Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 15:45:40 (5611)

1996-05-03 15:45:40# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[15:45]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er spurning hvort kemur á undan eggið eða hænan. Eins og ég nefndi áðan hangir þetta auðvitað allt mjög sterkt saman. Eins og hv. þm. sagði eru kjör kennara hluti af menntastefnunni. Spurningin er: Náum við einhvern tíma einhverju flugi í okkar menntakerfi, náum við að koma af stað æskilegri þróun og stíga skref til framfara öðruvísi en að kjör kennara verði bætt? Það er rétt sem hv. þm. sagði. Kennarar eru mjög uppteknir af sínum kjörum og þeirri miklu óánægju sem ríkir innan þeirrar stéttar. Og því miður hefur það haft töluverð áhrif á allt skólastarf og kannski hefur það leitt bæði kennara sjálfa og menntastefnuna inn á vissar villigötur. Kannski hefðu menn náð meiri árangri í kjarabaráttunni með því að vera miklu faglegri og segja: Sjáið þetta glæsilega skólakerfi sem við höfum byggt upp hérna. Eigum við ekki að fá sanngjörn laun fyrir þetta? Í stað þess að vera alltaf með nöldur og óánægju. Þannig hefur þetta verið og það á sér ýmsar skýringar. Spurningin er á hverju á að byrja og ég held að þetta þurfi að fara samhliða. Það verður að bæta kjör kennara og það er hægt að gera með ýmsu móti. Það er m.a. hægt að gera með því að lækka kennsluskylduna. Eins og ég nefndi áðan er hún miklu meiri hér á landi en t.d. á öðrum Norðurlöndum. Á Norðurlöndunum er m.a. gerður greinarmunur á kennsluskyldu móðurmálskennara og annarra. Það er hægt að leggja ákveðið vægi á greinar, eitt er mikilvægara en annað o.s.frv. Það eru því ýmsar leiðir færar til að bæta kjörin. En þetta þarf hvort tveggja að gerast. Það þarf að bæta kjörin jafnframt því að þróa og bæta menntastefnuna.