Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 16:51:02 (5621)

1996-05-03 16:51:02# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[16:51]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmaðurinn taldi að það væri ekki nein trygging fyrir því og þyrfti ekki að hafa það sem tryggingu að sveitarfélögin væru auknir þátttakendur í kostnaði og þar með eign. Ég bendi á það vegna þess að hann taldi að það sæist í engu að það hefði þurft að halda betur á við undirbúning og uppbyggingu heimavistarhúsnæðis í landinu svo það gæti uppfyllt kröfur og þarfir ferðaþjónustunnar. Ég segi alveg eins og er að það er því miður mjög fjarri því að það húsnæði í heimavistum um landið sem nýtt er til ferðaþjónustunnar uppfylli þær kröfur sem ferðaþjónustan gerir í dag. Það er náttúrlega vegna þess að það var verið að byggja heimavistarhúsnæði fyrir unglinga og hálffullorðið fólk en ekki verið að byggja upp aðstöðu fyrir ferðaþjónustu. Þarna er um grundvallaratriði að ræða og ég held að um allt land og m.a. í kjördæmi hv. 4. þm. Norðurl.e. sé einmitt staðið frammi fyrir því að það þurfi að fara í stórkostlegar endurbætur, endurgerð, endurbyggingu á þeim heimavistum sem eru nýttar fyrir ferðaþjónustu. Af því að hann nefndi styrki til heils árs hótela sem hefur verið reynt að gera tortryggilegt vil ég bara rifja það upp að einhverjar mögnuðustu og mest afgerandi aðgerðir til þess að styrkja ,,heils árs hótel`` voru m.a. framkvæmdar mjög myndarlega í tíð hans sem hæstv. samgrh. Á því var tekið þá þannig að ég er sammála því að það hallast ekki á milli kjörtímabila hvað það varðar enda er geysilega mikilvægt að efla það sem hæstv. núv. samgrh. og þáv. samgrh. kallaði flaggskip ferðaþjónustunnar á Íslandi sem eru hótelin sem geta veitt góða þjónustu í gistingu og öðru og skapað skilyrði til þess að halda uppi ráðstefnuhaldi og vera leiðandi í markaðssókn á tilteknum svæðum. Þá er ég náttúrlega kominn út fyrir það efni sem hér er til umræðu, þ.e. framhaldsskóla, en ég ítreka það að ég styð þetta frv. og tel að 37. gr. sem lýtur að hlutdeild ríkisins og sveitarfélaganna sé eðlileg.