Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:07:37 (5614)

1996-05-03 16:07:37# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:07]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. var að víkja að því sem ég sagði hér um kostnaðarskiptinguna. Ef svo hefur verið vil ég bara undirstrika það sem ég sagði að ég vil að eðlilegir samskiptahættir séu virtir í þessu máli eins og öðrum. Auðvitað áttu að fara hér fram eðlilegar viðræður á milli ríkisvaldsins eða menntmrn. annars vegar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um þetta mál áður en frv. verður að lögum. Það er það sem ég er að leggja áherslu á. Það er það sem Samband íslenskra sveitarfélaga er að mótmæla þegar það segir:

,,Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga mótmælir þeirri breytingu á ákvæði gildandi laga um framhaldsskóla er kveður á um að ríkið greiði byggingu heimavistarhúsnæðis við framhaldsskóla að fullu.``

Auðvitað áttu þessar viðræður að fara fram. Það er það sem ég er að segja. Og ég vil segja hv. þm. að mér finnst ótækt að blanda inn í þetta mál einhverri nýtingu á heimavistum. Hvort sem þær eru notaðar yfir sumarmánuðina sem hótel eða ekki finnst mér algjörlega óskylt mál. Það á bara að ganga tryggilega frá því í samningum. Það kemur þessu máli ekkert við.