Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:45:00 (5619)

1996-05-03 16:45:00# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:45]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að ræðu minni í tölu sinni hér og nefndi þá einkum það sem ég sagði um kostnaðarhlutdeild ríkisins og sveitarfélaganna í byggingu heimavistarhúsnæðis. Ég endurtek það sem ég sagði. Í fyrsta lagi vakti ég athygli á því að þessi breyting yrði gerð og væri gert ráð fyrir því að að henni framgenginni yrði samið við sveitarfélögin á þann veg að þeim yrði bætt þessi aukna hlutdeild í heimavistarbyggingunum upp með einhverjum þeim hætti sem samkomulag yrði um. Þetta er grundvallaratriði.

Í öðru lagi ítreka ég að það eigi að gilda sama kostnaðarhlutdeild um alla hluta framhaldsskólahúsnæðis þannig að það sé sama regla sem gildi alls staðar. Í þriðja lagi nefndi ég það að sveitarfélögunum bæri að hafa vald á gerð og öllum búnaði heimavistarbygginganna til þess að geta nýtt heimavistirnar fyrir ferðaþjónustuna. Ég tel að með þeim hætti sem hér er fram gengið í frv. sé þessu vel fyrir komið og þess vegna styð ég þetta. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að þetta væri ekki til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna, benti á Eddu-hótelin. Ég er sammála því að þau hafa gegnt mikilvægu hlutverki og nefndi það í ræðu minni en ég tel hins vegar að jafnframt þurfi að gæta jafnræðis þannig að það sé ekki staðið óeðlilega að stuðningi við uppbyggingu eintakra gististaða eins og gæti orðið ef ríkið væri að öllu leyti að greiða kostnað í heimavistum. Þess vegna tel ég ekki óeðlilegt að kostnaðarskipting sé með þeim hætti sem hér er nefnt og gert ráð fyrir. Ég vildi síðan vekja athygli á því að hv. þm. gagnrýndi frv. nokkuð. Þó sýnist mér menn séu almennt í umræðunni meira sammála en áður hefur verið.