Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:47:59 (5620)

1996-05-03 16:47:59# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég lít á þetta sem prinsippmál og mér nægja ekki þau venjulegu rök sem alltaf koma til þegar verið er að velta einhverju yfir á sveitarfélögin að svo eigi eftir á að fara í það að semja um að þetta verði að einhverju leyti jafnað upp í gegnum jöfnunarsjóð. Ég tel þetta ekki nógu gott. Hér er um prinsippmál að ræða og ég tel að það eigi að leysa það með þeim hætti að ríkið sjái fyrir þessum þætti. í öðru lagi að sama eigi að gilda um allt húsnæði. Það er ekki sambærilegt. Það er akkúrat í þessum þætti skólahaldsins sem mismunurinn liggur milli þeirra sveitarfélaga sem þannig eru sett eða standa þannig að skóla að þar þarf heimavistir og hinna. Þess vegna er eðlilegt að ríkið komi þar inn. Ég er ósammála því að þetta sé sambærilegt, ósammála því að það eigi að gilda sama reglan um allt húsnæðið vegna þess að sérstaða sumra skólanna birtist í þessu að það þarf heimavistir til þess að hægt sé að halda uppi eðlilegu skólahaldi og sérstaða sumra byggðarlaganna í því sambandi. Um að þetta sé nauðsynlegt til þess að sveitarfélögin fái forræði yfir húsnæðinu kannast ég ekki við það vandamál að hafi menn haft hugmyndir um nýtingu húsnæðisins þegar það er í byggingu jafnvel verið tilbúnir til að leggja eitthvað af mörkum til að gera það betur úr garði þá hafi strandað á því. Ég kannast ekki við það. Mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tímann verið fyrirstaða af hálfu ríkisins ef menn vilja leggja eitthvað umfram norm í húsnæði að það væri þá gert og ég rakti líka dæmi um það hvernig þetta er leyst m.a. með viðbótarálmum o.s.frv. víða þar sem ágætlega hefur tekist til. Varðandi það að forðast mismunun þá er það gilt sjónarmið að reyna að valda ekki því að með ósanngjörnum hætti sé raskað samkeppnisskilyrðum en það væri þá ekki það versta þó að heimavistirnar nýttust í einhverjum tilvikum til sumargistingar þegar hvort sem er er yfirleitt góð nýting á öllu gistirými. Ætli við ættum þá ekki fyrr að líta t.d. á framlög til heils árs hótela og hvernig þeim hefur á köflum verið varið. Sum hótel á landsbyggðinni eru styrkt en önnur ekki. Og ýmis framlög hafa á undanförnum árum farið í gegnum ferðamálasjóð til hlutafjáraukningar í sumum hótelum en ekki öðrum. Okkur er báðum málið skylt, mér og hv. þm., þannig að við skulum nú ekki fara að segja að þetta væri það erfiðasta í þeim efnum þó að heimavistirnar væru nýttar með tiltæknum hætti til sumargistingar og áfram hugað að því að við uppbygginu þeirra sé þetta haft í huga sem er þjóðhagslega hagkvæmt og skynsamlegt að húsnæðið sé nýtanlegt einmitt í þessu skyni á meðan skólarnir starfa ekki, fellur ágætlega að toppinum í ferðaþjónustu okkar yfir sumarmánuðina þannig í rauninni er þar um mjög hagkvæmt fyrirkomulag fyrir alla aðila að ræða, líka skólana, vegna þess að tekjur af hótelrekstrinum á sumrin hafa iðulega borið uppi viðhaldið og endurbæturnar á þessu húsnæði.