Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:08:59 (5615)

1996-05-03 16:08:59# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:08]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ræðu minni beindi ég orðum mínum ekki sérstaklega til hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, mér fannst ekkert óeðlilegt við málflutning hans hér. Hann ræddi á málefnalegan hátt um frv. og það er ekkert nema gott um það að segja. Við höfum mismunandi skoðun á þessu atriði hvað varðar kostnaðarhlutdeildina hjá sveitarfélögum í byggingu heimavista. En ég held að það sé eðlilegt að sveitarfélögin taki þátt í byggingu heimavista um 40% vegna þess að það gilda kannski örlítið önnur sjónarmið og aðrar kröfur þegar byggja á einungis fyrir heimavistarrekstur, fyrir námsmenn, en þær kröfur sem sveitafélögin vilja kannski gera til byggingar hótels. Með þessari hlutdeild sveitarfélaganna í kostnaðinum fá þau því tækifæri til að ráða ferð uppbyggingarinnar. Hvernig stærð herbergja er, hvernig húsgögn og annar búnaður er svo húsnæðið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til gistirýmis. Það skiptir geysilega miklu máli eins og þeir þekkja sem hafa ferðast um landið og gist í gömlu heimavistarskólunum þar sem rúmin eru kannski einn og sjötíu á lengd. Auðvitað þarf að huga að þessum málum alveg sérstaklega. En ég vil bæta því við varðandi framhaldsskólann, þótt kannski sé ekki mikill tími til þess núna, að þegar fulltrúar Reykjavíkurborgar komu til fjárln. í fyrrahaust tilkynnti borgarstjórinn í Reykjavík að Reykjavíkurborg mundi ekki taka þátt í uppbyggingu framhaldsskóla á næstunni. Það vakti athygli mína. Þar var ekki verið að tala um uppbyggingu heimavistar fyrir þann stóra hóp landsbyggðarnemenda sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg hefur ekki lagt mjög mikið til þess, og ekki var heldur meiningin að taka þátt í uppbyggingu skólahúsnæðis svo sem eins og endurgerð og lagfæringum á þeim merka 150 ára gamla skóla, MR. Þetta vakti athygli mína en það er ekki tilefni til að ræða það í andsvari.