áhrif á skólastarfið. En kjör kennara eru auðvitað aðeins hluti af hinu opinbera kerfi og auðvitað eiga þau ekki að móta skólastefnuna. En þau hafa vissulega mjög mikil áhrif á andann í skólunum og það starf sem þar er unnið. Þess vegna verður að horfa á þetta í samhengi en vissulega eiga margir að koma að mótun skólastefnu, það er alveg augljóst. Það sem ég sagði hér og vil gera að megininntaki máls míns er það að ég trúi því að ef menntakerfið á að þjóna hagsmunum þjóðarinnar þarf að ríkja um það sæmileg sátt. Það þarf að bjóða upp á sveigjanleika sem m.a. gefur ýmiss konar hugmyndir um færi hvort sem það eru einkaskólar, ríkisskólar, skólar sem fara eftir þessari eða hinni stefnunni. Við eigum að reyna að gefa færi á þessu öllu saman.